Mánudagur 2. september 2002

245. tbl. 6. árg.

ULANDBUNADURmhverfisráðherra hefur verið þráspurður um það í fjölmiðlum síðustu dagana hvort Íslendingar þurfi ekki að aflétta innflutningshöftum á landbúnaðarafurðir og hætta niðurgreiðslum til landbúnaðar svo íbúar þróunarlanda geti selt framleiðslu sína hingað og komið efnahag sínum á legg. Því miður hefur orðið fátt um svör. Kannski er ekki von á öðru frá ráðherra Framsóknarflokksins þegar landbúnaðarmál eru annars vegar.

Mörg ríki Vesturlanda eru í svipaðri stöðu og Íslendingar hvað þetta varðar. Evrópusambandið leggur allt að 140% tolla á innflutning frá Afríku og niðurgreiðir framleiðslu evrópskra bænda verulega sem leiðir auðvitað til offramleiðslu. Þessari niðurgreiddu framleiðslu er svo varpað inn á heimsmarkað svo bændur þróunarlandanna eigi alls engan möguleika að koma sínum afurðum í verð.

Aukið frelsi í viðskiptum með landbúnaðarafurðir mun auðvitað hafa breytingar í för með sér, ekki síst fyrir óhagkvæma framleiðslu í ýmsum löndum. Ýmsir óttast að þessar afleiðingar verði eingöngu neikvæðar og vilja halda í höftin, tollana, niðurgreiðslurnar og aðra ríkisforsjá. Væntanlega vegna þess að klárasta fyrirmyndin að lokuðu hagkerfi, Norður-Kórea, er mesta velmegunarland í víðri veröld.

Íslendingar myndu fyrst og fremst finna fyrir afleiðingum aukins viðskiptafrelsis með landbúnaðarafurðir og minni niðurgreiðslna með tvennum hætti : Lægri sköttum og lægra matarverði. Það hugnast umhverfisráðherranum auðvitað ekki.