UNSUMMITLOGOFrá 26. ágúst síðastliðnum til 4. september næstkomandi hópast um 60.000 manns, þar af um 100 þjóðarleiðtogar, til Jóhannesarborgar í Suður Afríku til að taka þátt í ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um „sjálfbæra þróun“. Á ráðstefnunni er reyndar margt annað rætt einnig, svo sem fátækt og misskipting auðs í heiminum, og tilgangurinn er ekki nema hæfilega markviss. Meðal annars af þeirri ástæðu er ólíklegt að gagnleg niðurstaða náist. Önnur ástæða þess að litlar líkur eru til að gagn verði af ráðstefnunni er að hún byggist að stórum hluta á misskilningi. Misskilningurinn er að minnsta kosti af tvennum toga. Annars vegar er ástæða þess að verið er að ræða um hina svo kölluðu sjálfbæru þróun sú, að margir halda að þróunin hingað til hafi ekki verið sjálfbær, og eiga þá við að hún geti ekki haldið áfram vegna þess að mannskepnan sé að ganga á auðlindir jarðarinnar. Hins vegar er misskilningurinn sá að fátækir íbúar heimsins hafi sjaldan eða aldrei verið verr staddir en nú. Sem betur fer á hvorugt við rök að styðjast. Um þetta er fjallað í tveimur skýrslum sem Cato stofnunin í Bandaríkjunum hefur gefið út í tilefni ráðstefnunnar og má finna þær báðar á vef stofnunarinnar. Önnur þeirra er eftir Jerry Taylor og heitir Sustainable Development – A Dubious Solution in Search of a Problem. Í henni fjallar hann um hugtakið „sjálfbæra þróun“, erfiðleikana við að skilgreina það og þann misskilning að auðlindir jarðar séu almennt í hættu. Taylor leggur áherslu á að hagvöxtur og bættur efnahagur bæti umhverfi manna og heilsufar og að misskilin barátta ríkja gegn hagvexti og sú miðstýringarárátta, sem oft fylgi, geti verið hættuleg.
„ … sýni þær að velferð langstærsta hluta jarðarbúa hafi farið batnandi og haldi áfram að batna. Samspil hagvaxtar og tækniframfara síðustu hálfu öldina valdi því að meðalmaðurinn lifi nú lengur, sé síður svangur, sé heilsuhraustari, betur menntaður og að meiri líkur séu á að börnin hans sæki skóla en séu á vinnumarkaðnum.“ |
Höfundur hinnar skýrslunnar, The Globalization of Human Well-Being, er Indur M. Goklany. Í skýrslunni tekur Goklany fyrir fimm mælikvarða velferðar. Þessir mælikvarðar eru fæðuframboð á mann, ungbarnadauði, atvinnuþátttaka barna, lífslíkur við fæðingu og þróunarvísitala Þróunaráætlunar Sameinuðu þjóðanna (e. human development index, HDI). Síðastnefndi mælikvarðinn er settur saman úr þremur þáttum, lífslíkum við fæðingu, menntunarstigi og tekjum á mann. Þegar fyrsti mælikvarðinn er lagður á velferð manna í heiminum sést að fæðuframboð á mann í þróunarríkjunum hefur aldrei verið meira en nú og líkur þess að menn þar líði hungur eða þjáist af vannæringu hafa aldrei verið minni. Önnur staðreynd um þessa mælistiku, sem ef til vill kemur nokkuð á óvart miðað við þær umræður sem yfirleitt eiga sér stað, er að bilið á milli þróaðra ríkja og þróunarríkja hefur minnkað á þennan mælikvarða. En sumir eru ósáttir við notkun meðaltala og benda á að þau geti falið þá staðreynd að sumir hafa það afar erfitt. Þessi hætta er vissulega fyrir hendi þegar meðaltöl eru notuð, en þá má líta á þá fátækustu og kanna hversu margir búa við viðvarandi næringarskort. Frá því um 1970 til loka síðasta áratugar fækkaði þessum verst stöddu íbúum þróunarríkjanna úr 920 milljónum manna í 790 milljónir. Vegna fjölgunar í þessum ríkjum á þessu tímabili þýðir þessi fækkun að hlutfall þessa fólks af heildarfjölda þróunarríkjanna lækkaði úr 35% í 17%.
Fyrir iðnbyltinguna var ungbarnadauði yfirleitt meiri en 200 af hverjum 1.000 fæddum. Þegar iðnbyltingin hóf innreið sína hríðféll þetta hlutfall í iðnríkjunum. Um miðja síðustu öld var orðið mikið bil á milli þróunarríkja og þróaðra ríkja að þessu leyti. Í þróuðum ríkjum var ungbarnadauði kominn niður í 59, en í þróunarríkjunum var hann 178. Árið 1998 var ungbarnadauði í fyrrnefndu ríkjunum kominn niður í 9 og í hinum síðarnefndu niður í 64, sem þýðir að ástandið hefur batnað mun hraðar í þróunarríkjunum. Lífslíkur manna hafa í gegnum veraldarsöguna yfirleitt legið á bilinu 20 til 30 ár. Bilið á lífslíkum þróaðra ríkja og annarra var 25 til 30 ár fyrir fjórum áratugum þegar lífslíkur þróaðra ríkja voru 70 ár en 40 til 45 ár annars staðar. Lífslíkur hafa hækkað síðan þá og meira í þróunarríkjunum en í þróuðu ríkjunum. Undantekning eru fátækustu ríkin sunnan Sahara. Þar hafa lífslíkur aukist, en þó ekki haldið í við aukninguna í þróuðu ríkjunum í árum talið, þó hlutfallslega hafi lífslíkur aukist meira þar. Ástandið í þessum ríkjum hefur enda verið mjög litað af faröldrum á borð við AIDS og malaríu, auk þess sem átök hafa verið tíð og stjórnarfar með því versta sem þekkist. Að sögn Goklanys er malarían afleiðing þess að ríkari þjóðir heimsins tóku sig til um 1960 og bönnuðu DDT skordýraeitrið og hættu framleiðslu þess. Þessi ríki segir hann að hafi þegar sigrast á malaríunni eða haft efni á dýrari leiðum til að takast á við hana, en afleiðingarnar fyrir fátækustu ríki Afríku voru þær að dauðsföllum vegna malaríu fjölgaði á ný eftir að hafa fækkað mikið vegna notkunar DDT Atvinnuþátttaka barna hefur minnkað mikið á síðustu fjórum áratugum, sérstaklega í þróunarríkjunum. Þetta á jafnvel við um fátækustu ríkin í sunnanverðri Afríku, þó ástandið þar hafi batnað minna en annars staðar. Á mælikvarða þróunarvísitölunnar, HDI, hefur ástandið batnað í öllum hópum ríkja frá því farið var að gera þessar mælingar árið 1975. Enn eru það þó nokkur ríki sunnan Sahara sem skera sig úr, því ástandið þar versnaði á árunum 1990 til 1990 af þeim ástæðum sem nefndar voru hér að framan.
Goklany segir að þegar niðurstöður rannsóknarinnar séu teknar saman sýni þær að velferð langstærsta hluta jarðarbúa hafi farið batnandi og haldi áfram að batna. Samspil hagvaxtar og tækniframfara síðustu hálfu öldina valdi því að meðalmaðurinn lifi nú lengur, sé síður svangur, sé heilsuhraustari, betur menntaður og að meiri líkur séu á að börnin hans sæki skóla en séu á vinnumarkaðnum. Þessa hálfu öld hafi mælikvarðar velferðar batnað fyrir alla hópa landa, en líflíkur hafi þó minnkað í mörgum ríkjum sunnan Sahara frá því á seinni hluta níunda áratugarins af fyrrgreindum ástæðum. Þá segir Goklany að út úr gögnunum megi einnig lesa að þar sem munur á velferð hafi farið vaxandi sé það ekki vegna of mikillar alþjóðavæðingar. Þvert á móti sé það vegna of lítillar alþjóðavæðingar. Hinir ríku séu ekki betur settir vegna þess að þeir hafi tekið eitthvað af hinum fátæku, raunin sé frekar sú að hinir fátæku séu betur settir því þeir hafi notið góðs af tækni sem hinir ríku hafi þróað og að ástandið hefði batnað enn frekar hefðu þeir nýtt alþjóðavæðinguna betur.
Goklany gagnrýnir ríku löndin þó fyrir tvennt. Annars vegar fyrir að hafa barist gegn notkun DDT og hins vegar fyrir að beita niðurgreiðslum og tollahindrunum til að vernda ákveðna atvinnustarfsemi. Þessi vernd hafi dregið úr hraða alþjóðavæðingarinnar og gert mörgum þróunarríkjum erfiðara fyrir að nýta sér kosti hennar.