Fram hefur komið að þeir eru til sem telja að pólitík spili inn í einkavæðingarferli Landsbanka Íslands og þykjast sjá að einhverjir framsóknarmenn séu að reyna að tryggja vinum sínum og flokksbræðrum ítök í viðskiptalífinu. Ekki verður lagt mat á þetta hér. Það sem er hins vegar ástæða til að gera hér er að benda á, að það er einmitt vegna þess að pólitík ræður of miklu við stjórn bankans sem nauðsynlegt er að einkavæða hann. Ríkið á nú innan við helming hlutafjár í bankanum, og má því segja að einkavæðing hans sé vel á veg komin. Sá munur virðist líka orðinn á rekstri bankans að þar hafa arðsemissjónarmið ráðið meiru á síðustu misserum en áður var, þó engin leið sé að útiloka að einhvers konar pólitískur dauðakippur hafi gert vart við sig á dögunum.
Staðreyndin er sú að þegar hið opinbera rekur fyrirtæki er óhjákvæmilegt að pólitík hafi áhrif á rekstrarákvarðanir. Markmið fyrirtækisins, sem ættu að einskorðast við að hámarka hagnað, verða loðnari og ýmis önnur sjónarmið fara að spila inn í. Þess vegna draga pólitísk afskipti úr hagnaði fyrirtækja og þar með úr hagsæld í samfélaginu. Af þessum ástæðum er svo mikilvægt að vel takist til um lyktir einkavæðingar Landsbanka, Búnaðarbanka og fleiri fyrirtækja. Þegar ríkissjóður verður kominn út úr bönkunum fyrir fullt og allt geta menn hætt að velta því fyrir sér hvort markaðurinn eða pólitíkin ráði og eiga að geta treyst því betur að eðlilegar forsendur séu fyrir þeim ákvörðunum sem teknar eru.
Að vísu verður að setja hér einn fyrirvara. Yfirforstjóri Íslands, svo kallaður forstöðumaður samkeppnissviðs Samkeppnisstofnunar, á það til að taka völdin af fyrirtækjum og stýra þeim inn á óhagkvæmar brautir. Þetta er gert í nafni samkeppni, en er auðvitað í andstöðu við frjálsa samkeppni og lögmál markaðarins. Á meðan Samkeppnisstofnun leikur lausum hala og gerir innrásir í fyrirtæki eftir eigin hentugleikum verða menn því að sætta sig við að hámarks hagkvæmni náist ekki.