Heilbrigðisráðherra var fenginn í spjallþátt að loknum fréttum í sjónvarpi í fyrradag. Í þættinum var – eins og venja er þegar rætt er við heilbrigðisráðherra í fjölmiðlum – rætt um „vanda heilbrigðiskerfisins“. Þessi vandi er alltaf sá sami að áliti þáttastjórnenda; heilbrigðisráðherra og aðrir stjórnmálamenn eru ekki nægilega örlátir á fé þegar kemur að heilbrigðismálum. Að þessu sinni var farið í gegnum sömu umræðu og gert hefur verið frá því elstu menn muna, nefnilega hvort ekki væri of litlu fé varið til heilbrigðismála og hvað stæði til að gera til að auka útgjöldin. Ekki var minnst orði á hugsanlegar raunverulegar lausnir á vandanum, aðeins hvernig ausa mætti meira fé úr ríkissjóði, þ.e. vösum almennings. Og undir þetta er hugsunarlaust tekið hér og þar, til að mynda í leiðara Morgunblaðsins, þar sem fullyrt var í gær að ekki mætti „halda áfram að skera niður heilbrigðisþjónustuna“, frekar ætti að hækka skatta en að „halda áfram á þessari braut“.
Hún er sérkennileg þessi umræða um að sífellt sé verið að skera niður í heilbrigðiskerfinu, og enn furðulegra að þeir sem ættu að vera þokkalega upplýstir skuli slá fram fullyrðingum af svo mikilli vanþekkingu. Vilji menn staðreyndir þá eru þær eftirfarandi – eins og lesa má um í Vefriti fjármálaráðuneytisins frá í gær:
„Ef litið er á þróun útgjalda hins opinbera þá sést að gríðarlegur vöxtur hefur verið í heilbrigðisútgjöldum síðustu áratugi. Árið 1970 námu útgjöldin 3,2% af vergri landsframleiðslu. Árið 1980 var hlutfallið komið í 5,5% sem jókst síðan í 6,8% árið 1990. Undir lok síðustu aldar var síðan áætlað að hlutfallið væri komið yfir 7,5%. Hagfræðistofnun hefur áætlað að vöxtur heilbrigðisútgjalda á tímabilinu 1994-1998 hafi verið um 6% á ári að meðaltali, þar af tæp 4,9% vegna annarra þátta en lýðfræðilegra breytinga.“
Þessu til viðbótar kemur fram í vefritinu að samkvæmt úttekt OECD eru útgjöld hins opinbera til heilbrigðismála hærri hér á landi en í nokkru öðru landi OECD.
En svona staðreyndir skipta engu, því sumir vilja bara trúa því að hér sé hnífurinn sífellt á lofti og að hér eiri menn engu og séu með tóman fantaskap við sjúklinga. Þess vegna er það líka sem umræða um heilbrigðismál kemst aldrei á hærra plan en raun ber vitni. Einungis er rætt um hve miklu sé eytt og hvers vegna ekki sé eytt meiru, en engum dettur í hug að ræða hvort hægt sé að verja takmörkuðum fjármununum betur. Hvernig væri til dæmis að spyrlar spyrðu heilbrigðisráðherra hvers vegna hann beiti sér ekki fyrir einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu? Hvers vegna spyr enginn ráðherrann hvort hann hafi ekkert hugsað sér að nýta peningana betur með því að leyfa læknum og öðrum sem starfa að heilbrigðismálum að keppa um að veita sem besta þjónustu fyrir lægst verð? Dettur mönnum virkilega ekki í hug að kostir einkaframtaksins gætu nýst í heilbrigðiskerfinu, eða þora þeir bara ekki að nefna möguleikann? Má ekki einu sinni ræða aðrar leiðir? Þeir sem alltaf tala um „upplýsta umræðu“, af hverju eru þeir svo sannfærðir um það að núverandi heilbrigðiskerfi sé fullkomnast allra kerfa að þeir neita algerlega að ræða það hvort önnur skipan á þó ekki væri nema einhverjum hlutum kerfisins gæti reynst betur. Hefur Vinstri rauðum, Samfylkingunni og forfeðrum þeirra, Alþýðubandalaginu og fleiri góðum flokkum, tekist að hræða menn algerlega frá því að halda uppi vitrænni umræðu um heilbrigðismál? Hversu mikið skyldu útgjöld til heilbrigðismála sem hlutfall af landsframleiðslu þurfa að vaxa til að menn átti sig á að vandinn liggur ekki í of lágum fjárveitingum heldur í ofvexti ríkisbáknsins og skorti á einkaframtaki?