Fimmtudagur 29. ágúst 2002

241. tbl. 6. árg.

Ádögunum minntist Vefþjóðviljinn á merka fræðslustofnun, Stjórnmálaskóla Framsóknarflokksins, og tók hana sem dæmi um möguleika nútímamannsins á símenntun. En það eru fleiri en Framsóknarflokkurinn sem bjóðast til að svala næstum óslökkvandi prófaþorsta fólks og ýmsir tómstundaskólar og félagsmiðstöðvar keppast nú við að bjóða upp á „hagnýt námskeið“ í hinu og þessu. Fyrirtæki nokkurt, „Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands“, er umfangsmikið á þessum markaði og sendi nýlega út bæklinga til að kynna vetrarstarfið. Kennir þar ýmissa grasa og munu flestir geta fundið þar námskeið sem hægt er að láta einhvern kosta sig á. Meðal námskeiða er til dæmis eitt sem ber hið aðlaðandi nafn „Möguleikar og sóknarfæri í Evrópusamstarfi“ og er ætlað þeim sem gera út á evrópska sjóði. Það er semsagt boðið upp á sérstök námskeið til að auðvelda gírugum Íslendingum að ná peningum út úr skattgreiðendum Evrópusambandslandanna, því eins og sumir átta sig á þá framleiðir Evrópusambandið ekki peninga heldur eru þeir teknir með valdi af íbúum þessara landa, og svo deilt út til þeirra sem hafa sérhæft sig í að leita eftir slíkum „styrkjum“.

Gaman væri ef „styrkþegar“ færu að átta sig á að „styrkirnir“ sem þeir fá eru ósjaldan teknir með valdi af öðru fólki. Það kannski héldi aftur af einhverjum í umsóknaæðinu. Og þó, kannski ekki. Er nokkur sem áttar sig ekki á því að hann er að sækja í sjóði sem fjármagnaðir eru með nauðungargjöldum? Annað mál er hins vegar ef sá sem veitir styrkinn gerir það af fúsum og frjálsum vilja – og er þá jafnframt átt við að hann geri það ekki vegna þess að ósanngjarnar skattareglur hvetji hann til þess. Það er ekkert að því að sækja um og þiggja slíkan styrk.

Námskeiðið fyrir væntanlega styrkjasuðara er þó ekki undarlegasta námskeiðið sem „Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands“ býður upp á í vetur. Þar á „Fleiri konur á Alþingi“ sennilega vinninginn, en því námskeiði er svo lýst: „Fjallað er um kvenlæga og karllæga stjórnun, rannsóknir á mismunandi áhugasviðum kvenna og karla í stjórnmálum og sagðar reynslusögur. Farið í hvernig nota má hugkort og lárétta hugsun til þess að nýta tíma og auka árangur og ánægju í félagsstörfum. Að þekkja möguleika raddarinnar í þeim tilgangi að ná til fólks. Kennt er hvernig frambærileg ræða er samin og flutt. Fjallað um samskipti við fjölmiðla, m.a. hvernig konur komast að í fjölmiðlum og hvernig fjölmiðlafólk vinnur.“

Mætum öll.