Morgunblaðið í Reykjavík birtir á miðopnu sinni á laugardag þýdda grein eftir John Gray, prófessor í „evrópskri hugsun“ við London School of Economics and Political Science. Þar viðrar prófessor Gray allsérstæða kenningu um það að „sagan“ eða „reynslan“ hafi fært sönnur á að „nýfrjálshyggjan“ og „hinn alþjóðlegi frjálsi markaður“ séu um það bil að taka sæti við hlið kommúnismans sem „afskrifaðar útópíur“.
Í þessari stuttu grein Grays er ekki að finna mikinn rökstuðning fyrir þessari kenningu. Vera kann að hana sé að finna annars staðar í skrifum hans, þótt ekki komi það fram í Morgunblaðinu á laugardaginn. Sá grunur læðist hins vegar að lesanda að hér sé fremur um að ræða kenningu, sem varpað hefur verið fram í spjalli á einhverju kaffihúsi, krá eða kennarastofu, án þess að um ítarlegri rannsóknir, athuganir eða röksemdafærslu hafi verið að ræða. Engu að síður er ástæða til að svara henni nokkrum orðum, enda eru þau sjónarmið, sem hann reifar, dálítið dæmigerð fyrir sjónarmið ýmissa vinstri manna í háskólasamfélaginu, fjölmiðlum og stjórnmálum. Þeir hafa margir séð æskuhugsjónir sínar um kommúnisma og sósíalisma bregðast en finna sér huggun í þeirri trú að það sama eigi við um kapítalismann.
„Þaðan af síður hafa fræðimenn í anda frjálshyggju haldið því fram að það væri einhver óhjákvæmileg þróun eða söguleg nauðsyn, sem leiddi til þess að öll ríki heimsins myndu á endanum taka upp sama stjórnarfar og sama hagkerfi.“ |
Kenning Grays byggir á nokkrum forsendum, sem standast illa nánari skoðun. Í fyrsta lagi byggir hann á því að marxismi og það sem hann kallar nýfrjálshyggja (sem hann skilgreinir ekki nánar) séu sambærileg hugmyndakerfi að því leyti að þau geri bæði ráð fyrir því sem óhjákvæmilegri þróun, að öll hagkerfi taki á endanum upp sama hagkerfi, en þeirri þróun megi flýta með ýmsum hætti. Þarna gætir annars vegar þess misskilnings, að nýfrjálshyggja eða frjálshyggja sé fastmótuð hugmyndafræði með sama hætti og marxismi. Þeir sem kynnt hafa sér skrif heimspekinga, hagfræðinga og annarra fræðimanna, sem kenndir eru við frjálshyggju, vita að svo er ekki. Frjálshyggja varð ekki til á teikniborði einhverra einstakra hugmyndafræðinga með sama hætti og marxismi. Frjálshyggjuhugtakið hefur verið notað yfir sjónarmið ýmissa manna á ýmsum tímum, sem ganga út frá svipuðum lífsviðhorfum um einstaklings- og athafnafrelsi, en fáir þeirra hafa nokkurn tímann treyst sér til að búa til ákveðna, ófrávíkjanlega uppskrift að því hvernig mannlegt samfélag á að vera. Þaðan af síður hafa fræðimenn í anda frjálshyggju haldið því fram að það væri einhver óhjákvæmileg þróun eða söguleg nauðsyn, sem leiddi til þess að öll ríki heimsins myndu á endanum taka upp sama stjórnarfar og sama hagkerfi. Ólíkt því sem Gray heldur fram, gera flestir frjálshyggjumenn sér grein fyrir að það er langt frá því að vera sjálfgefið, þótt þeir kunni á hinn bóginn að vonast til þess að einstök ríki og ríkisstjórnir muni eftir því sem tíminn líður læra af eigin mistökum og árangri annarra. Það er raunar kunnara en frá þurfi að segja að margir frjálshyggjumenn telja lítil ríkisafskipti, eða lágmarksríkið, vera fremur óstöðugt ástand þar sem pólitískt vald, hversu lítið sem þar er, hafi tilhneigingu til að þenjast út.
Annar misskilningur í grein Johns Gray er sá, að ástæðan fyrir hruni kommúnismans í Austur-Evrópu hafi fyrst og fremst verið sú, að hið kommúníska hagkerfi hafi ekki verið fært um að uppfylla þarfir hinna mörgu ólíku þjóða, sem tilheyrðu Sovétríkjunum eða voru undir járnhæl þess. Þetta er vægast sagt hrikaleg einföldun. Vissulega reyndist Sovétstjórninni misjafnlega erfitt að koma á kerfinu í hinum ólíku löndum og komu þar til ólíkar hefðir, menning og trúarbrögð. Það var hins vegar ekki grundvallarorsök þess að kerfið hrundi. Ástæðan var miklu frekar sú, að kerfið reyndist með öllu ófært um að uppfylla þarfir og væntingar þeirra einstaklinga, sem undir það voru settir. Kerfið byggði á þeim hrapalega misskilningi, að unnt væri að skipuleggja líf allra þjóðfélagsborgaranna að ofan, að ríkisvaldið vissi betur en einstaklingarnir hvernig þeir ættu að haga lífi sínu og hvað þeim væri fyrir bestu. Þessi misskilningur leiddi annars vegar af sér að kommúnismanum varð hvorki komið á né viðhaldið nema með ofbeldi og hins vegar til þess að hagkerfið virkaði illa, framleiðsla og framboð á vöru og þjónustu var ekki í samræmi við þarfir og væntingar og efnahagslegar stoðir þessara ríkja grotnuðu niður. Fólkið í löndum Austur-Evrópu sætti sig ekki við að búa við verri lífskjör og minni lýðréttindi heldur en nágrannar þeirra í vestri og því var kerfinu varpað fyrir róða þegar að efnahagsvandinn var orðinn slíkur að Sovétstjórnin var orðin ófær um að halda uppi þeim hernaðarmætti, sem hún byggði lengi vald sitt á. Misskilningur Grays er því sá, að telja grundvallarmistökin hafa verið fólgin í því að reyna að koma á kommúnisma í mörgum ólíkum löndum með mismunandi þjóðum og þjóðarbrotum, mistökin lágu í miklu djúpstæðari göllum og grundvallarmisskilningi í hugmyndakerfinu sjálfu.
Í þriðja lagi gætir þess misskilnings hjá Gray, að viðleitni Vesturlanda til að greiða fyrir alþjóðlegum viðskiptum og viðskiptafrelsi sé sambærileg við viðleitni Sovétríkjanna til að útbreiða heimskommúnismann. Í raun þarf yfirgripsmikla vanþekkingu á sögu síðustu áratuga til að halda þessu fram. Vesturlönd hafa ekki beitt hervaldi til að útbreiða hugmyndir sínar um alþjóðlegt viðskiptafrelsi með sama hætti og Sovétstjórnin gerði. Þau hafa hins vegar stundum haft afskipti til að sporna við tilraunum annarra til að koma á kommúnisma með hervaldi eða tilraunum annarra alræðis- eða einræðisríkja til að ógna vestrænum hagsmunum og öryggi. Alþjóðlegar stofnanir á borð við Alþjóða viðskiptastofnunina, Alþjóðabankann eða Alþjóða gjaldeyrissjóðinn eru ekki að þvinga alla heimsbyggðina með ofbeldi til að taka upp frjálst markaðshagkerfi. Þessar stofnanir miða hins vegar við að þau ríki, sem vilja vera njóta ávaxtanna af starfi þessara stofnana, fylgi ákveðnum leikreglum. Ríki geti með öðrum orðum ekki notið ávaxtanna af því að aðrir taki upp viðskiptafrelsi nema gera slíkt hið sama sjálf. Á þessu er grundvallarmunur. Enginn er þvingaður til að vera meðlimur í klúbbnum, en vilji menn vera með þurfa þeir að lúta sömu lögmálum og aðrir klúbbfélagar. Þessar alþjóðlegu stofnanir hafa vissulega verið mistækar og gagnrýnisverðar varðandi einstakar ákvarðanir sínar og sumar þeirra eru afskaplega veikburða, en að bera starf þeirra saman við útþenslustefnu Sovétríkjanna sálugu er hrein fásinna.
Í fjórða lagi er að finna í grein Grays þann grundvallarmisskilning, að alþjóðlegt viðskiptafrelsi og markaðshagkerfið hafi með einhverjum hætti brugðist. Dæmin sem hann nefnir eru vandamál í Indónesíu, Argentínu og Rússlandi eftir að Sovétríkin liðu undir lok. Hann nefnir ekkert dæmi um sæmilega þróað markaðshagkerfi, sem hefur brugðist þegnum sínum. Þvert á móti nefnir hann aðeins þessi lönd, sem þrátt fyrir mismunandi aðstæður og sögu eiga það sameiginlegt, að spilling, skortur á innviðum og hefðum, ófullkomið réttarkerfi og þess háttar, hafa truflað gang markaðarins. Í öllum þessum löndum hafa afskipti ríkisins og stjórnmálamannanna verið vandamál fyrir frjálsan markað fremur en að markaðurinn hafi verið vandamál fyrir ríkið og stjórnmálamennina. Dæmin, sem hann velur, eru óheppileg, enda sýna þau að ríkisvaldið er vandamálið en ekki markaðurinn.
Við þessa umfjöllun má svo að lokum bæta, að það er umhugsunarvert hvers vegna Morgunblaðið, sem á árum áður var nokkuð eindreginn málsvari einstaklings- og atvinnufrelsis, gerir sér jafn dælt við sjónarmið manna á borð við John Gray og raun ber vitni. Dæmin eru mörg en beint liggur við að minnast þess hversu dælt blaðið gerði sér við hugmyndir samkennara Grays við LSE, Anthony Giddens, fyrir fáeinum árum. Af umfjöllun blaðsins mátti ráða, að Giddens þessi hefði fundið einhverja nýja „þriðju leið“ milli kapítalisma og sósíalisma, og þar væri um að ræða lausn á hverjum vanda og viðfangsefni í efnahagsmálum og stjórnmálum. Við nánari skoðun kom í ljós, að „þriðja leiðin“ var lítið annað en talsvert lengd útgáfa af kosningastefnuskrá breska Verkamannaflokksins og það sem í henni fólst var í raun bara gamaldags sósíaldemókratismi, ekkert frábrugðinn þeim sem boðaður var af Gylfa Þ. Gíslasyni og Alþýðuflokknum fyrir 30 – 40 árum og framkvæmdur var á sama tíma á Norðurlöndunum og víðar, með alvarlegum afleiðingum fyrir hagkerfi og atvinnulíf viðkomandi landa. Hið „nýja“ við útfærslu Giddens á jafnaðarstefnunni var í raun aðeins orðfærið og framsetningin, sem hafði á sér svipaðan brag og margt af því sem sagt er og skrifað í svokölluðum stjórnunarfræðum nútímans. Innihaldið var hins vegar í sjálfu sér ekkert ósvipað hinni „sænska módeli“ Olofs Palme fyrir 30 árum eða hinni „íslensku leið“ og „útflutningsstefnu“ Ólafs Ragnars Grímssonar og Alþýðubandalagsins fyrir 15 til 20 árum. Enda er það svo, að í dag nefnir ekki nokkur maður „þriðju leiðina“ á nafn, ekki einu sinni Samfylkingin eða bandamenn hennar á íslenskum fjölmiðlum.