Innan nokkurra daga munu mörg þúsund sendimenn ríkisstjórna um víða veröld safnast saman á þingi Sameinuðu þjóðanna um „sjálfbæra þróun“ sem haldið verður í Jóhannesarborg í Suður-Afríku. Samskonar ráðstefna var haldin í Ríó fyrir 10 árum og mun hafa verið vel heppnað partý eins og gleðskapur á kostnað skattgreiðenda er jafnan að mati þeirra sem njóta. Sjálfsagt verður þeim 4 milljörðum króna sem kostar að halda herlegheitin að þessu sinni vel varið, ekki síst að mati þeirra sem njóta viðurgjörnings veisluhaldara. Drög að ályktun þingsins voru fínpússuð af nokkrum slíkum diplótúristum á Balí fyrr í sumar.
Meðal þess sem lagt er til í drögunum er að þjóðir heims taki upp „virka, gegnsæja, auðkennanlega upplýsingaþjónustu um sjálfbæra neyslu og framleiðslu fyrir neytendur sem afvegaleiðir ekki eða mismunar“. Þetta verður meðal annars gert með því þróa „leiðir til að gera almenning meðvitaðan um mikilvægi sjálfbærrar neyslu- og framleiðsluhegðunar, einkum unga fólkið og aðra hópa er málið varðar sérstaklega, ekki síst í þróuðu löndunum“. Á mannamáli þýðir þetta auðvitað ekkert annað en að diplótúristarnir ætla sér að lemja á Bandaríkjamönnum fyrir að hegða sér ekki í samræmi við „sjálfbæra þróun“.
Og barsmíðarnar eru þegar hafnar. Bandaríkin eru úthrópuð fyrir að gefa lítið til aðstoðar erlendis. Það er vissulega rétt að bandaríska ríkið lætur minni hlut þjóðarframleiðslu til aðstoðar erlendis en nokkurt annað ríki. Danska, norska og hollenska ríkið eru hins vegar meðal þeirra sem gefa stærstan hluta þjóðarframleiðslunnar til aðstoðar erlendis. En þessar tölur segja aðeins hálfa söguna. Það er nefnilega hefð fyrir því í Bandaríkjunum að aðstoða náungann með frjálsum framlögum. Bandaríkjamenn hjálpa öðrum með framlögum í ýmsa sjóði og stofnanir á vegum félaga, fyrirtækja, skóla og trúfélaga sem veita þeim sem þurfa aðstoð beint. Skandínavar láta ríkið hins vegar hugsa fyrir sig í þessum efnum eins og svo mörgum öðrum.
Og það eru ýmsar leiðir til að aðstoða aðrar þjóðir. Styrkir til útlendinga til náms í Bandaríkjunum á síðasta ári voru 1,3 milljarðar dala. Þriðji stærsti liðurinn í utanríkisviðskiptum Mexíkó eru peningasendingar vina og ættingja í Bandaríkjunum. Fjárfestingar bandarískra fyrirtækja í atvinnusköpun í þróunarlöndunum hafa lengi verið meiri en frá nokkru öðru ríki. Og Íslendingar hafa eins og ýmsar þjóðir notið herverndar Bandaríkjanna án þess að það sé metið nokkurs í útreikningum diplótúristanna sem streyma nú til Jóhannesarborgar þar sem ríkisstjórn Suður-Afríku hefur eytt tveimur milljörðum króna í veisluborðið.