Fimmtudagur 8. ágúst 2002

220. tbl. 6. árg.

Eigum við þá ekki bara allt eins að afnema umferðarreglurnar og leyfa mönnum að aka blindfullum að vild? Þessi spurning er oft eina svarið við hvers vegna menn vilja banna spilavíti, hnefaleika, einkadans, vændi, sölu áfengis í venjulegum verslunum, auglýsingar á áfengi, notkun ýmissa fíkniefna og fleira sem velviljuðum stjórnmálamönnum og þýlyndum kerfiskörlum þeirra dettur í hug að banna þurfi.

Þó er strax sá munur á umferðarreglum og banni við einkadansi að umferðarreglurnar eru settar til að ökumaður geti ekki óhikað stefnt eigum og lífi samferðamanna sinna í hættu en bann við einkadansi er lagt á til að vernda dansarann fyrir sjálfum sér. Eigendur vega, í flestum tilvikum ríkið, vilja líklega einnig að vegirnir séu nothæfir og því verða ökumenn að sætta sig við ýmis skilyrði fyrir notkun þeirra. Þetta myndi sennilega ekki breytast að ráði þótt aðrir tækju við rekstri veganna. Að minnsta kosti er það ekki reynslan af einkareknum vegum. Eigendur þeirra eru ekki mjög spenntir fyrir því að afnema öll skilyrði fyrir notkun þeirra og gefa mönnum þar með kost á því að aka aðra vegfarendur niður.

Lög gegn klessubílaakstri róna á vegum landsins eru á engan hátt sambærileg banni við því að menn verji eigin lífi í hnefaleika, nektardans, fjárhættuspil eða neyslu áfengis og annarra vímuefna. Þeir sem eru keyrðir niður af fyllibyttum á ráða engu um þau örlög sín. Þeir sem stunda vændi og hnefaleika eða nota vímuefni hafa hins vegar tekið um það ákvörðun sjálfir.