Þýðingarkostnaður í Evrópusambandinu mun hækka um litla 20 milljarða króna á ári verði af inngöngu þeirra tíu landa sem nú sækja um aðild að sambandinu. Í þessum tíu löndum eru töluð níu mismunandi tungumál, og hvert viðbótartungumál kostar því 2,2 milljarða króna. Árið 1999 eyddi Evrópusambandið 57 milljörðum króna í þýðingar á þau ellefu opinberu tungumál sem þá voru töluð innan þess og þýðingarkostnaðurinn verður því væntanlega yfir 80 milljarðar króna eftir inngöngu nýju ríkjanna. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ein sér er með um 700 manns við þýðingar á hverjum degi og eru þá allar aðrar stofnanir sambandsins eftir. Með auknum fjölda tungumála verður þýðingarvinnan æ flóknari, enda fáir sem geta þýtt beint af portúgölsku yfir á eistnesku svo dæmi sé tekið, og þess vegna verður í auknum mæli að þýða fyrst yfir á ensku eða frönsku og svo yfir á það tungumál sem þýða átti yfir á.
Talandi um frönsku þá þykir ýmsum í Frakklandi sem franskan fari nú halloka í keppninni við enskuna innan Evrópusambandsins. Eftir því sem löndum fjölgar – Frakkar þykjast hafa tekið eftir þessu við inngöngu Svíþjóðar, Finnlands og Austurríkis – þá verður tilhneigingin til að tala ensku æ ríkari. Frakkar eru ekki nema hóflega hrifnir af þessari þróun og reyna því að streitast á móti og er það meðal annars gert með því að kljást um merkingar á matvælum. Þannig stangast frönsk lög nú á við tilskipun frá Evrópusambandinu, en í frönsku lögunum er gert ráð fyrir að allur matur sé merktur á frönsku í Frakklandi. Evrópusambandið er ósammála Frökkum um þetta og vill skilyrðislaust að á umbúðunum komi fram nafn matarins á frummálinu.
Segja má að þessi furðulega deila sé lýsandi fyrir afskiptasemi Evrópusambandsins – og franska ríkisins líka ef út í það er farið. Menn geta með réttu spurt, hvað varðar Evrópusambandið um það á hvaða tungumáli Frakkar gera innkaup sín? Vilji Frakkar kaupa inn á frönsku er furðulegt að Evrópusambandið hafi afskipti af því. Og vilji Frakkar ekki kaupa inn á frönsku er sérkennilegt að franska ríkið sé að amast við því. En það má þó ef til vill segja að fyrir Frakka sé skömminni skárra að frönsk stjórnvöld – sem Frakkar kjósa sjálfir yfir sig og geta losað sig við – ákveði svona nokkuð, en að embættismenn Evrópusambandsins – sem enginn maður hefur kosið – séu að troða skoðunum sínum upp á þá. Best væri hins vegar að yfirvöld létu fólk í friði varðandi slíka hluti og leyfðu framboði og eftirspurn, framleiðendum og neytendum, að komast að niðurstöðu um hvað þeim henti best.