Miðvikudagur 10. júlí 2002

191. tbl. 6. árg.

Ítalir gerðust svo djarfir í síðustu kosningum að kjósa yfir sig hægri stjórn. Nú stefnir í að þessi hægri stjórn ætli að gera það sem hægri stjórnir gera gjarna, það er að lækka skatta. Nánar til tekið hyggst stjórnin lækka skatta á einstaklinga og fyrirtæki svo um munar, meira en nokkru sinni áður hefur verið gert þar í landi, ef marka má orð forsætisráðherrans, Silvios Berlusconis. Þessu tækju ýmsir fagnandi, jafnvel áhugamenn um hag ríkissjóðs, því Ítalir eru manna duglegastir við að bjarga fé frá skatti og þess vegna gæti þetta orðið til að draga úr neðanjarðarhagkerfi þeirra. Að minnsta kosti er ætlunin að þetta verði til að örva hagkerfið og það ætti að verða öllum til góðs, líka ríkissjóði þegar fram í sækir.

Eru þá ekki allir ánægðir? Nei, ekki alveg. Evrópusambandið er ekki ánægt og telur satt að segja að skattalækkanir Berlusconis séu algerlega óásættanlegar. Þær ógna nefnilega innra jafnvægi og stöðugleika í sambandinu og þar með ógna þær víst evrunni. Þannig er það, að þó að formlega séð hafi Evrópusambandið ekki enn forræði yfir skattamálum aðildarríkjanna, þá vill það meiri völd á því sviði eins og öðrum. Og ef það getur ekki stýrt skattlagningunni beint, þá reynir það að stýra henni óbeint með þeirri kenningu að allt fari úr skorðum ef skattar verði lækkaðir.

Nú er Berlusconi út af fyrir sig ekki líklegur til að draga í land með skattalækkanir sínar og ekki er heldur líklegt að hann sé sammála foringjunum í Brussel um að þeir eigi að stýra Ítalíu í smáu sem stóru. En rétt er að hafa í huga að Ítalía er eitt af stærstu og öflugustu ríkjum bandalagsins. Hvernig ætli það yrði nú fyrir smáríki á borð við Ísland að vera þarna innanborðs og vilja lækka skatta umfram það sem Brussel þóknaðist? Ætli Íslandi yrði ekki með einhverjum ráðum settur stóllinn fyrir dyrnar og því gert grein fyrir að af skattalækkunaráformum þess gæti ekki orðið. Það er hætt við að væri Ísland í þessu sambandi yrðu óbein völd sambandsins hér á landi mun meiri en bein völd þess myndu segja til um og að Íslendingar myndu missa forræði yfir fleiru en fiski. Þar á meðal skattamálum.