Líklegt er að á næstu árum muni talsmenn ESB á Íslandi heimta þjóðaratkvæðagreiðslur um aðild að sambandinu. Ef einhver stundarvandræði vaxa mönnum í augum og þeim virðist um skeið sem hag sínum sé betur borgið með aðild að sambandinu þá er vel líklegt að kröfur um slíka atkvæðagreiðslur yrðu háværar og þá skyldu menn minnast þess að ef meiri hlutinn segir einu sinni já og landið gengur í ESB þá verður ekki aftur snúið. Þegar menn hafa einu sinni gengið í björg er engin leið til baka. Þetta er eins og ef kosið væri til Alþingis aftur og aftur, þar til einn tiltekinn flokkur fengi hreinan meirihluta og síðan aldrei framar efnt til kosninga. |
– Atli Harðarson, Lesbók Morgunblaðsins 29. júní 2002 |
Segiði svo að það birtist aldrei neitt vitrænt í Morgunblaðinu! Þó leiðarar blaðsins séu nú um stundir yfirleitt gersamlega ólesandi undanrenna hins pólitíska rétttrúnaðar – með öllu úr tengslum við flest venjulegt fólk – og Reykjavíkurbréfin gjarnan litlu skárri endurómur almenns froðusnakks í bland við furðulegar erlendar dellukenningar eða heimsendaspár sem ekki er vitað til að nokkur vitiborinn maður aðhyllist, þá ber það við inn á milli að skynsamlegar greinar birtist í blaðinu. Einn af þeim höfundum sem sér Morgunblaðinu enn fyrir slíku efni er heimspekingur ofan af Akranesi, Atli Harðarson að nafni. Greinar Atla birtast flestar í „rabb“-dálki Lesbókar og gera það að verkum að óvarlegt er að henda Lesbókinni ólesinni.
Síðastliðinn laugardag birti Atli þar grein er hann nefndi „Lýðræði“ og er óhætt að vekja athygli hugsandi fólks á henni. Atli fjallar þar um lýðræði og Evrópusambandið en um það má hafa mörg orð og sterk, en eins og kunnugt er þá er lýðræði mikill þyrnir í augum forystumanna Evrópusambandsins. Atli býr til lítið dæmi og biður lesendur um að hugsa sér að ákveðið yrði að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort núverandi kvótakerfi skuli áfram við lýði eða í þess stað tekið upp annað tiltekið kerfi. „Varla þætti nokkrum manni það lýðræðislegt ef ákveðið væri fyrirfram að kjósa um þetta einu sinni á ári þar til kvótakerfið fengist samþykkt og taka málið svo af dagskrá í eitt skipti fyrir öll“, segir Atli og eru sennilega flestir sammála honum. – Flestir já, en ekki allir. Evrópusambandssinnar eru vonandi ósammála honum því það væri einmitt sú aðferð og þeir nota sjálfir, hvar og hvenær sem þeir geta. Ef borgarar Evrópusambandsríkjanna eru á annað borð spurðir um þróun Evrópusambandisns þá er jafnan kosið aftur og aftur þangað til fengin er sú niðurstaða sem forkólfarnir í Brussel vilja. – Og svo er aldrei kosið meir.
Ef tillaga um aðild að Evrópusambandinu er felld í þjóðaratkvæðagreiðslu, þá er atkvæðagreiðslan endurtekin. Ef tillaga um tiltekna breytingu á samþykktum Evrópusambandsins, svo sem Maastricht-samningurinn eða Nice-samningurinn, fellur í þjóðaratkvæðagreiðslu þá er bara kosið aftur þangað til kjósendur láta undan. En þegar einu sinni hefur verið samþykkt, þá fá menn aldrei að kjósa aftur enda sleppir Evrópusambandið aldrei því sem það hefur einu sinni náð. Þetta er sérstaklega mikilvægt að hafa í huga þegar áhrifamiklir aðilar reyna að koma Íslandi inn í þetta Evrópusamband. Ef Íslendingar láta einu sinni teyma sig þangað inn, þá komast þeir aldrei þaðan út. Þetta er einnig meðal þess fjölmarga sem skilur að EES-samninginn og Evrópusambandsaðild. Það má segja EES-samningnum upp með 12 mánaða fyrirvara, hvenær sem Alþingi Íslendinga ákveður svo. Það er hins vegar ekki hægt að ganga úr Evrópusambandinu án samþykkis annarra aðildarríkja!
Ef Íslendingar létu dáleidda forystumenn sína svokallaða draga sig inn í Evrópusambandið þá myndu þeir fljótt komast að því að fullveldi landsins væri farið fyrir lítið. Ef tvær grímur rynnu þá á Íslendinga og þeir vildu komast út og verða fullvalda þjóð á ný þá myndu þeir sannreyna, eins og Arinbjörn hersir reyndar benti Agli á fyrir meira en þúsund árum, að konungsgarður er rúmur inngangs en þröngur brottfarar.