Í sjónvarpinu var í gærkvöldi rætt við tvo stjórnmálamenn, Árna Ragnar Árnason þingmann og Stefán Jón Hafstein borgarfulltrúa. Segja má að þeir hafi hafst ólíkt að, því annar talaði um einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu en hinn um borgarvæðingu barnauppeldis. Árni Ragnar var í viðtali vegna veikinda sem hann hefur gengið í gegnum frá árinu 1995. Vegna veikindanna hefur hann mátt dvelja langdvölum á sjúkrahúsum og leggjast oft undir hnífinn. Varð sjúkrasagan og sú staðreynd að maðurinn er þingmaður til þess að talið barst að heilbrigðiskerfinu og afstöðu hans til þess. Árni Ragnar sagði áhuga sinn á heilbrigðismálum hafa aukist við þessa reynslu og að hann hefði orðið var við ýmislegt sem mætti betur fara. Það sem kom þægilega á óvart – og segir það því miður talsvert um hvernig slík umræða þróast gjarna – er að þingmaðurinn sá þann galla helstan við heilbrigðiskerfið að þar væri svigrúm einkarekstrar of lítið. Algengt er í slíkri umræðu að menn heimti meira fé til þessa málaflokks, en Árni Ragnar lýsti þeirri skoðun sinni að víða mætti gera betur fyrir sama fé með því að hleypa einkaaðilum að og leyfa þeim að njóta sín. Hann talaði um einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu – sem er algert bannorð að mati „nútímalegra“ jafnaðarmanna – og benti á að kerfið okkar væri smíðað að fyrirmynd Norðurlandanna, en við værum eftirbátar þeirra nú því þar væri í ákveðnum tilvikum leyfður meiri einkarekstur en hér.
Viðtalið við Árna Ragnar var því uppbyggilegt, en sömu sögu er varla hægt að segja um viðtalið við Stefán Jón Hafstein sem fylgdi á eftir. Stefán Jón var kominn í sjónvarpið til að stæra sig af því að hafa tekist að ná 150 milljónum króna á ári af skattgreiðendum til að setja í það að auka kennslu yngstu bekkja grunnskólans um eina klukkustund á dag. Fram kom að borgaryfirvöld hafa enga sérstaka hugmynd um hvað skólarnir eigi að gera við þetta fé, en eru hins vegar sannfærð um að því lengur sem hægt er að halda börnunum í skólanum, þeim mun betri verði þau.
Það athyglisverðasta í viðtalinu við Stefán Jón var sú röksemd hans fyrir þessari auknu skólavist að hún stuðlaði að auknum jöfnuði. Það er nefnilega þannig, segir Stefán Jón, að sum börn njóta meiri stuðnings heima fyrir en önnur. Þess vegna verður borgin sem sagt að lengja skólann og stytta dvöl barnanna á heimilunum svo börnin verði sem jöfnust. Það er ekki nóg að borgin sjái börnunum fyrir hæfilegri kennslu, nei, nú er það líka orðið hlutverk hennar að sjá til þess að sum börn fái ekki meiri athygli heima fyrir en önnur. Og ráðið er auðvitað að láta skattgreiðendur borga stórfé fyrir að halda börnunum frá heimilunum.
Ef draumur vinstri manna nær fram að ganga, og þeim tekst að „efla“ skólastarfið enn frekar, er hætt við að orðið „borgarbarn“ fái alveg nýja merkingu.