Frjálsræði í efnahagsmálum gefur af sér hagvöxt, dregur úr fátækt og stuðlar að auknu frjálsræði almennt. Efnahagslegt frelsi er mikilvægt í baráttunni gegn hryðjuverkum vegna þess að það gefur mönnum aukin tækifæri til að lifa góðu lífi. Efnahagslegt frelsi skortir í öllum þeim löndum þar sem hryðjuverkastarfsemi þrífst.“ Þetta segir Milton Friedman í formála nýrrar skýrslu um efnahagslegt frelsi sem The Fraser Institute í Kanada og samstarfsstofnanir um allan heim gefa út. Friedman leggur mikla áherslu á að efnahagslegt frelsi sé ekki aðeins mikilvægt til að auka hagsæld heldur hangi fleira á spýtunni: „Ég tel að við megum ekki tala eins og að efnahagslegt frelsi sé eingöngu uppspretta velmegunar. Efnahagslegt frelsi er partur af almennu frelsi mannsins. Okkur hættir til að líta á efnahagslegt og stjórnmálalegt frelsi sem tvo aðskilda hluti sem þeir eru alls ekki. Ég tel að næsta verkefni sem bíður þeirra sem halda utan um þessa skýrslu sé að skoða hvernig þetta skarast. Eignaréttur er til að mynda ekki bara hluti af efnahagslegu frelsi heldur einnig mikilvægur þáttur í borgaralegum réttindum.“
Ísland er í 11. sæti yfir þau lönd þar sem efnahagslegt frelsi er mest og fær einkunnina 7,7. Árið 1990 var Ísland í 30. sæti og fékk 6,0 í einkunn. Það er umhugsunarefni fyrir þá sem telja að auka megi frjálsræði hér á landi með því að ganga í Evrópusambandið að einungis þrjár ESB þjóðir af 14 eru fyrir ofan Íslendinga á þessum lista. Það eru Bretland, Írland og Holland. Ekkert af þeim ríkjum sem líkleg eru til inngöngu í ESB á næstu árum er fyrir ofan Ísland. Engin Norðurlandaþjóð er fyrir ofan Íslendinga en Finnar fá sömu einkunn.
Meðal þeirra þátta sem draga einkunn Íslands niður er hlutdeild ríkisins í bankarekstri, mikil jaðaráhrif skattkerfisins, mikil eyðsla hins opinbera og ófrelsi á vinnumarkaði. Ekkert af þessum atriðum myndi lagast við inngöngu í ESB en sum versna til muna eins og eyðsla hins opinbera vegna mikils kostnaðar ríkissjóðs við aðild og ófrelsi á vinnumarkaði vegna reglugerðafargans ESB á því sviði.