Miðvikudagur 26. júní 2002

177. tbl. 6. árg.

Þetta mjakast hjá þeim. Ef það gengur þá ekki hraðar en það. Leiðtogar Evrópusambandsríkjanna funduðu að minnsta kosti um helgina á Spáni og þegar slíkir herramenn koma saman þá standa þjóðríki þeirra veikari á eftir. Nú vilja þeir koma upp einni sameiginlegri evrópskri landamæralögreglu sem starfi í öllum ríkjunum og gæti landamæra Evrópusambandsins. Endanleg ákvörðun var reyndar ekki tekin um málið á fundinum en ákveðið var að skipa alls kyns vinnuhópa til að fara yfir tillögur um hina nýju sameiginlegu lögreglusveit, sem myndi bera eigin einkennisbúning og sín eigin skilríki. Talið er að hinar nýju sveitir verði tilbúnar í slaginn eftir fimm ár.

Það þarf enginn að velkjast í vafa um hvað vakir fyrir ráðamönnum á meginlandi Evrópu. Þjóðríkin eiga að hverfa og renna inn í evrópska skrifræðisríkið. Þeir gera ekki ráð fyrir að almennir borgarar tækju því vel að þurfa skyndilega að hlýða erlendum lögregluþjónum heima hjá sér og ætla því að stíga þetta skref, svona sem millileik, áður en ein allsherjarlögregla verður kynnt. Rétt eins og sameiginlegur gjaldmiðill, sameiginlegur her og sameiginleg stjórnarskrá eiga að vera áfangar á þeirri leið sem forystumennirnir ætla að teyma þjóðirnar inn í stórríkið. Með því að fara þessa leið í nokkrum skrefum vonast þeir til að slæva fólk nógu lengi til að andstaðan þyki ekki ómaksins virði loksins þegar þorri manna vaknar upp við vondan draum. Sem hann mun gera. En niðurstaðan sem þeir stefna að er aðeins ein: Þjóðríkin eiga að hverfa og stórríkið taka við.

Hér á Íslandi er deilt um eitt og annað er tengist hugsanlegri aðild landsins að Evrópusambandinu. Þannig birti Hagfræðistofnun Háskóla Íslands nýlega úttekt sína á áhrifum slíkrar aðildar á íslensk ríkisfjármál og er skemmst frá því að segja að aðildin myndi kosta íslenska skattgreiðendur marga milljarða króna á hverju einasta ári. Sendiherra Evrópusambandsins á Íslandi, Halldór Ásgrímsson, 1. þingmaður Austurlandskjördæmis, brást þegar reiður við og hefur ráðið endurskoðunarstofu til að finna aðrar tölur. En þó Vefþjóðviljinn sé almennt ekki þeirrar skoðunar að tæplega 40 milljarða króna eyðsla á hverju einasta kjörtímabili sé lítið mál, þá þykir blaðinu sem væntanlegur gríðarmikill kostnaður íslenskra skattgreiðenda af hugsanlegri inngöngu Halldórs Ásgrímssonar í Evrópusambandið sé ekki aðalatriðið í þessu sambandi. Það sem ekki skiptir minna máli er þetta: Ef Ísland gengur í Evrópusambandið þá mun hið sjálfstæða íslenska ríki líða undir lok. Ísland verður þá fljótt aðeins amt í hinu evrópska stórríki. Ísland mun lúta hinni evrópsku stjórnarskrá sem þeir í Brussel munu hafa eftir sínu höfði. Íslenskir borgarar munu lúta evrópskri lögreglu sem þeir í Brussel munu stjórna. Ísland mun lúta utanríkisstefnu – og þar með utanríkisviðskiptastefnu – sem þeir í Brussel munu ákveða. Hagsmunir Íslands munu aldrei ráða úrslitum í nokkru máli þegar ákvörðun verður tekin í því í Brussel. Aldrei í nokkru máli.

Vinnuhópar Evrópusambandsins eru byrjaðir að koma hinni evrópsku landamæralögreglu í gang. En það er ekki eins og það hafi verið einhugur um málið á fundinum um helgina. Ekki áhrifaminni maður en sjálfur forsætisráðherra Stóra-Bretlands, Anthony Blair að nafni, var alfarið á móti þessum áætlunum. Og hvaða áhrif hafði það? „The creation of a common police force to guard our border remains the long-time goal“ svaraði Gerhard Schroeder, kanslari Þýskalands, og þar með var það útrætt. Hér á Íslandi láta menn hins vegar eins og Ísland geti einfaldlega gengið í Evrópusambandið og þegar farið að „hafa áhrif við samningaborðið“ eins og gárungarnir segja stundum. Sú kenning að okkar maður í Brussel, til dæmis Halldór Ásgrímsson eða Össur Skarphéðinsson, myndi hafa nokkur minnstu nokkur áhrif á gang nokkurs máls verður frekar spaugileg þegar horft er til þess að sjálfur forsætisráðherra Bretlands hefur ekkert um það að segja að innan skamms munu samevrópskir landamæraverðir spígspora um höfnina í Portsmouth og hrópa á vegfarendur. Á þýsku.

En íslenskir Evrópusinnar munu auðvitað halda áfram sama söngnum. Þeir munu halda áfram, eins og ekkert sé, að boða þá kenningu að Íslendingar verði að „skoða með opnum huga“ hvort ekki sé nauðsynlegt að ganga í Evrópusambandið „til þess að verja fullveldið“.