Ábyrgðarlaus löggjöf fyrir ábyrgðarlaust fólk. Þetta gætu sem best verið einkunnarorð laga nr. 95 frá árinu 2000 um fæðingar- og foreldraorlof en kostnaður vegna laganna stefnir í að verða um 45% meiri en ráðgert var í frumvarpi til þeirra. Nú kann einhver að spyrja hvers vegna kostnaður stefnir í að verða nær helmingi meiri en ráð var fyrir gert. Og þá kann einhver að svara því til að á því gætu verið tvær skýringar, annarsvegar að foreldrar nýti sér þennan „rétt“ í meira mæli en ætlað hafði verið í frumvarpinu og hinsvegar að nú eignist miklu fleiri miklu fleiri börn. Hvorug skýringin fær þó staðist.
„Samt getur stærstur hluti þessa fólks safnað sér fyrir bíl, húsi og mörgu því sem hugurinn girnist en það bara getur ekki safnað sér fyrir barni, það verða aðrir að gera.“ |
Í annarri málsgrein laganna segir að markmið þeirra sé að tryggja barni samvistir bæði við föður og móður. Ef foreldrar eru að nýta sér hinn nýfengna „rétt“ í meira mæli en ráð var fyrir gert í frumvarpinu þá leiðir af sjálfu sér að í frumvarpinu hafi verið gert ráð fyrir að markmið laganna næðist ekki. Það eitt hlýtur að teljast meiriháttar ábyrgðarleysi, að leggja fram frumvarp og gera að lögum en gera um leið ráð fyrir að markmið laganna náist aldrei og grundvalla sjálfa lagasetninguna einmitt á því, að markmiðið náist ekki.
Þess sér heldur ekki merki að fleira fólk sé að eignast fleiri börn nú, heldur en þegar frumvarpið var lagt fram. Fæðingartíðni hefur ekki breyst svo neinu nemi á þessu tímabili. Skýringar á því hversvegna kostnaður vegna laganna stefnir í að verða fimmþúsund og fimmhundruð milljónir á ári í stað þess að vera þrjúþúsund og áttahundruð milljónir á ári er því að leita annarsstaðar.
Hugsanlegt er að höfundar frumvarpsins hafi einfaldlega kastað til höndunum og talið það viðunandi skekkju að kostnaður gæti orðið allt að 50% meiri en áætlað var í frumvarpinu. En jafnvel þó fordæmi séu fyrir þessháttar vinnubrögðum hjá ríkinu þá verður að teljast harla ólíklegt að þau séu skýringin á mismuninum milli þess sem ráð var fyrir gert í frumvarpinu og þess sem raunin er orðin á. Sérstaklega með tilliti til þess að annarsvegar er um að tefla gríðarlegar upphæðir og hinsvegar að nær allar stærðir voru þekktar þegar frumvarpið var lagt fram. Það lá fyrir að fæðingum myndi hvorki fjölga né fækka svo neinu næmi og það lá líka fyrir að fólki finnst almennt gaman að fá peninga fyrir lítið og mjög gaman að fá mikla peninga fyrir ekki neitt. Þessar tvær forsendur nægðu til að áætla, með miklu meiri nákvæmni en gert var, hver kostnaður vegna laganna yrði.
En hver er þá skýringin á því að það munar eittþúsund og sjöhundruð milljónum á áætluninni og raunveruleikanum? Það er erfitt að segja en eitt er þó víst að frumvarp til laga sem kosta þrjúþúsund og áttahundruð milljónir selst betur, jafnvel á Alþingi, en frumvarp til laga sem kosta fimmþúsund og fimmhundruð milljónir. Með öðrum orðum, greiðsludreifing er heppilegra greiðslufyrirkomulag heldur en staðgreiðsla á Alþingi og þeim mun heppilegra þar sem greiðslum er dreift á kjörtímabil en ekki kortatímabil.
En það er ekki nóg að frumvarpið og lögin séu ábyrgðarlaus heldur eru þau sérstaklega samin fyrir ábyrgðarlaust fólk. Fólk sem fær greiddar skaðabætur frá ríkinu ef það verður fyrir því áfalli að konan greinist með barn í maganum sem svo seinna leiðir til meðgöngu og jafnvel fæðingar. Fólk sem getur ekki lagt sjálft fyrir fé og tekið sér frí, ef það svo kýs, þegar það eignast barn. Fólk sem verður að fá borgað fyrir að umgangast börnin sín! Samt getur stærstur hluti þessa fólks safnað sér fyrir bíl, húsi og mörgu því sem hugurinn girnist en það bara getur ekki safnað sér fyrir barni, það verða aðrir að gera. Það sem löggjafinn gerir sér ekki grein fyrir er að ef lög um fæðingar- og foreldraorlof yrðu afnumin, þá myndi fólk gera einmitt þetta. Það myndi taka ábyrgð á bareignum sínum og börnum sínum og það myndi leggja sjálft fyrir. Og það sem löggjafinn gerir sér heldur ekki grein fyrir er að hin nýju lög um foreldra- og fæðingarorlof hafa ekkert með samvistir foreldra og barna að gera, þau tryggja aðeins ákveðna greiðslu til foreldris frá skattgreiðendum. Það er ábyrgðarleysi að halda öðru fram en það er svosem í takt við annað í lögum sem allt eins mætti kalla lög um ábyrgðarleysi foreldra af barneignum.