Málflutningi ykkar var hafnað. Þið töpuðuð. |
Alfreð Þorsteinsson |
Á þessa leið voru svör Alfreðs Þorsteinssonar á borgarstjórnarfundi í vikunni þegar minnihlutinn leyfði sér að gagnrýna stjórn R-listans á Orkuveitu Reykjavíkur en eins og nokkuð margir hafa áttað sig hefur R-listinn mjólkað það fyrirtæki um miljarða króna, bæði til að fjármagna ýmsar furðudillur Alfreðs sem og til að bæta ört versnandi stöðu borgarsjóðs. En Alfreð finnst þetta bara allt vera í lagi, hann hafi unnið í kosningunum og þar með hafi honum verið réttur enn einn óútfylltur víxilinn, útgefinn af Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og ábektur af borgarbúum. Með sama hætti hafi verið kvittað fyrir allar hans gjörðir undanfarin ár. Hinir töpuðu. Hann vann.
Auðvitað er ekki gott að segja hvað fer fram í höfði hvers og eins kjósanda R-listans og eflaust mismunandi ástæður sem þeir höfðu fyrir að verja atkvæði sínu með þeim hætti sem alkunna er. En dettur einhverjum í hug – öðrum en Alfreð Þorsteinssyni – að kjósendur hafi ætlað sér að samþykkja allar gerðir R-listans og hafna hverri einustu gagnrýni minnihlutans? Að þeir sem kusu R-listann hafi með því lýst því yfir að verk Alfreðs Þorsteinssonar séu hafin yfir gagnrýni? Að menn eigi bara ekkert að vera gagnrýna Alfreð Þorsteinsson?
Það væri að minnsta kosti gaman að heyra skoðanir þeirra 1.800 kjósenda R-listans sem sáu ástæðu til þess að strika nafn Alfreðs út af kjörseðlinum áður en þeir merktu við R-listann og gáfu Alfreð þar með áframhaldandi umboð til þess að valsa um fyrirtæki, sjóði og stofnanir borgarinnar. Margir minnast þess frá barnaskólaárum sínum að í hverjum bekk voru nokkrir menn af þeirri tegund sem jafnan fer fram með frekju og yfirgangi en fylgir kröfum sínum og staðhæfingum eftir með spurningunni: „Viltu koma í slag upp á það?“ Flestir slíkra manna annað hvort vaxa upp úr þessu eða læra af biturri reynslu að fæst sómakært fólk lætur bjóða sér slíkt til lengdar. Einn lítill borgarfulltrúi heldur hins vegar fast í þessa hugmyndafræði: Þið töpuðuð, þar með hafið þið rangt fyrir ykkur. Ég vann. Þegiði.
Það er kannski ekkert undarlegt þó Alfreð fari óáreittur sínu fram. Einhverjir tóku eftir því í kosningabaráttunni í maí að þá spurðu blaðamenn DV Alfreð Þorsteinsson nokkurra spurninga sem hann vildi ekki að borgarbúar fengju svör við. Alfreð bað þess vegna blaðamenn að hafa í huga að blað þeirra þyrfti að lifa eftir kosningar. Ekki fór á milli mála að blaðið skildi þess orð Alfreðs þannig að í þeim hefði falist skýr hótun af hans hálfu. Ekki sáu þó aðrir fjölmiðlamenn – að enginn minnist nú á svokallaða „fréttaskýringaþætti“ ríkisfjölmiðlanna – ástæðu til að fjalla um þetta furðulega mál. Blaðamannafélagið hafði auðvitað ekkert um þetta að segja sem kannski var ekki von enda formaður þess, Lúðvík Geirsson, önnum kafinn við að berjast til metorða sem oddviti Samfylkingarinnar í Hafnarfirði. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, stjórnmálamaðurinn sem „aðeins fylgir eigin sannfæringu“, hefur svo aldrei neitt við Alfreð að athuga og gerir hann aftur og aftur að valdamesta borgarfulltrúanum og færir honum öflugustu fyrirtæki borgarinnar að leikfangi. Þegar þeir sem geta tekið á Alfreð Þorsteinssyni láta hann jafnan komast upp með hvað sem er, er þá við öðru að búast en hann valsi um með sigurbros á vör?
En úr því hér var minnst á formann Blaðamannafélags Íslands sem jafnframt var árum saman oddviti Samfylkingarinnar í einum af stærstu kaupstöðum landsins: Dettur einhverjum í hug að fjölmiðlamenn tækju í mál að oddviti þeirra væri jafnframt forystumaður í einhverjum öðrum stjórnmálaflokki, til dæmis Sjálfstæðisflokknum? Nei varla dettur nokkrum vitibornum manni það í hug. Enda vandfundinn sá vitiborni maður sem heldur að fjölmiðlamenn taki íslenska stjórnmálaflokka sömu tökum.