Það er ekki veðurfar heldur stjórnarfar sem ræður úrslitum um það hvort þjóðir eru saddar eða svelta. Þetta má segja að sé í stuttu máli niðurstaða The Economist í umfjöllun tímaritsins um hungur í heiminum. Hungruðum fækkar í heiminum, bæði í milljónum talið og sér í lagi hlutfallslega, en enn eru þó allt of margir sem ekki hafa nóg að bíta og brenna. Þeir sem eru vanir að líta svo á að allur vandi verði leystur með auknum ríkisafskiptum sjá þá leið eina að ríku löndin styrki hin fátæku og gefi þeim gjafir. Þegar skyndileg neyð skapast getur verið rétt og nauðsynlegt að veita neyðaraðstoð um stundarsakir og þá er eðlilegt að menn slái saman og sendi þeim aðstoð sem urðu fyrir ógæfunni. Þegar ógæfan er hins vegar viðvarandi heimatilbúið ástand stjórnarherra tiltekinna landa er alls óvíst hversu miklu aðstoðin skilar, skili hún þá nokkru jákvæðu yfirleitt.
Í The Economist kemur fram að í öllum þeim 25 löndum sem minnstan mat hafa eru ómögulegar ríkisstjórnir, og í sumum landanna eru þær alveg skelfilegar. Næring fólks er hvað lélegust í Afríku sunnan Sahara, en þó land þar sé á einstaka stað illa til búsetu fallið er vandinn yfirleitt miklu frekar menn á borð við Robert Mugabe. Í stað þess að fara þá leið sem æskileg væri varðandi landnýtingu, þ.e. að auka einkaeignarrétt og bæta skilgreiningu eignarréttarins, þá hrekur Mugabe bændur sem honum eru andsnúnir af jörðum sínum með þeim augljósu afleiðingum að landbúnaðarframleiðsla hefur hrunið. Annað dæmi er austurhluti Kongó, en þar hefur enginn fyrir því að rækta nautgripi, enda stunda stjórnlausir hermenn gripdeildir þar svo erfiði bændanna verður til einskis. Í báðum þessum dæmum er það virðingarleysi við eignarréttinn sem kemur í veg fyrir framleiðslu matvæla.
Annað vandamál fátækustu landa heimsins eru verndartollar ríkari landanna á landbúnaðarafurðir. Þessir tollar eiga sinn þátt í að gera bændum fátæku landanna erfitt fyrir að efnast, auk þess sem tollarnir gera almenning ríku landanna fátækari vegna hærra vöruverðs. Alþjóðabankinn hefur reiknað út að landsframleiðsla fátæku ríkjanna myndi aukast um 30 milljarða dala væri höftum aflétt af innflutningi landbúnaðarafurða í ríkari löndum heims. Ríku löndin ættu vissulega að verða við kröfum hinna fátækari um lækkun verndartolla, en um leið ættu þau að gera þá kröfu til fátækari landanna að þau lækki sjálf verndartolla sína innbyrðis. Sambærilegir útreikningar Alþjóðabankans sýna nefnilega fram á að ávinningurinn af því yrði margfalt meiri, eða yfir 110 milljarðar dala á ári fyrir fátækustu löndin.