Fimmtudagur 20. júní 2002

171. tbl. 6. árg.

Ísíðasta mánuði undirrituðu 11.020 Kúbanar áskorun til kúbanska þingsins þess efnis að dregið yrði úr mannréttindabrotum á eyjunni. Í áskoruninni kom meðal annars fram að óskað væri eftir tjáningarfrelsi, fundafrelsi, rétti til að eiga fyrirtæki, bættum kosningum og að pólitískir fangar yrðu látnir lausir. Miðað við stjórnarfar á Kúbu og margreynt miskunnarleysi Castrós við pólitíska andstæðinga hefur þurft talsverðan skammt af hugrekki til að undirrita áskorunina og verður í raun að teljast merkilegt að þúsundasti hver eyjaskeggi skyldi taka þessa áhættu. En Castró, sem ýmsir stjórnmálamenn á vinstri kantinum hér á landi dást að leynt og ljóst, virðist ekki hafa tekið þann kostinn að þessu sinni að lífláta eða fanga andstæðinga sína. Þess í stað fór hann sjálfur út í undirskriftasöfnun.

Undirskriftasöfnun Castrós er framkvæmd af sömu heilindum og annað á þeim bænum, en niðurstaða hennar er að sögn harðstjórans sú að 99% kosningabærra manna hafi undirritað yfirlýsingu þess efnis að sósíalismi skyldi að eilífu ríkja á Kúbu. Þessi 99%, eða um 8,1 milljón manna, af þeim 8,2 milljónum sem eru á kjörskrá, á að hafa skráð sig á lista Castrós á þremur og hálfum degi ef marka má yfirvöld – en að vísu er engin ástæða til að taka mark á þessum yfirvöldum og niðurstaða þessarar undirskriftasöfnunar segir auðvitað ekkert um hug Kúbana til harðstjórnarinnar. Ekki frekar en „kosningarnar“ sem Castró setur á svið á fimm ára fresti til að plata einfeldninga á Vesturlöndum sem halda að það sé töff að finnast Castró og fyrrum félagi hans, Che, flottir. En aðdáun á þessum herramönnum er svona ámóta geðfelld og aðdáun á Hitler og Göbbels eða Lenín og Stalín.

Það mætti vera ýmsum vinstrimanninum hér á norðurhjara til umhugsunar að á hlýrri, vel staðsettri og fallegri eyju, þar sem íbúar ættu að geta búið við mikla velsæld, skuli ástandið vera svo slæmt að óska þurfi eftir því með undirskriftarlista að fá að tala um stjórnmál og fá að stofna fyrirtæki. Að ekki sé talað um að fá að kjósa yfirvöld í eðlilegum kosningum eða að þurfa ekki að sitja í fangelsi fyrir skoðanir sínar. En harðstjórn sósíalista á Kúbu hefur ekki aðeins þýtt sífelld mannréttindabrot fyrir Kúbana, hún hefur líka kallað yfir þá óskaplega fátækt. Ríkisreksturinn gengur ekki betur þarna en annars staðar og nú er svo komið að jafnvel sykurframleiðslan, sem er sá atvinnuvegur sem útvegað hefur landinu erlendan gjaldeyri eftir að vöruskiptin við Sovétríkin liðu undir lok, er orðin svo úrelt og illa tækjum búin að hún getur með engu móti keppt á heimsmarkaði. Líklega þarf að loka um helmingi verksmiðjanna og ekki er gott að sjá hvað Castró hyggst gera til að vega það tap upp, sér í lagi þar sem ferðamannastraumurinn hefur dregist saman. Castró mun vitaskuld ekki geta bjargað efnahagsástandinu með sósíalismann að leiðarljósi, en hann mun sjálfsagt gera það sem hann er þegar byrjaður á með hinum dæmalausa undirskriftalista sínum. Hann mun herða tökin enn frekar sem verður til þess að hið pólitíska harðræði mun aukast með aukinni fátækt. En á öðru er ekki von þegar stjórnað er með það að markmiði að Kúba verði að eilífu „sæluríki“ sósíalismans.