Mánudagur 17. júní 2002

168. tbl. 6. árg.

Reglugerðir, staðlar, lágmarkskröfur og skilyrði eru ær og kýr stjórnlyndra og faglegra nútímamanna. Vart má finna það svið þar sem almennum borgurum hefur ekki verið settur stóllinn fyrir dyrnar, til dæmis í nafni hollustuhátta eða aðbúnaðar starfsfólks svo ekki sé nú minnst á þaðan af verri meinlokur. Flestir þeir sem burðast við að reka fyrirtæki, jafnvel örlítil fyrirtæki, kannast við það að þeir eru jafnan með allskyns eftirlitsmenn á bakinu sem þráspyrja hvort búið sé að uppfylla öll nýjustu skilyrðin sem faglegir reglugerðarsmiðir hafi sett, landsmönnum öllum til bjargar. Þessi ofboðslega reglugerða- og lágmarkskrafnaárátta er sérstaklega sterk í Evrópu og dregur hún mjög kraft úr evrópskum fyrirtækjum og gerir þeim fyrstu árin sérstaklega erfið. Vaxa ný fyrirtæki því hraðar sem slíkum velmeinandi en þrúgandi óþarfareglum er í meira hóf stillt og því færri sem slíkar reglur eru, þeim mun meiri líkur eru á að lífskjör fólks batni.

Eins og sjá má af mynd The Sunday Telegraph er Fraser Brown ekki nema mátulega hress þessa dagana.

Fraser Brown heitir maður og rekur lítið verkstæði í enska bænum Wem. Til að Brown geti rekið þetta litla verkstæði sitt þarf hann að kaupa tryggingar vegna rekstursins og því varð það honum áfall að frétta það í síðasta mánuði, sólarhring áður en endurnýja átti tryggingarsamninginn, að nú yrði samningurinn ekki endurnýjaður frekar. Nú gæti hann bara lokað, sagt sínum 14 starfsmönnum upp vinnunni, og farið á atvinnuleysisbætur. Hann hefði nefnilega ekki sýnt fram á með nægilega greinargóðum hætti að fyrirtæki sitt uppfyllti allar heilbrigðis- og öryggiskröfur hins opinbera. Fram að þessu hafði Brown árlega gefið upplýsingar um starfsemi sína á eyðublöðum sem hið opinbera hafði mælt með en þar hafði meðal annars verið farið yfir hugsanlega hættu við notkun tækja og tóla á verkstæðinu. En nú var þetta ekki nægilegt lengur, þökk sé bæði auknum kröfum breska heilbrigðiseftirlitsins og skæðadrífu nýrra evrópska öryggisreglna sem Brusselvaldið hellir yfir saklaust fólk.

Brown varð að ráða til sín sérfræðinga – og greiða þeim vel á aðra milljón króna – til þess að úbúa mörghundruð blaðsíðna skýrslu til eftirlitsins. Nú þurfti að „gera hættumat“ vegna hvers einasta áhalds á verkstæðinu, rennihurðir og faxtæki ekki undanskilin, og geta nákvæmlega um alla hugsanlega hættu sem gæti stafað af hverju tæki fyrir sig. „Það er ætlast til þess að ég geri ráð fyrir að allir mínir starfsmenn séu í sjálfsmorðshugleiðingum“ segir Fraser Brown í viðtali við The Sunday Telegraph á dögunum. „Hvert einasta tæki í húsinu er talið hugsanlegt sjálfsmorðsáhald“ segir Brown, sem nú hefur þurft að útbúa 60 blaðsíðna „öryggisstefnu“ verkstæðis síns. Þó virðist Fraser Brown hafa sloppið billegar en bróðir hans, en sá rekur lítið fyrirtæki í Skotlandi. Því fyrirtæki var gert að skila inn „hættumati“ vegna eins yddara.

Klikkun? Auðvitað er þetta klikkun en þetta er afleiðingin af því að síðustu ár hefur hið opinbera hætt að líta svo á að fullorðið fólk sé fullorðið. Hið opinbera lítur svo á að allir séu fimm ára börn og þurfi að vera í látlausri gæslu. Og ef einhvers staðar verður slys þá má treysta því að fréttamenn verða snöggir að velta því upp hvort vera megi að „engar reglur“ gildi um nákvæmlega það sem út af bar í það skipti. Menn verða að rísa upp gegn reglugerðarvaldinu áður en það nær að drepa allt í dróma.