Helgarsprokið 16. júní 2002

167. tbl. 6. árg.

Í fréttum síðustu viku gnæfir eitt mál yfir önnur. Það gerðist nefnilega að sjálfur Landsbanki Íslands, banki sem þar til nýlega var stærsti viðskiptabanki landsins, varð að einkabanka. Því verður ekki með nokkru móti neitað að með þessu er stigið mikið og áþreifanlegt skref til einkavæðingar, skref sem er þeim mun ánægjulegra þar sem um skeið hafði lítið miðað í einkavæðingarátt. Fyrir aðeins örfáum árum virtist það fjarlægur draumur að ríkisviðskiptabankarnir kæmust í einkaeigu og er sala meirihluta hlutabréfa Landsbankans skýrt dæmi um þær breytingar sem orðið hafa á íslensku þjóðfélagi á síðasta áratug eða svo.

„Það eru því afar mörg verkefni sem bíða frjálslyndra manna og nauðsynlegt að þeir leggist sem allra flestir á árarnar á komandi misserum og árum. Ef frjálslyndir menn standa saman og leggja sig alla fram í baráttu fyrir sameiginlegum málstað er ekki að efa að áfram mun miða í frjálsræðisátt á Íslandi, …“

Og þær breytingar eru reyndar svo miklar að ekki er víst að allir átti sig á þeim. Þannig heyrist stundum að engu sé líkara en ekkert færist í frelsisátt hér á landi. Þeir sem muna lengur en tvö-þrjú ár aftur í tímann vita hins vegar að á Íslandi hefur orðið mikil breyting síðasta áratuginn. Og þeir muna líka hverjir hafa haft forystu um þær og hverjir hafa ætíð reynt að draga lappirnar. Einkavæðing ríkisbankanna er skýrt dæmi. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks, sú sem sat við völd árin 1991-1995, náði ekki að selja eitt einasta prósent úr bönkunum þar sem Alþýðuflokkurinn, hinn nútímalegi jafnaðarmannaflokkur tók það ekki í mál. Það var ekki fyrr en nútímalegir jafnaðarmenn hurfu úr stjórn sem þeirri fyrirstöðu var rutt úr vegi. Svona skammt er nú liðið síðan hafist var handa um einkavæðingu bankanna, einkavæðingu sem væntanlega verður að fullu lokið á þessu kjörtímabili!

Og hvar sem borið er niður eru nútímalegir jafnaðarmenn á móti breytingum í frjálsræðisátt. Eini munurinn er sá að nú eru þeir hættir að viðurkenna það hreint út, að minnsta kosti þegar þeir tala við ungt fólk. Nú segjast þeir ekki lengur vera á móti einkavæðingu í prinsippinu og það sem meira er, þeir láta stundum eins og þeim finnist engin ástæða til að ríkið reki fyrirtæki í samkeppni við einkaaðila, enda vita þeir að þau sjónarmið eru líkleg til að höfða til frjálslynds fólks. En í raun hefur ekkert breyst nema orðalagið hjá nútímalegum jafnaðarmönnum. Þegar til kastanna kemur þá er allt við það sama. Þeir eru enn á móti einkavæðingu. Ef ríkisstjórnin vill selja eitthvert fyrirtæki hins opinbera þá eru hinir nútímalegu jafnaðarmenn á móti því. Ekki í prinsippinu auðvitað, en tíminn er hins vegar ekki réttur, aðferðin röng og verðið of hátt eða of lágt.

Í Hafnarfirði ákvað þáverandi meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks nýlega að efna til tilraunar með einkaframkvæmd í einum skóla þar í bænum. Hinir nútímalegu jafnaðarmenn gengu gjörsamlega af göflunum og í nýafstöðnum kosningum var það sérstakt loforð Samfylkingarinnar að rifta gerðum samningum um þessa einkaframkvæmd, hvað sem það myndi nú kosta bæjarfélagið, en hinir nútímalegu jafnaðmenn mega alls ekki heyra minnst á neinar sérstakar breytingar í skólamálum landsins. Og þar sem Samfylkingarmenn náðu meirihluta í bæjarstjórninni hvort sem það hefur nú verið vegna þessa loforðs þeirra eða af öðrum ástæðum þá getur hugsast að nútímalegum jafnaðarmönnum takist nú í Hafnarfirði, eins og svo víða annars staðar, að bregða fæti fyrir þróun í frjálsræðisátt.

Hvar sem niður er borið er sama sagan. Samfylkingarmenn tala reyndar stundum eins og sérstaklega frjálslyndir menn en í raun hefur ekkert breyst. Þeir gagnrýna háa skatta en ef ríkisstjórnin vill lækka skatta þá vill alltaf svo óheppilega til að hún vill lækka ranga skatta eða á röngum tíma eða of mikið eða ekki nóg. Að minnsta kosti þá finnur Samfylkingin yfirleitt eitthvað að tillögum sem ganga í frjálsræðisátt. Þarf það reyndar ekki að koma neinum á óvart sem fylgst hefur með stjórnmálum um nokkurt skeið og veit úr hvaða flokkum Samfylkingin kemur. Þó forystumenn svokallaðra jafnaðarmanna hafi lært nýjan orðaforða, ný hugtök, nýtt lýðskrum, þá hefur hugurinn ekkert breyst. Þeir tala mikið um nútímalega stjórnarhætti en þar sem þeir ná að mynda sínar vinstri stjórnir, eins og til dæmis í borgarstjórn Reykjavíkur, þar eru skattahækkanir, útgjaldaaukning og stórfelld skuldasöfnun enn þeirra einu ráð. Það eina sem hefur bæst við er linnulaus orðaflaumur um það hversu nútímalegir stjórnendurnir séu, og alltaf eru einhverjir einfeldningar sem láta blekkjast um stund.

Frétt úr Morgunblaðinu í gær.
Frétt úr Morgunblaðinu í gær.

Breytingarnar á Íslensku þjóðlífi síðasta áratug hafa verið meiri en menn átta sig á í fljótu bragði og feikilega mikið miðað í frjálsræðisátt og þarf í senn töluverða vanþekkingu og einstaka ósanngirni til þess að neita því. En það er ekki svo að sú ferð sé án útúrdúra, að allt hafi verið af hinu góða þessi ár, eða að ekkert sé lengur óunnið. Stórfelld ný opinber útgjöld og eru einstaklega ógeðfelld lög um fæðingarorlof þar lang versta dæmið hafa verið ákveðin; reglugerðafarganið hefur áfram þanist út og fjölmargar íþyngjandi reglur hafa verið settar á borgarana og atvinnulífið og eru stórlega ofmetin og misskilin samkeppnislög þar versta dæmið og svo mætti áfram telja. Og meira að segja samningurinn um hið evrópska efnahagssvæði er ekki einhlít hamingja þó sumir virðist hafa talið sér trú um það. Þó það verði ekki rakið hér sérstaklega þá verður því ekki neitað að eins og sumir svo kallaðir fræðimenn hafa túlkað hann ranglega vitaskuld þá gengur hann óþægilega nærri fullveldi landsins og löggjafarvaldi Alþingis.

Það er ljóst að þó verulega hafi miðað undanfarinn áratug þá er enn margt ógert og má hér nefna eitt og annað. Það þarf að ljúka einkavæðingu bankanna. Það þarf að breyta lífeyrissjóðakerfinu í frjálsræðisátt. Það þarf að létta fjölmörgum íþyngjandi lögum og reglum af borgurunum og atvinnulífinu. Það þarf að gera samningafrelsi borgaranna hærra undir höfði og leyfa þeim að ráða sínum málum sem mest. Það þarf að gera fríverslunarsamninga við sem flest ríki án þess að skerða fullveldi landsins eða loka það inni í tollabandalögum. Það þarf að lækka skatta verulega, bæði á einstaklinga og atvinnulífið. Það þarf að einfalda stjórnarskrá ríkisins og nema úr henni ýmis óskhyggjuákvæði sem misskilningsmenn klíndu nýlega inn í hana og ábyrgðarlausir lögmenn og dómarar geta notað sem óútfylltan víxil sér til handa til þess að stjórna landinu án nokkurs umboðs frá kjósendum.

Það eru því afar mörg verkefni sem bíða frjálslyndra manna og nauðsynlegt að þeir leggist sem allra flestir á árarnar á komandi misserum og árum. Ef frjálslyndir menn standa saman og leggja sig alla fram í baráttu fyrir sameiginlegum málstað er ekki að efa að áfram mun miða í frjálsræðisátt á Íslandi, og það eins fyrir það að enn verði af og til haldið í kostnaðarsama útúrdúra sem alltaf munu glepja einhverjum sýn. En þó þau verkefni sem hér voru talin upp séu mikilvæg þá er annað verkefni ekki síður áríðandi. Það þarf einnig að standa vörð um þann árangur sem náðst hefur. Þó sumir láti stundum eins og nú sé vinstri stjórn við völd á Íslandi þá verða slíkar upphrópanir að skoðast í ljósi þess að fæstir slíkra gasprara eru nægilega gamlir til að muna eftir raunverulegri vinstri stjórn á Íslandi. En þeir sem muna lengur en örfá ár aftur í tímann, þeir vita hvernig slíkar stjórnir eru í raun. Hver man annars ekki eftir síðustu vinstri stjórn á Íslandi? Hver man ekki eftir ríkisstjórn þeirra Steingríms Hermannssonar forsætisráðherra, Ólafs Ragnars Grímssonar fjármálaráðherra, Svavars Gestssonar menntamálaráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur félagsmálaráðherra, Steingríms J. Sigfússonar landbúnaðarráðherra, Óla Þ. Guðbjartssonar dómsmálaráðherra og Júlíusar Sólness umhverfisráðherra? Hvernig halda menn að slík stjórn hefði tekið á málum síðustu tíu árin? Hver vill slíka ríkisstjórn aftur? Hver ætlar að skerast úr leik í baráttunni við afturhaldsöflin?