BYGGDASTOFNUNEkki er hægt að segja að ástæða sé til að fella mörg tár þótt yfirmenn Byggðastofnunar hverfi til þarfari verka en þeir hafa gegnt upp á síðkastið. Forstjóri og stjórnarformaður, sem deilt hafa opinberlega um málefni stofnunarinnar, munu nú væntanlega finna sér skaðminni störf og jafnvel störf sem verða bæði þeim sjálfum og öðrum til heilla. Byggðastofnun er nefnilega eitt af þeim fyrirbærum hér á landi sem gerir illt verra og ætti því að leggjast af. Í stað þess að finna nýja menn í störf þessara tveggja er því tilvalið fyrir ráðherra að leggja bæði störfin niður, ásamt með öðrum störfum við stofnunina. Einhverjir hafa áhyggjur af að forstjórinn muni vegna starfslokasamningsins sitja næstu tvö ár á forstjóralaunum við að gera ekkert. Þetta eru furðulegar áhyggjur í ljósi þess að hingað til hefur forstjóri Byggðastofnunar kostað skattgreiðendur mun meira en einungis eigin laun. Hið sama á við um aðra starfsmenn og þess vegna væri vel þess virði að semja við þá alla um tveggja ára starfslokalaun ef það yrði til að skattgreiðendur losnuðu við stofnunina.
Það er rétt að minna á að Byggðastofnun hefur það stórfurðulega hlutverk að lána þeim sem ekki fá lán á markaðnum. Þeir sem geta líklega ekki borgað lánin sín til baka fara til Byggðastofnunar og sækja um lán þar, og ef verkefnið er nógu ógæfulegt og skapar nógu mörg störf á landsbyggðinni, þá fara menn út með fulla vasa fjár. Þetta fé er lagt í fyrirtæki sem eru lakari en önnur fyrirtæki og sú staðreynd að ríkið tekur peninga af öðrum til að lána út í gegnum Byggðastofnun, verður til þess að aðrir fá minna lánað. Þessir sem fá minna lánað eru með betri fyrirtæki sem gætu gert meira gagn og stuðlað að öflugra atvinnulífi en fyrirtækin sem hljóta náð fyrir augum Byggðastofnunar. Niðurstaðan er því í raun sú að fyrir hvert fyrirtæki sem Byggðastofnun bjargar eða hjálpar við að koma á koppinn, deyr fyrirtæki annars staðar eða þarf að minnsta kosti að draga úr starfsemi sinni. Þetta er svo sem þekkt staðreynd, en þeir sem kjósa að kaupa atkvæði með annarra manna fé vilja sem minnst af henni vita. Þeir vilja berja sér á brjóst fyrir kosningar og benda á hve góðir þeir hafi verið við kjósendur sína, þeir hafi skapað svo og svo mörg störf og eytt svo og svo mörgum milljónum í kjördæminu. Þeir tala minna um störfin sem ekki voru sköpuð annars staðar eða um skattgreiðendur sem fengu ekki að ráðstafa fjármunum sínum sjálfir.