Föstudagur 14. júní 2002

165. tbl. 6. árg.

Kannski má lýsa alræðisstjórnarháttum á meginlandi Kína í stuttu máli með því að þar sé meintum „vilja þjóðarinnar“ fylgt fram en vilji einstaklinganna hunsaður. Í gær birtist auglýsing í Morgunblaðinu frá hópi manna sem segist fyrirverða sig fyrir íslensk stjórnvöld vegna takmarkana á komu Falung Gong leikfimiðkenda til landsins á síðastliðnum dögum. Látum það liggja á milli hluta að ýmsir þeirra sem skammast sín þarna á síðum Morgunblaðsins hafa barist hart gegn því að aðrir liprir hreyfilistarmenn fái að koma til landsins. Þeir kalla þessa einstaklinga gjarnan þræla og vændiskonur sem haldi til á sóðabúllum. Hitt er öllu merkilegra að þessi skömmustulegi hópur telur sig þess umkominn að tala fyrir hönd íslensks almennings. Í auglýsingunni segir: „Við fullvissum ykkur um að það er ekki í samræmi við vilja íslensk almennings.“ Og á ensku: „We assure you that these actions are not in accordance with the wishes of the Icelandic people.“
Hér virðist þankagangur Beijing stjórnarinnar og lítilsvirðing hennar fyrir vilja einstaklingsins hafa smitað út frá sér og farið langt með að spilla annars ágætri hugmynd um að mótmæla mannréttindabrotum á meginlandi Kína.

Forsprakki byltingarstjórnarinnar á meginlandi Kína fagnar 50 ára harðstjórn kommúnista.

Og það er ekki aðeins sjálfbirgingsleg yfirlýsing manna, sem skyndilega telja sér heimilt að tala ekki aðeins fyrir sjálfa sig heldur einnig tæplega þrjúhundruðþúsund íslenskar sálir,  sem er athugaverð við auglýsingu þeirra í Morgunblaðinu í gær. Þar er því beinlínis haldið fram, að „framferði“ stjórnvalda, án þess að útskýrt sé sérstaklega í hverju það hafi falist, sé „óskiljanlegt“. Þarna, eins og svo víða undanfarna daga, eru gífuryrðin ekki spöruð. Menn geta deilt um það hvort stjórnvöld hafi átt að láta það afskiptalaust eða ekki, að hingað hugðust streyma hundruð erlendra ríkisborgara til þess að sýna maklegan fjandskap sinn við erlendan þjóðhöfðingja sem væntanlegur var í opinbera heimsókn til forseta Íslands. Það er sjálfsagt að deila um það og ekki þarf að rekja hér að nýju niðurstöðu Vefþjóðviljans um það álitamál. En nokkur atriði blasa þó við flestum þeim sem ekki láta stjórnast af tilfinningunum einum:

* Hingað hugðist koma andófshópur erlendra samtaka, fjölmennari en lögregla Reykjavíkur og nágrennis. Hópurinn á sér ekki sögu um líkamlegt ofbeldi en vitað er að hann vill komast eins nálægt hinum erlenda gesti og hann getur. Lögregla taldi sig hafa heimildir – hugsanlega þó ónákvæmar eða byggðar á röngum fregnum – fyrir því að misjafnt væri hversu vel hópar frá þessum samtökum hlýddu fyrirmælum lögreglu.

* Forystumenn þessa hóps sendu sína menn hingað með þeim skilaboðum að hér væri lögregla fámenn og vanmáttug.

* Íslenska lögreglan treysti sér ekki til að gæta öryggis hins erlenda þjóðhöfðingja, ef hún til viðbótar við venjulega öryggisgæslu þyrfti að hafa gát á að 500-600 manna hópi, sem auk þess vill komast eins nálægt leiðtogum Beijingstjórnarinnar og hægt er, án þess að beita formlegu ofbeldi. Jafnvel þó margir séu þeirrar skoðunar að reynslan sýni að hvorki nokkur úr hinum erlendu samtökum né nokkur sem laumi sér með þeim muni gera annað en friðsamlegar „leikfimiæfingar“ þá verður öryggisgæsla um erlenda þjóðhöfðingja ekki eingöngu miðuð við slíkt traust, auk þess sem lögregla þarf að sinna annarri hefðbundinni öryggisgæslu um hinn erlenda leiðtoga.

* Þegar lögregla treystir sér ekki til að sinna öryggisgæsluhlutverki sínu með þeim hætti sem ríkinu ber er um þrennt að ræða. 1. Aflýsa heimsókn hins erlenda gests. 2. Sjá til þess að aðstæður verði viðráðanlegar. 3. Láta heimsóknina fara fram eins og ekkert hafi í skorist, hunsa einfaldlega mat lögreglunnar og vona það besta.

Með þessu er Vefþjóðviljinn ekki að segja að það sé skoðun blaðsins að þeir hafi rangt fyrir sér sem nú segja að stjórnvöld hefðu átt að hleypa hingað öllum þeim Gongurum sem hingað vildu koma. Þó Vefþjóðviljinn nefni hér nokkrar röksemdir sem mæla með þeim ákvörðunum sem íslensk stjórnvöld tóku í vikunni þá er ekki þar með sagt að ekki séu til rök fyrir gagnstæðri niðurstöðu. Líklega hefðu engin vandræði orðið þótt hingað hefðu streymt allir þeir leikfimiiðkendur sem það vildu – en hér er líka rétt að leggja áherslu á orðið líklega. Stjórnvöld mátu þetta með þeim hætti sem kunnugt er og settu takmarkanir á komu mótmælenda til landsins. Það segir auðvitað sitthvað um þá leikfimi sem þessir mótmælendur stunda að þeir komu hingað engu að síður, gegn fyrirmælum stjórnvalda. Aðgerðir íslenskra stjórnvalda undanfarna daga hafa því ekki verið „óskiljanlegar“. Menn geta verið þeim samþykkir og aðrir geta verið þeim ósamþykkir. En aðgerðirnar eru hreint ekki óskiljanlegar, eins og hópur manna fullyrðir án nokkurs rökstuðnings í Morgunblaðinu í gær.

En þó einhverjum kunni jafnvel að þykja sem hópur manna hafi orðið sér til skammar í Morgunblaðinu í gær þá ættu þeir sömu einhverjir ekki að biðjast afsökunar á gerðum þessa hóps. Menn biðja nefnilega eingöngu forláts á eigin gjörðum en ekki annarra.