Fimmtudagur 13. júní 2002

164. tbl. 6. árg.

Umsóknir þar sem umsækjandi óskar eftir nafnleynd verða ekki teknar til greina. Þessi einarða hótun fylgir gjarnan núorðið aftast í þeim auglýsingum þar sem hið opinbera leitar starfsfólks. Það er svo sem ekki undarlegt að þetta sé tekið fram því frekar nýlega var því klínt í lög að héðan í frá skyldi gefa upp hverjir sæktu um opinber störf. Það er eitt af því sem er svo nútímalegt og faglegt, og sennilega lýðræðislegt líka. Nú þykir nefnilega alveg óskaplega fínt að upplýsingar um alls kyns hluti liggi fyrir hunda og manna fótum og ef einhvers staðar þykja rök til að viðhalda leynd á nokkrum hlut má yfirleitt treysta því að stórfréttamenn séu mættir með stóryrðarunur um „hlutverk“ sitt í mannlífinu og upplýsingalögin húðflúruð á tilkomumikil enni sín.

En, hvern varðar um hver sækir árangurslaust um opinbert starf? „Jú, ég vil vita hvort besti umsækjandinn sé alltaf valinn og þess vegna verð ég að vita hverjir sækja um“, heyrist stundum sagt og einn berserkur hefur bætt því við að það sé einfaldlega opinber gerningur að sækja um opinbert starf. En því miður eru meiri gallar en kostir við að nöfnum umsækjenda um störf sé útvarpað og sjónvarpað. Menn geta haft mjög eðlilegar ástæður fyrir því að óska eftir því að umsókn sín verði ekki lesin upp í fréttatímum og margir munu frekar taka þann kost að sækja alls ekki um en að búa við það að allir viti að þeir gætu hugsað sér að skipta um starf. Og að allir viti jafnframt að umsókninni hafi verið hafnað.

Það ætti að breyta starfsmannalögunum aftur og hreinsa út þá málsgrein sem kveður á um að skylt sé að veita „aðgang að upplýsingum um nöfn og stafsheiti umsækjenda þegar umsóknarfrestur er liðinn“. Það er enginn í raun og veru að fara að leggjast yfir umsóknir í þeim tilgangi að finna besta manninn fyrir ríkið, enda er ákvæðið ekki til þess hugsað. Ef það væri ætlunin þá væri kveðið á um að menn fengju aðgang að umsóknunum sjálfum, upplýsingum um starfsferil, ritstörf, meðmæli og hvað eina sem menn tína til við að reyna að sanna að þeir séu allra manna hæfastir. Þetta leiða lagaákvæði var sett í tvennum tilgangi. Til þess að gefa höfundum laganna nútímalegt og framsýnt yfirbragð og svo auðvitað til að þóknast þeirri stétt landsins sem sennilega er frekust og án vafa uppteknust allra af eigin mikilvægi, fjölmiðlamönnum.