Fimmtudagur 6. júní 2002

157. tbl. 6. árg.

Íþví ágæta tímariti, The Spectator, var á dögunum rifjað upp að þegar Englendingar urðu heimsmeistarar í knattspyrnu, árið 1966, þá létu fjölmörg dagblöð landsins sér nægja að fjalla um þann sigur á forsíðu sinni. Nú hins vegar sé svo komið að jafnvel áður en heimsmeistarakeppni hefst séu „fréttir“ af enska kappliðinu á forsíðu allra helstu blaða á hverjum einasta degi. Á forsíðum hafi þannig verið velt vöngum yfir því hvort önnur hvor löppin á einhverjum Beckham verði komin í lag fyrir kappleik við sænska fótboltamenn, hvort einhver Íri, sem hafi verið rekinn heim fyrir kjaft, verði kallaður til baka og blaðamenn hafi jafnvel sagt fréttir af því hvað þjálfari enska liðsins – sem er reyndar Svíi! – borðar í morgunverð. Allt sé þetta tíundað eins og enska knattspyrnuliðið sé í raun opinber sendinefnd sem eigi í úrslitaviðræðum um mál sem skeri úr um líf eða dauða siðmenningarinnar.

Að leik loknum eru allir góðir vinir.

Já, það er farið að láta alveg ofboðslega með þessar íþróttir. Ekki svo að skilja að það geti ekki verið gaman að stunda íþróttir eða jafnvel horfa á aðra leika, sérstaklega ef vel er leikið og keppni spennandi. En lengra nær það samt ekki. Það er gaman að horfa á góðan fótboltaleik. Það getur jafnvel verið gaman að velta honum fyrir sér, fyrst líklegum úrslitum og svo hvað hvort lið hefði getað gert skár. En lengra nær það ekki samt ekki. Fyrir aðra en þá sem hafa beina atvinnu af hverjum leik, leikmenn, þjálfara, dómara, línuverði, vallarstarfsmenn og starfsmenn veðmálafyrirtækja, þá skiptir niðurstaðan engu máli. Hún er semsagt ekki „frétt“. Og þaðanafsíður á það erindi í fréttatíma hver skorar hvert mark og hvað þá var búið að spila í margar mínútur.

Jafn fráleitar eru upptalningar á því í íslenskum fréttatímum hvort hinir eða þessir hartnær óþekktir íslensku knattspyrnumenn hafa komið inn á hjá „liði sínu“ í nýjasta leiknum. Eða á hvaða mínútu þeim var skipt út af. Þessir piltar eru eflaust fimir fótboltamenn en þegar allt kemur til alls þá eru þeir bara að sinna starfi sínu, þó það starf fari fram á fótboltavelli. Það að einhver strákur úr Keflavík komi inn á síðasta korterið í leik Kidderminster Harriers og Barnet skiptir engan máli nema akkúrat hann sjálfan, kærustuna og köttinn þeirra. Það á ekki að nefna þetta í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins með athugasemd um að hann hafi „ekki náð að setja mark sitt á leikinn en þó staðið fyrir sínu“.

Og hið opinbera á ekki að styrkja íþróttamenn eða samtök þeirra með fjárframlögum. Hið opinbera á að halda öllum sínum álögum í algeru lámarki svo að borgararnir geti sjálfir valið í hvað þeir eyða fé sínu. Þeir sem vilja leggja fé sitt í bolta og takkaskó eiga þá að gera það en hinir geta þá gert eitthvað annað. Ef skattar lækkuðu, útsvör til sveitarfélaga að sjálfsögðu meðtalin, þá gætu borgararnir sjálfir myndað félög um sín áhugamál og greitt þeim rífleg félagsgjöld. Þau félög gætu svo starfað að þeim málum sem félagsmenn hefðu áhuga á. Það væri mun sanngjarnara en að ríki og sveitarfélög skattleggi og skattleggi og veiti svo háværustu þrýstihópunum fé af því sem náð hefur verið af hinum almenna skattgreiðanda.