Miðvikudagur 5. júní 2002

156. tbl. 6. árg.
En hamíngja Íslands þá eygði þig hjá
þeim árstjörnum fyrstar sem glóðu;
og þaðan vjer áttum þann fögnuð að fá,
sem fæst hefur komið af góðu.
Þorsteinn Erlingsson, „Rask“.

Nei Þorsteinn Erlingsson var ekki hrifinn af Dönum og taldi Íslendingum fátt gott hafa komið frá Danaveldi. Með nokkurri einföldun má segja að skáldinu hafi þótt málfræðingurinn Rasmus Chr. Rask eina þakkarverða sendingin frá því landi þaðan sem fæst hefði komið af góðu. Og þó þetta kvæði hans hafi reyndar valdið hneyksli og uppistandi eftir að Hafnarblöðin birtu það í danskri þýðingu þá er hann aðeins einn fjölmargra Íslendinga sem fyrr og síðar hafa eytt skáldgáfu og prentsvertu í að gera upp reikningana við Dani.

Það er ekki undarlegt að margir Íslendingar hafi taugar og tilfinningar til Dana, svo lengi sem leið Íslands og Danmerkur lá saman þó hlutskipti þeirra væri ólíkt. Enn í dag horfa margir Íslendingar mjög til Danmerkur og líta til hennar sem fyrirmyndar. Alls kyns þjóðfélagsmál eru keyrð í gegn með vísan til þess sem sagt er tíðkast meðal Dana og fréttamenn rökstyðja gjarnan kröfur sínar um aukin ríkisútgjöld og útþenslu hins opinbera með því að fullyrða að á hinu eða þessu sviðinu séum „við“ rétt hálfdrættingar á við Dani. – Og vel að merkja, í hugum fréttamanna eru ríkisútgjöld alltaf jákvæð nema þegar kemur að tímabundnum kostnaði við einkavæðingu.

Og rétt er það, á sumum sviðum standa Íslendingar skár en Danir. Það eru til svið þar sem stjórnlyndum Dönum hefur tekist að þenja hið opinbera jafnvel enn lengra en skoðanasystkinum þeirra hefur enn tekist á Íslandi. Á þeim sviðum er Danmörk ekki fyrirmynd og leiðarstjarna heldur víti til að varast, þó íslenskir fréttamenn muni að sjálfsögðu aldrei líta þannig á mál enda skilja þeir hlutleysi sitt svo að í því felist fjandskapur við skattgreiðendur en stuðningur við andstæðinga þeirra. En hugsanlegt er að einhver örlítil breyting verði í dönskum stjórnmálum og þá í skárri átt. Hin nýja ríkisstjórn Danmerkur hefur undanfarna mánuði reynt að draga – þó í litlu sé – úr látlausum ofvexti ríkisins og hugsanlega náð svolitlum árangri þó hann sé að sjálfsögðu lítill í samanburði við nauðsynina – eða ef miðað er við mótmælin og æsinginn í þeim sem aldrei finnst nóg hert að skattgreiðendum.

Þannig hyggst danska ríkisstjórnin loka nokkrum sendiráðum ríkisins og hefur hafist handa við að fækka nefndum og starfshópum sem störfuðu á vegum hins opinbera, skattgreiðendum til augljósra útgjalda en afar hæpins ávinnings. Hvorugt ræður nokkrum úrslitum um fjármál ríksins en hvorttveggja er táknrænt og segir vonandi nokkuð um þann hug sem nú sé á bak við stjórn danska ríkisins. Það er jafnframt vonandi að sú hugsun berist yfir til Íslands og nái tökum á íslenskum stjórnvöldum og þá einkum fjármálaráðherra. Því þegar sá ráðherra af öllum mönnum er harðasti útgjaldasinni landsins þá mega skattgreiðendur vara sig.

Ef hins vegar sparnaðarandi dönsku ríkisstjórnarinnar berst yfir til Íslands, ja þá væri að minnsta kosti kominn annar fögnuður hingað frá því landi þaðan sem fæst er stundum sagt hafa komið af góðu. Og það þolir reyndar enga bið. Ef lokun sendiráða og fækkun nefnda og starfshópa er táknræn, hvað má þá segja um íslenska ráðamenn? Það er ekki aðeins að þeir séu ekki að fækka sendiráðum, nei það er verið að opna ný og það í löndum eins og Japan og Mósambik. Og hvað nefndir varðar, þá eru opinberar nefndir látlaust í fréttum. En ekki þar sem verið sé að fækka þeim. Nei, íslenskir fréttamenn tala daginn út og inn um það hve margar konur sitja í hverri nefnd. Jamm, það er víst mest áríðandi á Íslandi í dag, kynjahlutfall í nefndum.