Ígær minntist Vefþjóðviljinn lítillega á dóm héraðsdóms Reykjavíkur þar sem þrír menn, sakaðir um að hafa staðið að því að varpa eldsprengju að bandaríska sendiráðinu, voru sýknaðir af öllum kröfum ákæruvaldsins og fóru hlæjandi út, eins og sýnt var í sjónvarpsfréttum. Þetta er hins vegar ekki eini dómurinn sem nýlega hefur gengið í héraðsdómstólum landsins sem ástæða er til að líta á og víkur nú sögunni til Sauðárkróks. Sveitarstjórnarkosningar fóru fram laugardaginn 25. þessa mánaðar. Um þær giltu lög nr. 5/1998 um kosningar til sveitarstjórna. Í 1. mgr. 21. gr. þeirra segir nákvæmlega svo: „Þegar sveitarstjórnarkosningar eiga að fara fram skulu öll framboð tilkynnt skriflega yfirkjörstjórn þeirri sem í hlut á eigi síðar en kl. 12 á hádegi þann dag þegar þrjár vikur eru til kjördags.“ Framboðsfrestur rann því út – það er að segja ef menn fara eftir þeim kosningalögum sem gilda í landinu – klukkan 12:00 hinn 4. maí 2002. Hvorki fyrr né síðar.
Eins og sagt hefur verið frá í fréttum bar svo við að klukkan 12:11 umræddan dag var skilað til kjörstjórnar í sameinuðu sveitarfélagi Blönduóss og Engihlíðarhrepps, framboði félags er nefnist Bæjarmálafélagið Hnjúkar. Kjörstjórnin sagði að framboðið hefði komið að loknum þeim fresti sem kosningalögin setja og tók það ekki gilt. Þetta sættu Hnjúkamenn sig ekki við og kærðu til félagsmálaráðuneytisins. Ráðuneytið vísaði kærunni frá en þá leituðu Hnjúkamenn til héraðsdóms Norðurlands vestra. Og þar var skömmu síðar kveðinn upp sá dómur að þrátt fyrir að löggjafinn í landinu hefði ákveðið að framboðsfresti lyki klukkan tólf þá skyldi samt taka gilt það framboð sem borist hefði ellefu mínútur yfir tólf.
Auðvitað versla flestir frambjóðendur á Blönduósi í versluninni Vísi við Húnabraut. Það er góð áminning. |
Fyrir þessu voru færðar ýmsar merkilegar röksemdir. Fyrir lægi að Hnjúkar hefðu átt bæjarfulltrúa fyrir og að það væri á almannavitorði að þeir hefðu hugsað sér að bjóða fram að nýju. Kjörstjórnin hefði því mátt vita að von væri á framboði Hnjúkamanna. Megináherslu lagði dómurinn þó á eitthvað sem dómurinn kallaði hagsmuni kjósenda á Blönduósi og í Engihlíðarhreppi og væri rétt, svona í ljósi anda kosningalaganna, að láta þessa hagsmuni ganga framar skýru ákvæði umræddra laga.
Og þetta þykir mörgum víst bara hið besta mál. „Æ það er allt of strangt að fara að hanka menn á einhverjum ellefu mínútum“, hafa menn sagt. „Já og það vissu allir að þessir menn ætluðu að bjóða fram“ hafa aðrir bætt við. „Er ekki lýðræðislegast að kjósendur ákveði þetta bara?“ var meðal annars spurt á einum stað. Og þar sem Vefþjóðviljinn er iðulega ósammála síðasta ræðumanni þá vill hann fá að svara þessum kenningum: Nei, það er ekki of strangt að hanka menn á einhverjum ellefu mínútum. Það skipti engu máli þó að menn hafi mátt gera ráð fyrir að þessir menn ætluðu að bjóða fram. Og nei, þetta er ekki mál sem kjósendur gera út um í kosningum.
Er þetta voða ómannleg afstaða? Já, sennilega. Málið er hins vegar einfalt. Það skiptir ekki máli hvort mönnum finnst að kosningalögin eigi hér að vera sveigjanlegri. Þau eru það ekki. Dómarinn hefur ekki löggjafarvald og getur ekki tekið upp hjá sjálfum sér að gera lög „sanngjarnari“, þó að honum persónulega kunni að þykja sem eitt og annað megi betur fara í löggjöf.
Eitt af því sem bent var á í málinu var það, að til er í kosningalögunum sérstakt ákvæði sem heimilar kjörstjórn að veita sérstakan frest til að bæta úr ef í ljós kemur að á skiluðum framboðslista er smávægilegur galli. En augljóst er að sú heimild á ekki við hér, enda vandséð hvernig bætt verður úr því að menn skila ekki framboði innan tilskilinna marka. Nema þeir fyrir norðan hafi tök á því að fara aftur í tímann og leggja svo fyrr á stað næst. Hér er augljóslega átt við galla sem auðvelt er að bæta úr, svo sem ef í ljós kemur að meðmælandi lista á í raun lögheimili utan kjördæmisins eða annað slíkt.
Og það að allir hafi getað gert ráð fyrir að framboðið kæmi skiptir heldur ekki máli. Það á einfaldlega að skila skriflegu framboði til kjörstjórnarinnar fyrir ákveðinn tíma. Þó einhver auglýsi kannski látlaust í útvarpi að hann sé á leið í framboð þá veitir það honum enga undantekningu frá kosningalögunum. Og hvað ef eina mínútu yfir tólf hefði borist framboð frá félagi sem enginn vissi að ætlaði í framboð, en tíu mínútum síðar hefðu Hnjúkarnir mætt móðir og másandi? Hefðu Hnjúkarnir þá átt meiri rétt en hinir sem þó hefðu komið fyrr? Þeir sem leggja eitthvað upp úr því að almennur grunur um framboð einhverra félaga skipti hér máli hljóta að telja það.
Auðvitað geta svona reglur komið illa við menn. Ef einhver klaufskur skrifstofumaður Sjálfstæðisflokksins eða R-listans hefði til dæmis gleymt að skila framboði sinna manna í Reykjavík í tæka tíð, ja þá hefði nú tekið í hnúkana. Reykvískir sjálfstæðismenn hefðu þá sennilega neyðst til að kjósa Ólaf F. Magnússon, svona eins og franskir kratar þurftu að kjósa Chirac gegn Le Pen. Eða reykvískir R-listamenn hefðu orðið að fylkja sér um Methúsalem. Það er auðvitað að vissu leyti skiljanlegt að menn vilji komast fram hjá svona kosningalögum. En svona eru kosningalögin samt og eftir þeim eiga dómstólar helst að fara.