Föstudagur 31. maí 2002

151. tbl. 6. árg.

Þorgrímur Þráinsson ætlar ekki að fá sér smók í dag, eða svo segir hann. Og það sem meira er, hann vill ekki að nokkur annar fái sér þó ekki nema væri einn vindling í allan dag. Í dag er nefnilega „reyklausi dagurinn“, bæði á Íslandi og víða annars staðar. Út af fyrir sig er ekkert við því að segja þó að menn fari um og hvetji fólk til þess að neyta ekki ákveðinna vörutegunda eða ráðstafa ekki fé sínu með tilteknum hætti. Menn mega alveg hvetja annað fólk til að reykja ekki tóbak, drekka ekki áfengi, borða ekki spínat, búa ekki við Stöng í Breiðholti, kjósa ekki Frjálslynda og giftast ekki risum. Eða hvað sem menn vilja. Það sem hins vegar er verra er þegar menn taka að beita opinberu valdi og opinberu fé til að hindra fólk í slíkum ráðagerðum.

„Já en ríkið hefur nú kostnað af því að annast sjúkdóma sem hafast af tóbaksreykingum“, er þá sagt á móti. En sú röksemd er nú ekkert sérstök, og alls ekki þegar litið er til þess hversu oft henni er haldið fram til að rökstyðja alls kyns hömlur sem stjórnlyndir menn reyna að setja á annað fólk. Jújú, ríkið hefur stokkið fram og tekið að sér að sjá fólki fyrir heilbrigðisþjónustu. Fyrir þessa og aðra þjónustu heimtar þetta sama ríki svo stórfé af þessu sama fólki á hverju ári, en látum það vera. Meginmálið er þetta. Þó menn ótilkvaddir taki að sér að veita öðru fólki tiltekna þjónustu, þá veitir það eitt þeim ekki rétt til að leggja hömlur á þetta sama fólk. Þó ríkið hafi ákveðið að reka sjúkrahús og bjóða fólki að leggjast þangað fyrir lítið fé þá veitir það ríkinu engan rétt til aukinnar afskiptasemi af lífi borgaranna. Þó ríkið lýsi því skyndilega yfir að það bjóðist til að meðhöndla alla þá sem fá lungnabólgu þá veitir slíkt loforð ríkinu engan rétt til að bæta því við að þar með sé öllum skylt að ganga um með húfu og trefil.

Og ofstækið í tóbaksvarnarmálum hefur fyrir löngu gengið út yfir allt sem hægt er að leiða hjá sér. Eins og áður hefur verið getið í þessu blaði voru í fyrra samþykkt sérstök tóbaksvarnarlög þar sem höfundarnir – tóbaksvarnarnefnd – létu eins og á Íslandi væri eignarréttur einskis virði. Taugaveiklunarkennd fyrirmæli og bönn, einkum ætluð eigendum veitingahúsa en einnig öllum venjulegum húseigendum, ganga mun lengra en með nokkru móti getur samrýmst eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar. Í umræddum lögum er einnig mjög haldið fram meinlokuhugtaki sem ofstækismenn allra landa hafa reynt að koma á, svo kölluðum „rétti fólks til reyklauss lofts“. En það sem tóbaksvarnarofstækismenn átta sig ekki á, er að þegar menn halda inn í hús annars fólks, fólks sem leyfir reykingar í húsi sínu, þá hafa þeir einfaldlega afsalað sér rétti sínum til reyklauss lofts. Vilji þeir hins vegar ekki vera í reyknum, þá geta þeir einfaldlega farið út. Það er nefnilega ekki skyldumæting á íslensk veitingahús, þó biðröðin fyrir utan sum þeirra gefi reyndar stundum annað til kynna.

Í sömu lögum er önnur regla, álíka fáránleg og sú sem leggur „skyldu“ á veitingahúsaeigendur að sjá gestum sínum fyrir reyklausu svæði. Samkvæmt tóbaksvarnarlögum er nefnilega bannað að fjalla um tóbak opinberlega, nema það sé beinlínis gert í þeim tilgangi að vara við notkun þess! Nú sjá auðvitað allir menn, fjölmiðlamenn meðtaldir, að þetta bann fær engan veginn staðist, frekar en flest önnur bannákvæði tóbaksvarnarlaganna. Ákvæði þetta verður sjálfsagt aldrei annað en minnisvarði um það hvert ofstæki getur leitt velviljaða menn sem alltaf vilja hafa vit fyrir náunga sínum. Að minnsta kosti hvarflar ekki að Vefþjóðviljanum að bann eins og þetta fái staðist tjáningarfrelsisákvæði áðurnefndrar stjórnarskrár. Sem er eins gott. Það væri ekki gott ef ekki mætti nefna þá staðreynd að milljónir manna reykja daglega sér til ánægju.

Þó veit maður aldrei núorðið. Um daginn var maður dæmdur til refsingar fyrir að bulla um að ónafngreindir Afríkunegrar væru almennt latari en Íslendingar. Hver veit fyrir hvað menn verða dæmdir næst á Íslandi?