Samfylkingin er algert met. Þetta er gjörsamlega ótrúlegur flokkur. Á dögunum kynnti ríkisstjórnin að hún hefði ákveðið að leggja til að Alþingi veitti fjármálaráðherra heimild til þess að veita kunnu fyrirtæki allt að 20 milljarða króna ríkisábyrgð til þess að koma upp lyfjaþróunarrannsóknarstöð á Íslandi. Gott og vel, ekki þarf að rekja enn einu sinni það mál eða skoðanir Vefþjóðviljans á því, þær eru ekki til umræðu nú. En víkjum þá aftur til Samfylkingarinnar. Þegar ríkisstjórnin kynnti niðurstöðu sína sneri Morgunblaðið sér til Össurar Skarphéðinssonar og leitaði eftir afstöðu formanns Samfylkingarinnar til málsins. Og hún var skýr:
Össur sagðist „telja uppbyggingu lyfjaþróunarfyrirtækis á Íslandi afar áhugaverða“ og sagðist styðja að deCODE fengi ríkisábyrgð „þó að vissulega [fylgdi] því ákveðin áhætta.“ Málið hefði svo sem ekki enn verið rætt í þingflokki Samfylkingarinnar en Össur kvaðst telja „útilokað að Samfylkingin leggist í víking gegn frumvarpinu.“ Og Össur Skarphéðinsson bætti við: „Mér persónulega finnst þetta vera áhugaverður kostur til að byggja upp hátækniiðnað á Íslandi. Ég er klár á því að þetta er töluverð áhætta. Við höfum hins vegar í landinu góðan grunn að lyfjaiðnaði sem hefur verið í mikilli útrás. Ég er sannfærður um að deCODE er gott fyrirtæki sem á mikla framtíð fyrir sér. Það hefur auðgað mjög íslenskt atvinnulíf og ég tel að þessi nýja aðkoma þess að lyfjaframleiðslu sem byggist á erfðatæknilegum aðferðum styrki mjög undirstöðu lyfjaiðnaðarins. Hér er því verið að leggja grunn að framtíðaratvinnugrein.“
Þá segir í Morgunblaðinu að Össur hafi einnig sagst „líta á þetta mál sem þingmaður Reykvíkinga. Reykjavík þyrfti að geta staðist samkeppni við aðrar alþjóðlegar borgir.Það yrði að vera hægt að bjóða ungu fólki upp á fjölbreytt atvinnulíf sem borgaði há laun og byði vel menntuðu fólki trygga atvinnu.“ Og af því að Össur er töffari þá bætti hann því við nokkrum karlmannlegum orðum í lokin: „Þegar verið er að brjóta jarðveg fyrir nýjar greinar þarf stundum að taka áhættu og sem stjórnmálamaður er ég persónulega reiðubúinn til þess.“
Eftirleikinn þekkja allir. Frumvarpið um heimild til þess að veita umræddu fyrirtæki þessa ríkisábyrgð hefur mætt andbyr þeirra sem hafa séð ástæðu til þess að tjá sig um það og hefur mátt skilja umræðuna sem svo að það geti jafnvel verið líklegt til vinsælda að amast við frumvarpinu. Og á Alþingi var svo í gær var kynnt álit minnihluta efnahags- og viðskiptanefndar þingsins, þar sem segir að „lyfjarþróunargeirinn [sé] með áhættusömustu atvinnugreinum veraldar“ og þarf þá væntanlega engum að koma á óvart að minnihlutinn getur bara alls ekki stutt þetta frumvarp.
Undir álit minnihlutans skrifa tveir merkir þingmenn, Jóhanna Sigurðardóttir og Össur Skarphéðinsson.