Þriðjudagur 23. apríl 2002

113. tbl. 6. árg.

Árin, þegar ég ungur og saklaus af öðru en erfðasyndinni; árin, þegar atvik líðandi stundar efldu með mér lífsreynslu lausa við beiskju; árin, þegar vorkunn mín með öllu kviku var einlæg og ógagnrýn; árin, þegar Drottinn stóð mér fyrir hugskotssjónum sem vænn og virðulegur föðurafi, Kölska hins vegar á stundum svipaði til ofurlítið víðsjáls og til alls búins, en samt ekki sérlega hættulegs og raunar fremur einfalds móðurafa; árin, þegar ljósið var í senn ljós og sigursælt ljós og hægurinn hjá að særa burt allan myrkva ótta og nætur með einu stöku Faðirvori og signingu; árin, þegar mig að morgni vart óraði fyrir kvöldinu fram undan, en sat ugglaus undir vallgrónum vegg og lék mér að stráum; – þau ár eru liðin og eiga ekki afturkvæmt. Og það eru ekki árin ein, sem eru á bak og burt. Fjöldinn allur af fólki því, sem þá var uppi, er hniginn til moldar eða horfinn út í buskann. Jafnvel endurminningin deplar gleymnu auga, líkast stjarnbliki í skýjarofi.

GUNNARGUNNARSSONÞannig hljómar hið þekkta upphaf einnar alfrægustu sögu fremsta rithöfundar Íslands á tuttugustu öld. Reyndar samdi Gunnar Gunnarsson Fjallkirkjuna á dönsku eins og flest sín helstu verk og hún hafði farið mikla sigurför á erlendri grundu áður en hún kom fyrst út í íslenskri þýðingu. En Gunnar lét sér ekki nægja að semja bækur sínar á dönsku heldur réðst hann í það síðar að snúa þeim yfir á móðurmál sitt og er tilvitnunin að ofan þýðing höfundarins sjálfs. Fjallkirkjan er einhver glæsilegasta saga sem íslenskt skáld hefur samið, sennilega um nokkurra alda skeið. Í henni segir Gunnar sögu persónunnar Ugga Greipssonar og þarf enginn að velkjast í vafa um að Uggi er að mestu leyti Gunnar sjálfur. Saga hans er rakin frá fæðingu og honum fylgt í gegnum ógleymanlegar lýsingar á æsku hans austur á landi, þar sem Gunnar lýsir af sjaldgæfu innsæi í líf og hugmyndaheim barna, fram til þess er Uggi tekur að hasla sér völl sem rithöfundur í Danmörku.

Og Gunnar, nánustu skyldmenni hans og eiginkona, eru ekki einu raunverulegu persónurnar sem birtast dulnefndar í Fjallkirkjunni. Lesendur geta skemmt sér við að þekkja menn sem þekktir eru í bókmenntasögunni og hátt bar á þeim árum þegar Fjallkirkjan lagði upp í sigurför sína. Skáldin Jóhann Sigurjónsson og Jónas Guðlaugsson stíga til dæmis fram undir nýjum nöfnum rétt eins og dönsku skáldin Johan Skjöldborg og Martin Andersen Nexø, sem nokkru færri munu reyndar hafa í hávegum nú á tímum. En það er ekki leitin að fyrirmyndum sem veitir lesendum mesta ánægju af lestri Fjallkirkjunnar, heldur er það sagan sjálf og lýsingarnar á því Íslandi sem horfið er, sem verka sterkast á flesta lesendur. Víst er um það að Fjallkirkjunni er ekki haldið eins stíft að fólki og sumum skáldsögum annarra höfunda enda gerði Gunnar lítið til þess að koma sér upp hirð auk þess sem fáir hafa pólitíska hagsmuni af því að halda verkum hans fram. Sögur Gunnars eru gjarnan stórbrotnar frásagnir sem hafa höfðað sterkt til fólks víða um heim. Gunnar Gunnarsson setti hins vegar ekki saman sögur sínar og sveigði ekki söguþráð þeirra í þeim tilgangi að koma höggi á þá sem honum kunni að vera í nöp við eða uppskera lof og fliss.

Önnur saga Gunnars sem fór sigurför um heiminn er hin þekkta Saga Borgarættarinnar, eða Af Borgslægtens historie eins og hún hét þegar hún gerði rúmlega tvítugan höfund sinn að einhverjum allra vinsælasta rithöfundi danskrar tungu. Sagan gerist í íslenskri sveit og eins og menn geta ímyndað sér segir hún af fjölskyldunni á Borg. Lesendur eru ólíklegir til að gleyma þeim bæðrum, Ormari og sr. Katli Örlygssonum að ekki sé minnst á persónuna Gest eineygða sem ber að garði þegar líða tekur að sögulokum. Gestur þessi var kunnur að því að kunna ráð við þeim vanda sem aðrir gátu ekki leyst, var talinn allra manna vitrastur en nýtti aldrei gáfur sínar til neins er gat komið honum sjálfum vel. En fús til að beita þeim hvenær sem aðrir þurftu þeirra með. Saga Borgarættarinnar naut þvílíkra vinsælda að þegar árið 1920 hafði verið gerð fræg kvikmynd eftir henni og enn þann dag í dag stendur þessi fræga saga fyrir sínu handa hverjum sem njóta vill.

Fleiri bækur Gunnars Gunnarssonar eru þess eðlis að seint líða úr minni þeirra sem þær hafa einu sinni lesið og má nefna að fjöldi manna lætur aldrei desembermánuð svo líða að hann ekki lesi Aðventu að minnsta kosti einu sinni. Sú bók hefur ekki aðeins haft djúp áhrif á íslenska lesendur heldur hefur hún áratugum saman verið fyrstu kynni fjölda erlendra manna af Íslandi og þá ekki síður íslenskri náttúru og lífsbaráttu. Þá er Svartfugl ekki síður áhrifamikil bók sem einnig naut gríðarlegrar hylli á erlendri grund sem og íslenskri síðar. Í henni segir Gunnar sögu hinna kunnu Sjöundármorða en nú eru einmitt 200 ár liðin frá því þau voru framin. Árið 1802 bjuggu að Sjöundá tvenn hjón, þau Jón Þorgrímsson og kona hans Steinunn Sveinsdóttir og þau Bjarni Bjarnason og kona hans Guðrún Egilsdóttir. Jón og Guðrún létust með mjög sviplegum hætti og þau Steinunn og Bjarni játuðu að hafa myrt þau. Bæði voru þau dæmd til dauða og var Bjarni líflátinn en Steinunn lést í fangelsi. Var hún dysjuð á Skólavörðuholti og varð það siður vegfarenda að kasta steini í „Steinkudys“. Þarf ekki að undra að saga sem þessi verði áhrifamikil í höndunum á skáldi eins og Gunnari Gunnarssyni enda hefur Svartfugl farið víða og notið mikilla vinsælda allt frá því sagan kom út í Danmörku árið 1929.

Gunnar naut ekki aðeins gríðarlegra vinsælda í Danmörku heldur barst orðstír hans víða um heim. Þýskir lesendur tóku bókum hans opnum örmum og húsfyllir var hvar sem hann las upp á þeim slóðum. Á einni upplestrarferð sinni var hann meðal annars kvaddur á fund heldur ógeðfellds manns, áróðursráðherrans dr. Josefs Goebbels. Á þeim tíma stóð innrás Sovétríkjanna í Finnland og Gunnar fór um Þýskaland og talaði máli Finna. Hugðist hann tala máli Finna við dr. Goebbels en var vægast sagt illa tekið. Hálfum öðrum mánuði síðar var Gunnar svo boðaður á fund annars manns, engu betri, sjálfs Adolfs Hitlers og átti með honum stuttan fund. Finnlandsstríðinu var þá lokið með uppgjöf Finna svo það var ekki tekið upp á fundinum. Ræddu þeir Ísland fyrst og fremst en Hitler hafði jafnan áhuga á Íslandi og hafði á yngri árum freistað þess að semja óperu sem að hluta til skyldi gerast hér. Ekki náðu skáldið og foringinn þó vel saman og skömmu síðar hvarf Gunnar frá Þýskalandi gegn vilja Hitlers.

Kommúnistar reyndu þá þegar og löngum síðar, oft þó undir rós, að kalla Gunnar nasista. Í sinni fróðlegu bók, Milli vonar og ótta, sem út kom árið 1995, fjallar prófessor Þór Whitehead talsvert um Gunnar og samskipti hans við Þjóðverja. Segir hann þar meðal annars: „Skýringar, sem Gunnar gaf sjálfur á samskiptum sínum við Þjóðverjam virðast, með nokkrum fyrirvörum, réttar svo langt sem þær ná. Hann átti samstarf við nasista, einkum vegna þakklætis fyrir viðtökur bóka [sinna], andúðar á utanríkisstefnu Vesturveldanna, aðdáunar á „norrænum“ endurreisnarafrekum Þriðja ríkisins, köllunar sem friðarboði og vináttu við nokkra þýska menn. Með því að leggja út af þessum skýringum mætti meðal annars saka Gunnar um draumóra, tvískinnung og einfeldningshátt, en nasisti yrði hann aldrei nefndur með réttu. Það áttu kommúnistar þó eftir að gera um síðir bæði leynt og ljóst. En ásakanir þeirra komu úr hörðustu átt: Stalín var ber að miklu stórfelldari glæpum á fjórða áratugnum en Hitler sem var að byrja sinn blóðuga feril á valdastól. Gunnar Gunnarsson gerðist aldrei jafn auðsveipur Þriðja ríkinu og kommúnistar „verkalýðsríkinu“, enda ólíku saman að jafna. Honum svipaði frekar til þeirra samferðamanna kommúnista, sem dáðu sovétkerfið um margt, en vildu ekki taka það upp óbreytt. Gunnar forðaðist ævinlega nasistaflokka Norðurlanda, og hann mælti aldrei fyrir því, að Norðurlandamenn kæmu á þýsku stjórnarfari eða gengju í „öreigabandalag“ með Þjóðverjum eins og Alfred Rosenberg hvatti þá til að gera.“

Hitt er annað mál að Gunnar var tíður gestur í Þýskalandi á fjórða áratugnum og hefur ekki sérstakan sóma af þeim ferðum öllum. Meðal annars má geta þess – og má hér vísa til fyrrnefndrar bókar Þórs Whitehead – að í viðtali við blað í Berlín árið 1936 segist Gunnar hafa viljað sjá með eigin augum „mikillleik, mátt og tign“ hins nýja þýska ríkis, sem þá hafði risið á rústum Weimar-lýðveldisins, og viljað kynnast „því sambandi trausts og trúnaðar“ sem væri milli Hitlers og stuðningsmanna hans. Þó Gunnar verði ekki kallaður nasisti, hann hafi ekki borið ljúgvitni um ferðir sínar til Þýskalands með sama hætti og margir starfsbræðra hans er sóttu Sovétríkin fram og hann hafi ekki unnið að því að vinna nasismanum land á Íslandi, ólíkur þeim íslensku rithöfundum sem ráku erindi Stalíns á Íslandi, verður því ekki á móti mælt að hann var að sumu leyti glámskyggn þegar kom að því að meta þýsk málefni á fjórða áratugnum.

Sérstaklega verður þar að nefna, að þegar Austurríki rann inn í Þýskaland – við ánægju flestra Þjóðverja en óánægju flestra Austurríkismanna – þá taldi Gunnar einfaldlega ánægjuefni hversu „friðsamlega“ það hefði gengið fyrir sig. Taldi Gunnar að með þessu væri einungis verið að leiðrétta ranglæti Versalasamninganna. Hann var hins vegar harður á málstað Norðurlandanna gegn Þjóðverjum og gekk meira að segja í sérstakt landvarnarfélag sem hafði það að markmiði að verja landamæri Danmerkur og Þýskalands. Þá barðist hann fyrir stofnun sameiginlegs varnarbandalags Norðurlanda sem hugsað var til þess að mæta landvinningaáformum Hitlers.

Ekki er því einhlítt að gera grein fyrir viðhorfum Gunnars á þessum árum. Fróðlegst yfirlit um þau er að finna í áðurnefndri bók Þórs Whitehead og er óhætt að vísa fróðleiksfúsum á hana. Gunnar Gunnarsson er ótvírætt einn fremsti rithöfundur sem Ísland hefur alið og má vera þakkarvert að því fari fjarri að hann hafi farið eins illa með hæfileika sína og ýmsir skáldbræður hans gerðu. Gunnar var aldrei auðsveipur fylgismaður illmennanna í Berlín með sama hætti og margir hálofaðir íslenskir höfundar ráku erindi Leníns og Stalíns með öllum ráðum. Gunnar reyndi aldrei að vinna að nasistísku ríki á Íslandi, ólíkur þeim herramönnum sem boðuðu þúsundáraríki kommúnismans í bók á bók ofan. Gunnar fór ekki um með lygum og ósannindum og reyndi ekki að gefa Íslendingum ranga mynd af því sem hann sá á upplestrarferðum sínum. En eins og Þór bendir á, þá var Stalín orðinn ber að margfalt meiri glæpum en Hitler á þessum árum og á engan hátt sambærilegt sem bar fyrir augum í Sovétríkjunum og Þýskalandi.

Vefþjóðviljinn hefur áður getið þess, að þegar efnt er til stórkostlegra opinberra umræðna um einstaka rithöfunda þá sé óeðlilegt að einungis sé horft til kosta þeirra en augunum gersamlega lokað fyrir jafnvel óhugnanlegum göllum þeirra. Í tilfelli Gunnars Gunnarssonar er lítil hætta á slíku. Bæði er ólíklegt að efnt verði til allra þeirra umræðna sem kostir hans og ritverka hans gefa fullt efni til og auk þess eru neikvæðar hliðar hans fráleitt með þeim hætti að þær kasti þeim skugga á verk hans sem margir skáldbræður hans verða að búa við. Ættu menn því að geta notið verka hans án þess að þurfa í sífellu að reyna að horfa fram hjá ógeðfelldri sögu höfundarins eins og stundum ber við þegar aðrar bækur eru lesnar. Er það vissulega því ánægjulegra sem Gunnar Gunnarsson ber höfuð og herðar yfir íslenska starfsbræður sína á síðustu öld.