Í gær mátti sjá Árna Þór Sigurðsson formann skipulagsnefndar Reykjavíkur, liðsmann vinstrigrænna og oddvita R-listans gera tilraun til að skýra það fyrir áhorfendum að sjónvarpsþættinum Silfri Egils á Skjá 1 að flytja þurfi nokkuð stóran skammt af grjóti úr Geldinganesi út í sjó við Eiðisgranda. Á fyllingunni mun svo eiga að rísa byggð við sjávarmál. Þetta er forvitnilegt mál. Ekki síst – eins og nú um stundir þykir einna mest spennandi – í hnattrænu samhengi.
Ef nokkur maður er guðfaðir Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs og hugmyndafræðilegur leiðtogi hennar þá er það Hjörleifur Guttormsson líffræðingur og fyrrverandi alþingismaður. Hjörleifur hefur alla tíð reynst röngum málstað mikilvægur liðsmaður. Hinn 23. janúar 2001 brá hann ekki út af þeim vana og ritaði grein í Morgunblaðið undir fyrirsögninni „Gróðurhúsaáhrif – Hækkun sjávarborðs og skipulag“. Hjörleifur hafði þá fengið veður af hugmyndunum um uppfyllinguna við Eiðisgranda. Í greininni segir m.a.: „Í frásögn af þessum hugmyndum er ekkert minnst á hvernig þessi áform falli að líklegri þróun í hækkun sjávarborðs, ef til vill um einn metra á nýbyrjaðri öld frá núverandi stöðu og síðar þaðan af meira. Skipuleggjendum hljóta að vera kunnar spár þeirra sem um loftslagsmál og gróðurhúsaáhrif fjalla á vegum alþjóðasamfélagsins sem flestir taka alvarlega, nema helst íslenskir valdhafar. Gott væri að fá skýrt fram hið fyrsta, hvernig skipuleggjendur stórrar byggðar eins og hér um ræðir sjá fyrir sér nauðsynlegar varnir ef svo fer sem horfir um breytta sjávarstöðu. Umrætt svæði liggur fyrir opnum flóa, þar sem ágjöf er tíð í norðanátt. Mál þetta snertir bæði öryggi þeirra sem ætlað er að nýta svona svæði, tryggingar fyrir tjóni og allt umhverfi slíkrar byggðar, þar með talin röskun strandlengju.“
Nú þegar þessar hugmyndir um byggð við sjávarmál eru að verða að veruleika er viðbúið að Hjörleifur fari aftur á kreik og spyrji lærisveina sína hvor þeir hafi endanlega kastað trúnni á gróðurhúsaguðinn. Vinstrigrænir hafa hingað til ekki dregið af sér við telja almenningi trú um sannleiksgildi slíkra heimsendakenninga. Trúa vinstrigrænir í borgarstjórn ekki lengur á spár um hækkandi hita andrúmsloftsins vegna gróðurhúsaáhrifa með tilheyrandi hækkun á yfirborði sjávar? En lærisveinar Hjörleifs í borgarstjórn hafa líklega þegar hugsað fyrir þessu. Meðal þeirra hugmynda sem skipulagsyfirvöld borgarinnar hafa gælt við er að hafa byggðina á fyllingunni við Eiðisgranda „bíllausa“. Með öðrum orðum verði ekki gert ráð fyrir götum eða bílastæðum. Enda lítið gagn að bílum sem mara í hálfu kafi í eins metra djúpum sjó og síðar þaðan af meira.