Helgarsprokið 21. apríl 2002

111. tbl. 6. árg.

Þessa dagana kveður við hornahljómur og lúðrablástur úr öllum áttum. Málþing eru haldin, sýningar opnaðar og Morgunblaðið stendur á blístri. Á þriðjudaginn verður liðin öld frá fæðingu Halldórs Kiljans Laxness og þess minnist nú hver sem betur kann. Er óhætt að segja að flestir fjölmiðlar landsins fjalli nú um verk Laxness en ekki síður um skáldið sjálft. Hefur sú umfjöllun að mestu verið á einn veg og ekki annað að heyra en líf og starf þessa skálds hafi verið löndum þess einhlítt happ og megi þeir vera þakklátir fyrir allt það sem skáldinu þóknaðist að bera á borð fyrir þá. Þar hafi allt verið sama snilldin og vandfundinn betri og skemmtilegri maður en einmitt þessi.

„„Halldór er eini Íslendingurinn sem hlotið hefir heimsfrægð fyrir ritstörf sín, hlotið Nóbelsverðlaun í bókmenntum. Fáir dirfast að gagnrýna slíkan mann. En ég get ekki orða bundizt. Hvers vegna eru skáldin stundum ekki þeir gæfumenn að reynast samboðnir verkum sínum?““

Og það vantar ekki, Halldór Kiljan Laxness gat skrifað. Eftir hann liggja bækur sem líklegt er að verði lesnar um ókomin ár, sumar þannig stílaðar að fljótgert er að telja þá upp sem betur gerðu á síðustu öld. En það er ekki þar með sagt að það sé allt lofsvert sem frá skáldinu kom eða að ástæða sé til að horfa til þess með lotningu og aðdáun af því tagi sem nálgast tilbeiðslu. Saga Halldórs Laxness myndi vera saga manns sem vann mikið starf og gerði margt gott og margt illt eins og hlýtur að blasa við flestum sjáandi mönnum þegar horft er til lífs og starfs þessa skálds. En samt er eins og sumir sjái aðeins aðra hliðina en reyni af öllum mætti að gera eins lítið og hægt er úr hinni. Að vissu leyti er það skiljanlegt; það er ekkert gaman að því að horfa á það sem óþægilegt er, það er miklu skemmtilegra að njóta þess góða og loka einfaldlega augunum fyrir því sem kann að vekja óbragð af öllu saman. En stundum þarf að gera fleira en gott þykir. Með lofsöngnum um Halldór Kiljan Laxness sem nú er kyrjaður um allan bæ er aðeins hálf sagan sögð.

Áratugum saman lagði Halldór Kiljan Laxness sig allan fram um að hafa áhrif á viðhorf og gildismat landa sinna. Og þegar jafn iðinn rithöfundur og hæfileikaríkur hamast og hamast þá hlýtur eitthvað undan að láta. Greinar, ritgerðir og bækur voru skrifaðar til þess að vinna á Íslandi fylgi við verstu harðstjórn sem heimurinn hefur séð. Helsti fjöldamorðingi mannkynssögunnar, þekktur undir nafninu Jósef Stalín, átti sér í Halldóri Laxness ekki aðeins dyggan aðdáanda heldur stórkostlega áhrifamikinn áróðursmann. Á þeim árum þegar Íslendingar fóru almennt ekki til útlanda og erlendar fréttir bárust sjaldan til landsins fór Halldór Laxness til Sovétríkjanna og þegar hann kom heim skrifaði hann hástemmdar bækur Stalín til dýrðar. Þurfa menn ekki að velkjast í vafa um þau áhrif sem Halldór hefur haft með stjórnmálaskrifum sínum enda hafa margir trúað hinum mælska manni sem auk þess talaði með sannfæringarkrafti sjónarvottarins. Halldór Laxness bar Íslendingum rangar fréttir af því sem gerðist í Sovétríkjunum og hann lét sér það ekki nægja heldur andmælti sérstaklega sönnum fréttum sem aðrir menn sögðu þaðan. Og það var ekki endilega í smáum atriðum sem Halldór Laxness taldi sig þurfa að gæta hagsmuna Stalíns. Árið 1932 féll fólk til dæmis umvörpum í valinn úr hungri í Úkraínu. Fréttir af þessu bárust vestur og við svo búið mátti ekki standa. Í Sovétvininum skrifaði Halldór Laxness í júlí árið 1934: „Ég ferðaðist um Ukraine þvert og endilangt í „hungursneyðinni“ 1932. Það var yndisleg hungursneyð. Hvar sem maður kom var allt í uppgangi.“

Árið 1938 var skáldið komið til Moskvu og dag einn var hann gestkomandi í íbúð þýskrar konu, Veru Hertzsch að nafni, en hún var barnsmóðir Benjamíns H. J. Eiríkssonar. Að Halldóri aðsjáandi kom leyniþjónusta Stalíns á staðinn, handtók Veru Hertzsch og hafði dóttur þeirra Benjamíns á brott með sér. Vera Hertsch lést í Gúlaginu en til Sólveigar Erlu Benjamínsdóttur hefur fátt spurst síðan. Halldór Laxness kippti sér nú ekki upp við svona smámuni – enda mannskilningi hans og tilfinninganæmni við brugðið – og hélt heim og skrifaði Gerska æfintýrið, „snildarmanninum“ Jósef Stalín til dýrðar. Og það var ekki bara Stalín sem Laxness hafði í hávegum. Annar maður, Lenín, var líka hinn besti maður: „Verk Leníns er eitthvert einstæðasta afreksverk veraldarsögunnar, trú hans á mannkynið hefur gert okkur ríka, hann hefur gefið rússnesku byltíngunni ódauðlega sál og nafn hans mun verða nefnt í lotníngu og aðdáun meðan starfandi hönd hrærist á jörðinni.“ Og áður en Halldór Kiljan Laxness yfirgaf Sovétríkin heimsótti hann Lenín í grafhýsi hans og sagði svo frá því að sagt væri að við andlát Leníns „hefðu hundrað og sextíu miljónir manna mist hinn nákomnasta og kærasta vin sinn.“

Eins og áður hefur verið sagt í þessu blaði, þá var því ekki að undra að margir íslenskir lesendur hafi í góðri trú hneigst að þeirri stefnu sem leitt hefur meiri hörmungar yfir mannkynið en nokkur önnur. Margir menn – sumir oft kallaðir „andans menn“ – lögðu mikið á sig við að draga upp fallega mynd af þessari helstefnu og harðstjórunum sem studdust við hana. Halldór Kiljan Laxness var ekki sá eini sem braut kommúnismanum land á Íslandi þó hann hafi verið einna áhrifamestur þeirra. Sú saga verður ekki rakin hér eins ýtarlega og vert er, en Vefþjóðviljinn vill enn leyfa sér að vekja athygli á ákaflega athyglisverðri bók þar sem þess er freistað. Í bókinni Moskvulínunni fjallar dr. Arnór Hannibalsson, prófessor við Háskóla Íslands, meðal annars ýtarlega um samskipti Halldórs Kiljans Laxness og Sovétríkjanna, allt frá því Halldór hóf ungur baráttu fyrir málstað Stalíns og þar til skáldið sneri við blaðinu í Skáldatíma, þá nýkominn á sjötugsaldur.

Og hvað með þetta? Af hverju að vera að tönnlast á þessu í staðinn fyrir að gleyma þessu bara og njóta þess sem geðfelldara er í lífsstarfi skáldsins. Ja það er nú það. Staðreyndin er sú, að saga Halldórs Laxness er víti til varnaðar öllum þeim sem sóa hæfileikum og dugnaði í þágu þess illa í heiminum. Og víti þeim kór sem lofsyngur slíka menn fram í rauðan dauðann. Og menn mættu til gamans velta fyrir sér hvernig hátíðarhöldin hefðu orðið ef Laxness hefði lofsungið menn eins og Hitler og Goebbels í stað þeirra Leníns og Stalíns. Ef Laxness hefði skrifað um útrýmingarbúðir nasista með sama hætti og hann sagði frá hungursneyðinni í Úkraínu. Ætli ekki væri hætt við því að minnst yrði á slíka hluti ef á annað borð þætti ástæða til þess að halda málþing og sýningar úti um allan bæ.

En Halldór Laxness skrifaði ekki aðeins um málefni, hann skrifaði einnig um menn. Og skyldu menn þá kannski ætla að hann hefði haft minni ástæðu til að halla réttu máli en þegar hann var að vinna stjórnmálaskoðunum sínum og Stalíns fylgi. En einhverra hluta vegna fer samt misjöfnum sögum af því hvernig honum gekk að meðhöndla sannleikann á því sviði.

Árið 1976 sendi Halldór Laxness frá sér eina af sínum lofuðu endurminningabókum, Úngur eg var. Fjallar hann þar meðal annars um skáldið Einar Benediktsson og börn hans en Laxness hefur gjarnan lýst litlu áliti sínu á skáldskap Einars enda margir Íslendingar sem leyfa sér að telja Einar mikið skáld. Sérstaklega skrifar skáldið um Svölu, dóttur Einars, en hún var vinsæl og vinmörg stúlka á yngri árum. Laxness lýsir því sérstaklega þegar Svala sigldi frá Íslandi til langdvalar erlendis og hefði hann sjálfur þá verið einn um þá tryggð að fylgja henni til skips og hefði borið tösku hennar um borð. Um þetta – og margt annað í frásögn Nóbelsskáldsins – segir Hrefna Benediktsson, systir Svölu, í endurminningum sínum, Dúfu töframannsins sem Gylfi Gröndal skráði og út komu árið 1989:

„Hvílíkur heilaspuni, drottinn minn dýri! Ég bjó í Þrúðvangi, á meðan Svala systir mín dvaldi hér á landi í síðasta sinn. Og þar sem við vorum tvær einar heima af okkur systkinunum, vissi ég vel um alla vini og heimaganga þar. Hún kynntist Halldóri Laxness aldrei, hvorki í gestaboðum heima né annars staðar! Val bróður okkar getur hann vel hafa kynnst úti í bæ, þótt ég vissi ekki til þess. Valur fór utan snemma hausts 1924. Svala fór vorið 1925, en ekki viku á eftir Val, eins og Halldór segir. Og ekki í septembermánuði. Svala hafði stundað nám í læknadeild Háskóla Íslands um veturinn, svo sem skólaskýrslur sýna, og það voru félagar hennar og skólabræður þaðan, sem fylgdu henni til skips – og svo ég, systir hennar. En enginn Halldór frá Laxnesi var þar. Hann bar ekki heldur tösku hennar um borð, því að það var engin taska borin! Allur farangurinn hafði verið sendur um borð daginn áður. … Skólabræður hennar leiddu hana á milli sín ofan af Laufásvegi og niður á höfn. Eftir að skipið lagði frá, stóðum við á bryggjunni og hrópuðum kveðjur til hennar, og hún hrópaði gamanyrði til okkar á móti.“ Ekki er rúm til að rekja allt það sem Hrefna Benediktsson hefur að segja um þessar og ýmsar aðrar „endurminníngar“ Halldórs Kiljans Laxness, en í heilum kafla í sínum eigin minningum rekur hún sumar fullyrðingar Nóbelsskáldsins svo sem þær að Einar hafi kallað á Svölu heim til þess að selja hana þýskum viðskiptafélaga sínum og að Már bróðir hennar hafi 12-13 ára gamall stolið fötum af föður þeirra og veðsett fyrir bjór! Hins vegar má vekja athygli manna á umræddum bókarkafla, „Sagnfræði Nóbelsskáldsins“, þar sem Hrefna rekur þessi atriði og blaðaskrif sem af þeim hlutust en ýmsir urðu til þess að rita í blöðin og andmæla harðlega málflutningi Halldórs Laxness. En þau blaðaskrif eru auðvitað ekki rifjuð upp nú þegar menn standa á öndinni vegna aldarafmælis höfðingjans.

Í annarri lofaðri bók, Skáldatíma, minnist Halldór á nafntogað hús í Reykjavík, „Unuhús“, og mann sem við það var lengi kenndur, Erlend Guðmundsson. Þær lýsingar komu ýmsum spánskt fyrir sjónir og einn þeirra sem vel þekktu bæði Unuhús og Erlend ritaði langa ritgerð um bókarkafla Halldórs. Og hvað sem um þann mann má segja, þá var hann að minnsta kosti ekki meðlimur í neinu samsæri vondra hægri manna gegn heilögum Halldóri, þó reyndar sé rétt að hafa í huga að á þessum tíma var hann ósáttur við Halldór fyrir að hafa snúið baki við áður sameiginlegum vini þeirra, áðurnefndum Jósef Stalín. Hvað um það, í niðurlagi liðlega 30 blaðsíðna langrar ritgerðar sinnar, „Rangsnúinnar mannúðar“, segir Þórbergur Þórðarson meðal annars:

„Ég hef ekki lagt í vana minn að skrifa um bækur, hef unnið það hofróðuverk aðeins tvisvar sinnum á ævinni, ef ég man rétt. En þegar ég las kapítula Halldórs í Skáldatíma um Erlend og móður hans, rann mér svo í skap, að ég gat ekki haldið aftur af mér. Þar óð uppi svo margt, er gerði mér gramt í geði sem gömlum stórvini Unuhúss og kunningja sannleikans: ónákvæmni, ósannsögli, leiðinleg tilgerð og ankannaháttur, að því litla ógleymdu, að Erlendur er gerður í aðra röndina að flóni, honum lýst sem pólitísku viðrini og allt að því glæpamanni og við hann skilið minni og leiðinlegri mann en hann var. Þetta er að sönnu ekki gert í því skyni vísvitandi að minnka Erlend og afflytja, eins og ég hef áður vikið að. Hér eru að verki annars konar vankantar höfundarins, sem hann virðist varla vera sér vitandi eða ekki vilja viðurkenna fyrir sjálfum sér, kannski óviðráðanlegir. Þess vegna verður útkoman svona afkáraleg. Ég hef ekki lyst til að fara lengra út í þá sálma. En sem gamall Unuhússmaður og vinur Erlends, vildi ég gera það, sem ég gæti, til þess að koma í veg fyrir að þessi samsetningur í Skáldatíma rótfestist í hugum fólks og yrði þeim að tálbeitu, er síðar meir kynnu að skrifa um Unuhús og þau mæðgin Erlend og Unu, þó að segja mætti kannski, að kapítulinn beri sjálfum sér nægilegt vitni, því að hann er í heild ekki vel skrifaður, hroðvirknislega saman tekinn og einhvernveginn rýr í roðinu og ber ekki á enni sér aðalsmark sannsöglinnar. Ennfremur er frásögninni spillt með pólitísku masi, sem að miklu leyti er utangátta við meginþráðinn.“

Áður var minnst á hinn kunna hagfræðing Benjamín H. J. Eiríksson, en Halldór Laxness horfði rólegur upp á það er dóttir Benjamíns og barnsmóðir hurfu í klær leyniþjónustu Stalíns. Þeir Halldór og Benjamín þekktust all vel og í endurminningum sínum, sem út komu árið 1996, segir Benjamín kost og löst á skáldinu. Benjamín er hrifinn af mörgu því sem Halldór hefur skrifað, hefur dálæti á ýmsum af skáldsögum hans, og telur Halldór auk þess hafa skrifað margt þarflegt um ýmis málefni. En Benjamín lokar hins vegar ekki augunum fyrir því sem verra er:

„Ég viðurkenni fúslega, að oft er erfitt að átta sig á hlutunum, sérstaklega á ástandi mála í Sovétríkjunum. En Halldór Laxness mátti vita betur. Hann hafði séð það sama og ég, jafnvel meira. Það var skiljanlegt, að hann myndi þegja. En hann átti ekki að segja ósatt. Hann hafði verið viðstaddur réttarhöldin yfir Búkharín, sem voru sett á svið. Og hann hafði orðið vitni að því, þegar Vera var handtekin og farið með hana og lítið barn okkar á ókunnan stað. Um það þagði hann opinberlega í tuttugu og fimm ár, en gaf út lofgerðarrullur um Sovétríkin, Gerska æfintýrið og önnur verk, jafnframt því sem hann réðst harkalega á menn, sem beittu sér fyrir samstarfi vestrænna ríkja. … Halldór hefir auðgað tunguna og prófað þanþol hennar á marga vegu, þótt stundum gæti nokkurra öfga hjá honum, sem leiða til niðurrifs gamalla og reyndra varnargarða og með því spillingar tungunnar. Hann gerir sér ekki alltaf grein fyrir, að honum er því meiri vandi á höndum sem margir taka sér hann til fyrirmyndar. Mér hefir líkað sérlega illa við skrif Halldórs um trúmál, en einnig skrif hans um sögu þjóðarinnar. Þar er í fáum orðum grundvallarviðhorf hans, að allir menn séu ósannindamenn, lygarar. Allt, sem menn skrifi, sé að miklu leyti skáldskapur, lygi. Fyrir rithöfundinn, hverrar tegundar sem er, sé hið eina eftirsóknarverða að skrifa góðan texta, aðallega seljanlegan texta. Sannleikurinn skipti ekki máli. Viðhorf Halldórs er fagurfræðilegt, listrænt, ekki siðrænt. Hið neikvæða, alvörulausa lífsviðhorf, sem birtist í skrifum hans, smækkar óhjákvæmilega manninn. Kjarni þess virðist vera að svipta þjóðina lífsskoðun sinni og fortíð, höggva tengslin, skera á ræturnar. Ekkert má skyggja á skurðgoðið mikla, Fegurðina. Fegurðin á að ríkja ein. Stundum hljótum við að spyrja okkur, hvernig það fari saman að vera í senn mikill listamaður og lítil persóna.“

Benjamín segir, að margir hafi reynt að segja að listamenn séu í raun nokkurs konar skemmtikraftar samfélagsins, trúðar þess. Og það sé ekkert að því að vera trúður, það sé eins og hvert annað starf. En Benjamín bætir við að það hætti að vera heiðarlegt starf þegar trúðurinn taki að reyna að telja fólki trú um að hann sé eitthvað annað en trúður. Og þannig sé það með listamanninn Halldór Laxness:

„Hann vill ólmur kenna fólki lífsvizku. Þessi lífsvizka hans er aðallega fólgin í boðun guðleysis og siðleysis, skopi að því, sem öðrum er heilagt, skvaldri um alvarlega hluti, sem hann ber oft takmarkað skynbragð á. … Halldór hætti námi í menntaskóla strax á fyrsta ári. Hann segist hafa verið of upptekinn við að skrifa skáldverk til þess að geta sinnt náminu. Ég efa það ekki, að hugur hans hafi allur staðið til ritstarfa. En einmitt þess vegna hefði hann átt að skilja nauðsyn þess að menntast. … Niðurstaðan er menntunarskortur, áberandi menntunarskortur, þegar talið berst að þjóðfélagsmálum, trúmálum, siðferðilegum málum. Halldór reynir að breiða yfir þetta leiðinlega ástand með sleggjudómum og glamri. Tal vísindamanna einkennist ekki af fullyrðingum. Fullyrðingin er mál fáfræðinnar annars vergar, og trúarinnar hins vegar, vitnisburðarins. Halldór er eini Íslendingurinn sem hlotið hefir heimsfrægð fyrir ritstörf sín, hlotið Nóbelsverðlaun í bókmenntum. Fáir dirfast að gagnrýna slíkan mann. En ég get ekki orða bundizt. Hvers vegna eru skáldin stundum ekki þeir gæfumenn að reynast samboðnir verkum sínum?“