Sennilega má slá því föstu að enginn einn maður hafi – eða geti haft – meiri áhrif á gang heimsmála en forseti Bandaríkjanna hverju sinni. Það er því nokkuð mikilvægt, bæði fyrir Bandaríkjamenn og aðra, hver velst í það embætti og ekki furða að skoðanir séu skiptar um það, hver sé skást til þess fallinn. Og með sama hætti þyrfti ekki að koma á óvart þó skoðanir væru skiptar um það hvernig fyrri forsetar hefðu reynst. Þó er það sennilega svo, að um það er sjaldan deilt. Vitaskuld er ein ástæðan sú að mörgum finnst það engu máli skipta hvernig löngu látnir menn hafa reynst fyrir áratugum og jafnvel öldum. En einnig kemur hér til sögunnar að fólk hefur komið sér upp nokkuð ákveðnum hugmyndum um þetta efni, og vitaskuld að vægast sagt misjafnlega athuguðu máli.
Ef ungt fólk – eða fullorðið – í dag yrði gómað og spurt hvaða forsetar Bandaríkjanna hefðu reynst skást frá upphafi þá er sennilegt að þeir Abraham Lincoln, Franklin D. Roosevelt og John F. Kennedy yrðu nefndir fyrst. Lincoln hefði leyst þrælana úr prísundinni, Roosevelt hefði unnið bug á kreppunni og Kennedy hefði verið flottur gæi sem hefði talað mikið um mannréttindamál og verið á móti Nixon sem hefði verið hinn versti fantur. Að vísu er það svo að Kennedy var á margan hátt hálf mislukkaður forseti þó að sjálfsögðu verði að láta hann njóta þess sannmælis að hann stóð fyrir skattalækkunum sem komu efnahagslífinu vel. En að öðru leyti var hann á margan hátt veikur forseti sem lítið lét að sér kveða enda var það í forsetatíð hans sem sósíalistaríki Austur-Evrópu áræddu að reisa hinn illa þokkaða Berlínarmúr. Þá er það í meira lagi vafasamt að Roosevelt hafi unnið bug á kreppunni og er sönnu nær að alrangar opinberar aðgerðir hafi lengt hana og dýpkað til muna frá því sem orðið hefði.
Lincoln hins vegar, ja það er nú maður sem flestir eru til í að setja í dýrlingatölu. Þá eru fáir forsetar hafnir jafn mjög til skýjanna í bandarískum kvikmyndum en á þeim sagnfræðilega vafasama vettvangi má iðulega finna skírskotanir til mannkosta Lincolns og gæsku. En ekki eru allir reiðubúnir að skrifa taka undir með kórnum sem slær því föstu að Abraham Lincoln hafi verið hinn besti forseti. Einn þeirra, Thomas J. DiLorenzo að nafni, hefur nú gefið út bók sem hann nefnir „The real Lincoln – A new look at Abraham Lincoln, his agenda and an unnecessary war“ og er skemmst frá því að segja að Abraham fær þar ekki sömu fyrirhafnarlausu stjörnudómana og hann er vanur. DiLorenzo heldur því meðal annars fram að vel hefði mátt afnema þrælahald án þess að út brytist borgarastyrjöld sem kostaði um 620.000 manns lífið, örklumlaði hundruð þúsunda og lagði efnahag stórs hluta Bandaríkjanna í rúst. Og DiLorenzo nefnir margt fleira sem sjaldnar er hent á lofti til marks um góðmennsku Lincolns, svo sem að járnbrautir hafi verið þjóðnýttar, símskeyti ritskoðuð og að meira að segja þingmaður sem hafi sett sig upp á móti tekjuskattslögunum, Clement Vallandigham að nafni, – Lincoln hafi nú bara rekið hann í útlegð.
Ekki eru tök á að rekja staðhæfingar DiLorenzos frekar hér en vekja má athygli á bók hans fyrir þá sem vilja líta bak við glansmyndina sem almennt samkomulag virðist hafa skapast um að hafa af Abraham Lincoln. En ef allt stendur heima sem DiLorenzo segir um Lincoln, þá mun ýmsum sennilega þykja hlálegt að Lincoln sé almennt talinn sérstakur mannréttindaforkólfur og friðarpostuli. En hver segir að látnir leiðtogar séu metnir af sanngirni? Hvaða sanngirni er svo sem fólgin í því að Abraham Lincoln – sem var forseti þegar Bandaríkin urðu vígvöllur borgarastyrjaldar – sé annálaður friðarsinni en forseti eins og til dæmis Martin Van Buren sem náði einstökum árangri í því að halda Bandaríkjunum utan ófriðar, án þess þó að ganga á hagsmuni þeirra, sé nær öllum gleymdur?