Miðvikudagur 10. apríl 2002

100. tbl. 6. árg.

Evrópusambandssinnar hér á landi hafa löngum kvartað yfir því að umræða um hugsanlega aðild Íslands að sambandinu hafi ekki verið „tekin á dagskrá“. Þó hefur ekki verið meira rætt um nokkuð annað á pólitískum vettvangi en einmitt þessa spurningu. Þetta hefur löngum þótt skrýtið sjónarmið og öfugsnúið og þeir sem ekki hafa verið innvígðir í félagsskap Evrópusambandssinna hafa ekkert botnað í því hvernig á því standi að sumir álíti að málið hafi ekki verið á dagskrá, eða hvernig mál yfirleitt komist á dagskrá í umræðum í þjóðfélaginu öðruvísi en með því að menn ræði þau sín á milli og opinberlega. Og það á vissulega við um Evrópumálin.

Nú vill hins vegar svo til að í ljós er komið hvað Evrópusambandssinnarnir eiga við með þessu tali sínu, því samkvæmt fréttum frá Danmörku á nú að eyða 28 milljónum danskra króna, eða sem svarar til um 330 milljóna íslenskra króna, í umræður um Evrópumál þar í landi. Það sem þeim þykir líklega spennandi við þennan kost er að ef málið er „tekið á dagskrá“ með þessum hætti hér á landi er næsta víst að hið sama myndi gerast og í Danmörku, þ.e. Evrópusinnar yrðu í miklum meirihluta í úthlutunarnefndinni og megnið af styrknum færi til að boða fagnaðarerindi þeirra. Í Danmörku varð niðurstaðan sú að innan við 5% af upphæðinni fer til þeirra sem hafa sterkar efasemdir um Evrópusamrunann. Afganginum skiptir nefndin af hlutleysi og sanngirni á milli skoðanabræðra sinna og er það í prýðilegum anda þess lýðræðis sem tíðkað er í Evrópusambandinu, þ.e. einhliða lýðræðisins margfræga.

Biðstofur ráðuneytanna fyrir fjárþurfi forstjóra voru lagðar niður um árið. En það var til lausn í því: Snúa bara biðröðinni við. Í stað þess að eigendur fyrirtækja hími í biðsölum ráðuneyta sitja ráðherrar nú fyrir framan hjá forstjórum fyrirtækja og bíða áheyrnar í þeirri von að forstjórarnir „flytji störf til landsins“. Líftæknifyrirtæki og álver eru af einhverjum ástæðum efst á óskalistanum. Hvað varð um þá stefnu að búa öllum fyrirtækjum, en ekki aðeins nokkrum sérvöldu, góð skilyrði hér á landi?
Kannski, og vonandi, ganga þessi sérvöldu ævintýri betur en bæjarútgerð og þátttaka ríkisins í loðdýrarækt og laxeldi. Að öðrum kosti sitja skattgreiðendur uppi með reikninginn. Almennir fjárfestar eru þó ekki tilbúnir til að taka þá áhættu sem ríkið ætlar sér að taka með þátttöku í fjármögnum hinna sérvöldu fyrirtækja. Engu að síður segir fjármálaráðherra þátttöku ríkisins vera „ásættanlega áhættu“. Áhættan er ásættanleg ef aðrir en ríkið vilja ekki taka hana! Ríkisstjórnin, með fjármálaráðherrann í fararbroddi, er nú þegar Íslandsmethafi í varanlegri útgjaldaaukningu ríkissjóðs. Nú stefnir hún einnig að því að setja glæsilegt met í þátttöku ríkissjóðs í áhættufjármögnun einkafyrirtækis.