Stuðningur við evruna hefur farið minnkandi í Bretlandi frá því hún var tekin upp á meginlandinu um áramótin. Nú eru fimmtíu af hundraði Breta á móti upptöku evrunnar þar í landi, sem er fjórum prósentustigum meiri andstaða en í byrjun ársins, að því er fram kemur í nýrri könnun sem greint var frá í telegraph.co.uk skömmu fyrir helgi. Stuðningur við evruna er aðeins 38%, en 12% hafa ekki skoðun á kostum og göllum gjaldmiðilsins fyrir Breta. Þegar aðeins er litið til þeirra sem taka afstöðu þýðir þetta að 57% Breta eru andvígir evrunni og vilja ekki skipta á henni og Sterlingspundinu.
ESBEin helsta röksemdin fyrir því að Íslendingar verði að ganga skriffinnum Evrópusambandsins á hönd er að okkur sé nauðugur sá kostur að taka upp evruna því ýmsar aðrar þjóðir muni gera það hvað úr hverju. Í þessu sambandi eru Bretar aðallega nefndir og miðað við afstöðu almennings á Bretlandseyjum, og ekki síður hvernig sú afstaða hefur þróast, má ljóst vera að þessi röksemd um nauðsyn þess að Ísland gangi í Evrópusambandið er lítils virði.
En eins og menn geta ímyndað sér sveiflast afstaða til evrunnar nokkuð rétt eins og afstaða til annarra hluta. Áberandi er þó að þegar andstaða við evruna minnkar í könnunum virðast fréttir af slíku eiga mun greiðari leið inn á fjölmiðla en þegar andstaðan eykst. Hvort páskafrí er ástæðan fyrir því að fréttastofur hér á landi hafa enn ekki frétt af þessari nýju könnun eða hvort afstaða fréttamannanna til Evrópusambandsins ræður þar meiru um skal ósagt látið. Það mun hins vegar koma í ljós á allra næstu dögum.