Mánudagur 1. apríl 2002

91. tbl. 6. árg.

Í skírdagsblaði DV var birt grein sem óhætt er að vekja athygli lesenda á. Ólafur Teitur Guðnason blaðamaður skrifaði þar grein sem hann nefndi „Rangt lesið á mælana“. Fjallaði hann þar um Evrópumálin og gerði það af meira viti og meiri skynsemi en flestum starfsbræðrum hans í fjölmiðlastétt tekst yfirleitt. Í upphafi greinarinnar vekur Ólafur Teitur athygli á því, sem gervallri fjölmiðlamannastéttinni virðist hafa sést yfir, að samkvæmt nýrri og margfrásagðri skoðanakönnun um viðhorf Íslendinga til Evrópusambandsins, er stuðningur landsmanna við aðild Íslands að sambandinu heldur minni nú en fyrir fjórum árum. Þá vekur Ólafur Teitur athygli á því, að þrátt fyrir að annað hafi verið gefið í skyn, þá bendir hin nýja Evrópukönnun til þess að einungis um fjórðungur landsmanna virðist hafa tekið ákveðna afstöðu, með eða á móti inngöngu í Evrópusambandið. Tæplega þrír af hverjum fjórum hafa enga skoðun á málefninu, eru „frekar hlynntir“ eða „frekar andvígir“. „Sá sem hefur gert upp hug sinn hlýtur að svara því til að hann sé annað hvort mjög hlynntur eða mjög andvígur aðild“ segir í greininni.

Samkvæmt skoðanakönnuninni sem á dögunum var gerð á kostnað og eftir forskrift Samtaka iðnaðarins, eru 15,9 % þjóðarinnar mjög hlynnt því að ganga í Evrópusambandið. Samkvæmt gagnályktun frá því er 84,1 % landsmanna ekki mjög hlynnt því heldur skiptist í að vera frekar hlynnt, frekar andvígt, mjög andvígt og ekki með neina sérstaka skoðun. En það er margt fleira athyglisvert sem kemur fram í umræddri grein Ólafs Teits. Hann bendir til dæmis á það, að fyrir nokkrum misserum spurði Gallup hvort menn vildu sækja um aðild að Evrópusambandinu „með það fyrir augum að gerast aðilar að því fyrir aldamót“. Í hinni nýju könnun hafði stuðningur við aðildarumsókn stóraukist frá fyrri könnun en Ólafur Teitur bendir á, að nú var spurt hvort menn vildu sækja um aðild „til þess að ganga úr skugga um hvað Íslandi stendur til boða við aðild.“ Hér gáfu Gallup og Samtök iðnaðarins þar berlega til kynna að menn geti bara rétt si sona sótt um aðild að Evrópusambandinu og lagst svo undir feld á eftir og þá gert upp hug sinn hvort þeir hafi áhuga á aðild að sambandinu eða ekki. Hér er bersýnilega verið að slá ryki í augu fólks.

Ekki eru hér tök á að fara nánar yfir hina athyglisverðu grein Ólafs Teits en óhætt er að mæla með henni við alla þá sem enn kunna að hafa skírdags-DV við höndina. Hér verður að láta nægja að vitna í lokaorð Ólafs Teits enda eru þau ágætis lesning fyrir alla þá sem ganga um með Evrópustjörnurnar í augunum og treysta því að Samtök iðnaðarins komi þeim einhvern veginn til fyrirheitna landsins: „Það vantar sannfærandi rök fyrir því að einhver stórkostlegur, ótvíræður og óumdeildur ávinningur felist í því fyrir þjóðina að selja sig undir Brussel-valdið. Sá ávinningur þarf að yfirvinna ýmsa ótalda galla á ESB, til að mynda áform sambandsins um samræmingu skatta (sem eru miklu hærri í ESB en á Íslandi), minnkandi áhrif smáþjóða samhliða stækkun sambandsins og greinilegan vilja margra áhrifamanna til að gera ESB að sjálfstæðu sambandsríki. Aðeins með því að sýna fram á ávinning af þessu tagi mun Evrópusinnum takast að fjölga þeim sem segjast „mjög hlynntir“ aðild að ESB. Sem stendur eru það aðeins 15,9 % þjóðarinnar.“