Á síðasta ári hóf Hið íslenzka bókmenntafélag, í samvinnu við Þjóðminjasafnið, Húsafriðunarnefnd ríkisins og biskupsstofu, útgáfu nýrrar ritraðar, Kirkna Íslands. Er ætlunin sú, að í ritröðinni verði fjallað í máli og myndum um friðaðar kirkjur á Íslandi og horft á þær frá sjónarhóli stílfræði, byggingarlistar og varðveislu þjóðminja. Í þessu fyrsta bindi er ýtarlega sagt frá þremur kirkjum í Árnesprófastdæmi, Hrepphólakirkju, Hrunakirkju og Tungufellskirkju. Ef áætlanir útgefandanna ganga eftir verður hér úr myndarleg ritröð því friðaðar kirkjur á Íslandi eru alls 204. Þetta fyrsta bindi í ritröðinni er hið eigulegasta; ýtarlega er sagt frá kirkjubyggingunum og búnaði öllum. Munu margir finna þar eitt og annað áhugavert enda voru kirkjur á Íslandi um aldir „ekki einasta musteri trúar heldur oftar en ekki sýnileg táknmynd þess besta, sem samtíðin megnaði í húsagerðarlist, og griðastaður fyrir jafnt minningarmörk sem listmuni og aðra fegurð“ eins og segir í formála bókarinnar.
Já, friðaðar kirkjur á Íslandi eru alls 204 talsins enda eru, lögum samkvæmt, allar kirkjur friðaðar sem reistar voru fyrir árið 1918. En það eru ekki bara kirkjur sem eru friðaðar. Ríkið hefur tekið sér fyrir hendur að „friða“ alls kyns hús og þar með takmarka mjög ráðstöfunarrétt eigenda þeirra yfir þeim. Samkvæmt 6. gr. laga nr. 104/2001 eru öll hús, sem reist voru fyrir árið 1850, friðuð og er óheimilt að gera nokkra einustu breytingu á slíku húsi án leyfis opinberrar nefndar, húsafriðunarnefndar. Það er meira að segja bannað að setja skilti á friðað hús án leyfis.
Ekki nóg með þetta. Eigendum húsa, sem reist eru fyrir árið 1918, er skylt að leita álits húsafriðunarnefndar „með góðum fyrirvara“ ef þeir hyggjast breyta húsi sínu, flytja það eða rífa. Og þó hús séu yngri en þetta, þá geta eigendur ekki verið vissir um að þeir fái að nýta sér „eign“ sína í friði. Nei nei: „Friða má mannvirki, hús eða húshluta, sem hafa menningarsögulegt eða listrænt gildi. Friðun getur náð til nánasta umhverfis friðaðs mannvirkis. Friða má samstæður húsa sem hafa sama gildi og að framan greinir og gilda þá reglur friðunar um hvert einstakt þeirra.“
Og það er ekki bara svo að eigendur megi ekki breyta húsi sínu án leyfis húsafriðunarnefndar. Þeir verða líka að halda því við: „Ef vanrækt er viðhald friðaðs húss getur húsafriðunarnefnd lagt fyrir eiganda að gera umbætur innan hæfilegs frests. Nú líður frestur án þess að úr sé bætt og getur þá húsafriðunarnefnd að fengnu samþykki menntamálaráðherra látið framkvæma verkið á kostnað eiganda.“ Já, og Húsafriðunarnefnd hefur samkvæmt lögunum rétt til að framkvæma hvers konar eftirlit með friðaðri eign og skoðanir sem hún telur nauðsynlegt, svo húseigendur þurfa ekki að hrökkva upp með andfælum þó einn morguninn sé maður kominn inn á gafl til þeirra með tommustokk og stækkunargler. Hann er sennilega frá húsafriðunarnefnd.
Það er gaman af gömlum húsum og gömul hús, sem vel er haldið við, setja skemmtilegan svip á hvern bæ. Og ósköp væri mannlífið snauðara ef hinu gamla hefði alltaf með öllu verið rutt úr vegi í hvert sinn sem einhver nýbreytni hefði unnið sér sess. Það fer vel á því að menn fari vel með gamla hluti og gamlar byggingar, sýni þeim sóma og flaggi þeim þegar þannig stendur á. Vefþjóðviljinn er enginn talsmaður niðurrifs gamalla húsa, brotthvarfs gamalla hefða eða niðurbrots gamalla viðhorfa, nema síður sé. Það er hins vegar annað mál hversu langt hið opinbera á að ganga í því að skerða rétt eigenda húsa – gamalla sem nýrra – til þess að fara með eignir sínar eins og þeim gagnast best. Hversu langt á að ganga í því að láta virðingu fyrir gömlum húsum, jafnvel ómerkilegustu kofaskriflum, hindra uppbyggingu nýrrar starfsemi? Um þetta verður meðal annars tekist á í komandi borgarstjórnarkosningum þar sem frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins hafa meðal annars sagt, að offriðunarstefna standi nú miðborginni mjög fyrir þrifum. Vinstri menn hafa fátt sagt um þessi mál en líklegra er að þeir gangi langt í friðunaráttina, eins og þeir hafa löngum gert.
Auðvitað er að vissu leyti skiljanlegt að þeir, sem á annað borð vilja halda í gömul verðmæti, vilji frekar ganga of langt en of skammt í varðveisluátt. Það er auðvelt að fórna því sem áður hefur verið friðað en það sem einu sinni hefur verið rifið niður, það heimtist aldrei til baka. Engu að síður verða menn að gæta hófs í friðunaráráttunni og átta sig á því að með friðun húsa er verið að skerða mjög möguleika fólks til þess að nýta eign sína. Og einhvers staðar verður hið nýja að komast fyrir. Þá ættu menn líka að átta sig á öðru. Ef að húseigendur mega búast við því að hús, sem náð hafa ákveðnum aldri, verði friðuð, svo sem með því að mörk húsafriðunarlaga verði færð framar í tímann, þá ýtir það á eigendur að hefjast handa um breytingar og jafnvel niðurrif þeirra húsa sem nálgast þau mörk. Þannig geta ofstækisfullar friðunarreglur beinlínis orðið til þess að þrýsta á um niðurrif þeirra húsa sem menn vildu vernda.
Eins og lesendur vita, þá fjallar Vefþjóðviljinn mikið um stjórnmál en lítið um trúmál. Hefur blaðið engin áform uppi um að breyta því. En með því hér var fjallað um hina nýju ritröð, Kirkjur Íslands, og í dag er páskadagur, helgasta hátíð kristinna manna, þá er kannski við hæfi og óhætt að ljúka helgarsproki á óvenjulegum nótum og hverfa þá aftur til Kirkna Íslands. Í umræddri bók er meðal annars birt mynd af altaristöflunni í Hrepphólakirkju, en taflan er eftir einn helsta listmálara Íslands, Ásgrím Jónsson. Sýnir taflan Krist sitja til borðs með tveimur lærisveinum sínum eftir upprisuna, en Lúkas segir einmitt frá því að sama dag og Kristur reis upp frá dauðum hafi lærisveinar hans tveir farið fótgangandi til þorpsins Emaus sem var hálfa aðra mílu frá Jerúsalem. Bar þá svo við að hann mætti þeim, tók þá tali og slóst í för með þeim, en þeir þekktu Jesúm ekki. Er þeir nálguðust áfangastað lést hann ætla lengra, en þeir sögðu við hann: „Vertu hjá oss, því að kveld er komið og dagur liðinn“. Fór hann þá með þeim og var með þeim um kvöldið. „En svo bar við, þá hann sat til borðs með þeim og hann tók brauðið, gjörði guði þakkir, braut það og deildi meðal þeirra, að þá opnuðust augu þeirra, svo þeir þekktu hann, en þá hvarf hann þeim.“
Vefþjóðviljinn óskar lesendum öllum gleðilegra páska.