Laugardagur 30. mars 2002

89. tbl. 6. árg.

Það væri synd að segja að almennur hringlandaháttur væri yfir lagasetningu hér á landi. Vissulega er löggjafinn eilíflega að hringla í settri löggjöf, breyta og stundum að bæta en oftast að flækja. Þetta er auðvitað hringlandaháttur en sértækur frekar en almennur. Hingað til hefur á hinn bóginn alla jafna mátt gera ráð fyrir því að lög sem einu sinni hafa verið sett falli ekki niður með góðu móti. Þetta stafar þó ekki af lagatæknilegri hugsun löggjafans eða virðingu hans fyrir stöðugleika. Svo virðist sem ekki hvarfli að þingmönnum að nema lög úr gildi nema þá í þeim tilvikum sem önnur, og þá yfirleitt ýtarlegri, taki gildi í staðinn.

Þess vegna vakti það nokkra eftirvæntingu þegar það fréttist í síðustu viku að leggja ætti niður Kvikmyndaeftirlit ríkisins (sem hefur reyndar síðustu ár kallast Kvikmyndaskoðun, samkvæmt breytingu á lögum sem sett voru fyrir nokkrum árum). Loksins yrðu lög við skoðun kvikmynda og bann við ofbeldismyndum felld úr gildi og þar með hreinsað til í lagasafninu. En því var náttúrlega ekki að heilsa, því þingmönnum hrýs greinilega hugur við því að þurfa að nema úr gildi lög. Svo þarft sem það nú er að leggja niður Kvikmyndaeftirlitið þá virðist það ekki verða gert með einföldum hætti. Nú hefur verið lagt fram frumvarp sem miðar að því að leggja niður reglubundið kvikmyndaeftirlit. En í stað þess að leggja fram frumvarp sem gæti hljóðað eitthvað á þessa leið

1. gr. Lög nr. 47/1995 um skoðun kvikmynda og bann við ofbeldiskvikmyndum falla niður.
2. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.

hefur verið lagt fram langlokufrumvarp sem að vísu leggur loksins niður óþarfa stofnun um kvikmyndaeftirlit, en hefur samt mörg orð um vernd barna og ungmenna í heimi kvikmyndanna. Og það er auðvitað ekkert að því að vernda ungmennin, en það hefði jafn vel mátt gera með því að auka við eða endurbæta þar til gerð lög um vernd barna og ungmenna. Og það er svo sem ekki hægt að saka löggjafann fyrir það að loka augunum fyrir þeim möguleika að einfaldlega afnema lög um kvikmyndaskoðun, því eins og segir í athugasemdum með frumvarpinu þá var sá möguleiki fyrir hendi að bæta þessum barnaverndarákvæðum inn í hin rótgrónu lög um vernd barna og ungmenna. En eins og segir í frumvarpinu þá verður sú leið bara ekki farin.

Nú hefur það spurst út að leggja eigi niður Þjóðhagsstofnun. Ætli það takist án þess að sett verði ný lög um starfsemi þeirrar stofnunar?