Það eru ekki bara Íslendingar sem búa við það að vera sett ný og ný lög til að fara eftir. Bretar – svo dæmi sé tekið – fá yfir sig slíka skæðadrífu af nýjum lögum og fyrirmælum að þeir hafa varla undan að hlýða. En þessi nýju fyrirmæli þau koma reyndar fæst frá þeim stjórnvöldum sem Bretar hafa sjálfir kosið – eða hafa að minnsta kosti tök á að kjósa – yfir sig. Í síðustu viku einni tók Evrópuþingið fyrir fleiri lagaatriði en fyrirfundust í gervallri síðustu stefnuræðu ríkisstjórnar Bretlands, sem Englandsdrottning las þó upp með feiknarlegri viðhöfn í fyrra. Hvorki fleiri né færri en 40 tilskipanir og aðrar tillögur, sem munu kosta Breta milljarða sterlingspunda, runnu í gegnum rangala stjórnkerfis Evrópusambandsins án þess að Bretar gætu hreyft legg eða lið. Breska þingið getur lítið sem ekkert gert til þess að verjast þessu tilskipanaflóði af meginlandinu og breskur almenningur á sér engrar undankomu auðið. Enda er hann ekki spurður álits.
Í síðustu viku bannaði Evrópusambandið til dæmis alla sölu vítamína og steinefna sem ekki hafa verið sérstaklega samþykkt og talin upp á sérstökum lista. Þessi sakleysislega tilskipun verður til þess að þúsundir hættulausra vítamína, sem milljónir manna nota nú á hverjum degi, hverfa úr verslunum. Önnur tilskipun var sett um leyfilegan hávaða við flugvelli og veldur hún stórfelldum kostnaði fyrir flugfélög og hækkandi farmiðaverði. Önnur hávaðatilskipun, að sjálfsögðu einnig frá Evrópusambandinu, veldur því, að sögn The Sunday telegraph, að héðan í frá geta sinfóníuhljómsveitir ekki einu sinni spilað níundu sinfóníu Beethovens án þess að hljóðfæraleikararnir sitji allir með heyrnarhlífar! Enn önnur tilskipun sem Evrópusambandið sendi einnig frá sér í síðustu viku bannar svo notkun alls kyns tækja og verkfæra, svo sem dráttarvéla og keðjusaga, nema í örfáar klukkustundir eða jafnvel mínútur á degi hverjum.
Þetta eru aðeins örfá – og alls ekki þau verstu – dæmi af því sem Evrópusambandið tekur sér fyrir hendur á góðum degi. Frá þessu sambandi kemur stríður straumur reglna og fyrirmæla sem þjóðirnar og þjóðþingin fá yfir sig og geta engu breytt um. Reglurnar verða stöðugt víðtækari og leggja sífellt meiri hömlur á sífellt fleiri. Evrópusambandið gengur lengra og lengra í því að skerða fullveldi aðildarríkjanna og fer hraðar og hraðar í átt að ólýðræðislegu stórríki þar sem almennir borgarar hafa ekkert að segja um sín mál en verða að lúta fyrirmælum stjórnarherra sem enginn hefur kosið og næstum enginn veit hvað heita. Á sama tíma og þessi þróun blasir við öllum sæmilega gefnum mönnum sitja spekingar uppi á Íslandi og tala ekki um annað en það að endilega verði að koma Íslendingum inn í þetta sama samband, hvað sem það kostar.
Og gefa það jafnvel upp sem röksemd, að innganga í nýja stórríkið sé sérstakur liður í því að „efla fullveldið“.