Þ au eru heppin, þau á R-listanum, að Bryndís Schram er seinþreytt til vandræða. Og stödd í Washington. Það myndi nefnilega hvína í henni annars þessa dagana. R-listinn setti nefnilega í 12. sæti sitt konu nokkra, Jónu Hrönn Bolladóttur, sem starfar sem miðborgarprestur. Og það rifjar upp að vinstri menn hafa stundum amast mjög við stjórnmálaþátttöku presta; og það jafnvel afskaplega saklausri þátttöku. Menn muna til dæmis eftir því, að vorið 1987 var efnt til þingkosninga og þá gerðist sá léttvægi atburður að tveir prestar, sr. Hjalti Guðmundsson og sr. Þórir Stephensen, sögðu frá því opinberlega að þeir hygðust kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Þetta líkaði vinstri mönnum stórilla og þeir æddu í fjölmiðla með þeim orðum að það væri mjög alvarlegt mál að prestar væru að blanda sér í kosningabaráttuna með þessum hætti.
Sá vinstri maður sem æstastur varð, var sennilega Bryndís Schram, þáverandi varaborgarfulltrúi Alþýðuflokksins (sem var flokkur sem á þessum árum bauð gjarnan fram í Reykjavík). Á kjördag þetta ár birti Morgunblaðið grein eftir hana undir því látlausa nafni „Sálnaveiðar í þágu flokksvélar“ og sparaði Bryndís ekki stóru orðin. Segir í grein Bryndísar Schrams að „sem sóknarbarn í Dómkirkjunni“ geti hún „ekki orða bundizt lengur“ því að „báðir sálusorgarar þessarar höfuðkirkju landsins hafa látið hafa sig út í það að gerast áróðurssendlar og pólitískar leikbrúður Sjálfstæðisflokksins.“ Sagðist Bryndís hafa nú fengið fullvissu þess að „Dómkirkjan væri deild í Sjálfstæðisflokknum“ og lýkur hinni hófstilltu grein Bryndísar Schrams á þessum yfirveguðu orðum: „Eitt er víst. Ég sé mig tilknúna eftir þetta framferði prestanna að sniðganga þennan söfnuð Sjálfstæðisflokksins og leita annað eftir ómenguðu guðsorði.“
Óþarfi er vitaskuld að blanda því inn í þessa upprifjun að það varð engin nýbreytni í því fólgin að eftir þetta urðu kirkjugestir í dómkirkjunni að vera án nærveru Bryndísar Schrams því hún mun upp frá þessu hafa verið álíka fáséður gestur í kirkjunni og hún alltaf hafði verið. Gaman væri hins vegar að fjölmiðlar hefðu upp á Bryndísi Schram og leituðu álits hennar á því að miðborgarpresturinn hefði ekki aðeins lýst stuðningi sínum við framboð vinstri flokkanna í Reykjavík heldur hefði beinlínis sest ofarlega á lista þeirra og mæti nú hvítkröguð á framboðsfundi og berjist þar af krafti. Varla þarf nokkur að efast um að hugur Bryndísar Schrams og félaga hefur fylgt máli, þarna um árið. Allir kirkjuræknu vinstri mennirnir sem ruku í fjölmiðla vorið 1987 og réðust af heift á sr. Hjalta og sr. Þóri, þeir eru sennilega viti sínu fjær í dag út í Jónu Hrönn.