Miðvikudagur 13. mars 2002

72. tbl. 6. árg.

Á dögunum var kveðinn upp sá dómur að það væri andstætt Evrópureglum að á Íslandi væri ekki lagður sami virðisaukaskattur á íslenskar og erlendar bækur. Eins og flestum er kunnugt hefur hingað til verið lagður talsvert lægri skattur á þær íslensku en erlendar bækur skattlagðar eins og hver annar varningur. Það má taka undir, svo langt sem það nær, að ríkið eigi sem minnst að beita sköttum til þess að stýra neyslu fólks að þeim vörum sem ríkið einhverra hluta vegna vill að það kaupi öðrum fremur. Það ætti að vera jafn hár skattur af íslenskri bók og erlendri. Það ætti með sama hætti að vera jafn hár virðisaukaskattur af matvælum og öðrum varningi og svo mætti áfram telja. Þegar ríkið heimtar skatta af borgurunum þá ætti það að gæta þess að skattarnir séu sem jafnastir – það er að segja, að þeir séu að mestu leyti eða öllu án undanþágna – og sem lægstir.

Um tíma var enginn virðisaukaskattur lagður á íslenskar bækur. Fyrir tæplega áratug var því breytt, þrátt fyrir hávær mótmæli hagsmunahópa sem fullyrtu að íslensk bókaútgáfa, íslenskar bókmenntir, íslensk tunga og íslensk menning myndu leggjast af ef slík skattlagning væri hafin. Hugsanlega var það vegna þessara mótmæla sem þáverandi stjórnvöld ákváðu að skatthlutfallið yrði aðeins hluti af því sem almennt var innheimt af vörum. Nú er hins vegar komið tilefni til þess að endurskoða þá ákvörðun.

En það á ekki að lækka virðisaukaskattinn af erlendu bókunum. Þess í stað ætti að hækka virðisaukaskattinn af íslensku bókunum þannig að hann yrði jafn hinum almenna virðisaukaskatti. „Er nú Vefþjóðviljinn orðinn galinn? Er hann nú fylgjandi háum sköttum?“ spyr kannski einhver, og hefur að vissu leyti ástæðu til. Vefþjóðviljinn er andvígur háum sköttum og því andvígari sem skattarnir eru hærri. En það á að vera jafnræði í skattkerfinu. Ef virðisaukaskatturinn af erlendu bókunum verður lækkaður niður í það sem er á íslenskum bókum, þá eru bækur settar í sérstakan flokk gagnvart öðrum varningi. Alveg eins og ríkið á ekki að nota skattkerfið til þess að stýra neyslu fólks frá erlendum bókum yfir í íslenskar, þá á ríkið ekki að nýta skattkerfið til þess að stýra neyslu fólks frá öðrum hlutum yfir í bækur.

Vefþjóðviljinn vill að jafnræði í skattkerfinu verði aukið. Að undanþágur verði afnumdar, hvort sem þær eru fólgnar í lægri virðisaukaskatti á íslenskar bækur og matvæli, eða í sjómannaafslætti eða öðru. Svo á að lækka skatthlutfallið sem því nemur og helst enn meir. Og í þessari afstöðu, að í þessum tilfellum, bókunum og matnum, eigi að hækka virðisaukaskatthlutfallið felst ekki stuðningur við skatta eða skattahækkanir. Ef til dæmis yrði samþykkt á Alþingi að rauðhærðir karlar, hávaxnar konur eða Tálknfirðingar greiddu lægri tekjuskatt en aðrir, þá myndu líklega flestir samþykkja að slíkar sérreglur væru óeðlilegar. Menn myndu styðja það að þessu fólki yrði gert að greiða skatta eftir sömu reglum og aðrir. Alveg óháð því hvort menn séu almennt fylgjandi skattalækkunum eða ekki.