Fimmtudagur 14. mars 2002

73. tbl. 6. árg.

Sitt sýnist hverjum um hækkun launa stjórnarmanna Símans sem kynnt var á aðalfundi í vikunni. Það er án efa hægt að taka undir með þeim sem benda á að seta í stjórnum íslenskra fyrirtækja, sérstaklega stærri fyrirtækja, hefur ekki verið ofmetin til fjár hingað til. Það er hins vegar líka vel hægt að taka undir með þeim sem benda á að aðalfundur Símans í vikunni hafi ekki verið heppilegasti vettvangurinn fyrir ákvörðun um tímamótabreytingar í þessum efnum og þess vegna óþarfi, og í raun til óþurftar, af samgönguráðherra að taka þá ákvörðun að tvöfalda laun stjórnarmanna Símans.

Það er hins vegar ekki nokkur ástæða til að hafa samúð með sjónarmiði því sem Pétur H. Blöndal þingmaður virðist halda á lofti þegar hann fagnar umræddri hækkun. Í sjónvarpsviðtali við Pétur kom fram að honum finnst það koma málinu við að nú sé það kona sem fái þessi háu stjórnarformannslaun. Að minnsta kosti gerði hann mikið úr þeirri staðreynd að Rannveig Rist er kona og hvatti aðrar konur til að taka hana til fyrirmyndar í launakröfum sínum. Það er svo aukaatriði að frú Rist lýsti því yfir kvöldinu áður að hún hafi bara alls ekki beðið um þessa launahækkun. En Pétur spyr ekki að því hver spilaði út spilinu. Honum bara finnst þetta útspil samgönguráðherra minna vont af því að það var kona sem tók slaginn. Þetta lýðskrum Péturs, sem hann trúlega heldur að sé konum að skapi, er að verða nokkuð leiðigjarnt. Það hlýtur að mega unna konu þess að verða stjórnarformaður án þess að þurfi að þrástagast um kynferði hennar. Og af hverju þurfa konur umfram karla einhverja fyrirmyndir? Og af hverju ætti Rannveig Rist að verða konum umfram körlum einhver fyrirmynd? Vefþjóðviljinn skilur það ekki, en gerir engu að síður ráð fyrir að Rannveig Rist og félagar í Símanum, og ákvörðun samgönguráðherra, muni verða fyrirmynd hjá ýmsu góðu fólki, og öðru minna góðu, sem situr í stjórnum ríkisfyrirtækja. Og er þar margt um manninn. En menn skyldu þó ekki kenna konunni um það.