Það má ganga að mörgu vísu í lífinu. Sumu góðu, öðru sem er heldur lakara. Ein slík vissa, eða óumflýjanleiki, skapast þegar einkaaðilar koma að gæslu öryggis þar sem svo á sér stað hörmulegt slys eða hrottalegur glæpur. Um leið og harmleikurinn hefur gerst er jafn öruggt og að sólin kemur upp á morgun að þess verður krafist að þessir einkaaðilar verði þjóðnýttir hið fyrsta, í þeim tilgangi að tryggja öryggi fólks á ný. Eitt nýlegt dæmi er hryðjuverkin 11. september í fyrra. Í kjölfar þeirra var kastljósinu vitaskuld beint að öryggisgæslu á flugvöllum í Bandaríkjunum. Þeir sem hafa horn í síðu einkageirans brugðu ekki út af vananum og vöktu umsvifalaust athygli á því að þeir, sem skoða töskur og leita á fólki áður en það stígur um borð í flugvélar, væru starfsfólk einkafyrirtækja.
„Einkafyrirtækin, sem nú er verið að leysa frá störfum, fóru þann dag í einu og öllu eftir því sem þeim var uppálagt. Og sennilega fleiri daga, því flugránum hefur snarlega fækkað í Bandaríkjunum á undanförnum áratugum eftir að núverandi fyrirkomulag var tekið upp.“ |
Og hvað þýðir það? Jú, „einkafyrirtæki leitast aðeins við að græða en hugsa ekki um hagsmuni heildarinnar. Þau greiða starfsfólki sínu helst eins lágt kaupgjald og mögulegt er. Þess vegna eru þau ekki sérlega vökul augun, þar sem þeirra er einmitt bráð þörf á flugvöllum“, sagði sagan. „Hryðjuverkamennirnir sluppu því auðveldlega í gegn um hripleka síu gróðageirans.“ Þessi söguskýring rann eins og gómsæti ofan í marga bandaríska þingmenn, að sjálfsögðu fyrst og fremst þá vinstri sinnuðu, en einnig ýmsa aðra. Bandarískir fjölmiðlamenn, sem seint verða sakaðir um að hneigjast óþarflega til hægri – og reyndar er vandfundið það land þar sem hægt er að bera fjölmiðlamenn slíkra sök -, gerðu líka sitt til að sannfæra fólk um að einmitt þarna lægi hundurinn grafinn, það er í einkaeðli öryggisgæslunnar. Því var ákveðið að gera sem flesta starfsmenn þessara fyrirtækja að launþegum alríkisins og biðja fyrirtækin sjálf vel að lifa. Og nú eru því allir óhultir á flugferðum í Bandaríkjunum. Eða hvað?
Þegar litið er á þær upplýsingar sem bandarísk löggjafarsamkunda hafði handbærar þegar ákvörðunin var tekin, þá hefði augljósa niðurstaðan frekar verið sú að hlutverk einkageirans yrði aukið, en ekki minnkað, ef á annað borð þurfti að breyta. Hið opinbera, í þessu tilviki FAA, Federal Aviation Administration, ákveður hvað má hafa meðferðis á flugferðum og hvað ekki. Verkefni einkareknu öryggisfyrirtækjanna var svo að sjá til þess aðþessum skilyrðum yrði framfylgt. Flugræningjarnir 11. september tóku ekkert með sér um borð í vélarnar, sem ekki mátti samkvæmt þágildandi reglum. Einkafyrirtækin, sem nú er verið að leysa frá störfum, fóru þann dag í einu og öllu eftir því sem þeim var uppálagt. Og sennilega fleiri daga, því flugránum hefur snarlega fækkað í Bandaríkjunum á undanförnum áratugum eftir að núverandi fyrirkomulag var tekið upp. Sú staðreynd verður ekki skýrð með því að svo fáir reyni að bísa þotum nú til dags. Á síðasta áratug var á flugvöllum í Bandaríkjunum lagt hald á sífellt fleiri apparöt sem notuð eru í þeim tilgangi, svo sem byssur, sprengiefni og önnur vopn. Og Bandaríkin eru ekkert einsdæmi í þessu sambandi. Á flugvellinum í Tel Aviv reynir augjóslega afar mikið á öryggisgæslu. Þar hefur einkageirinn sinnt því hlutverki í fimm ár óaðfinnanlega. Á Heathrow í London, Schipol í Amsterdam og sjálfum Charles de Gaulle í París, táknmynd fransks bræðralags, sjá einkafyrirtæki um öryggi fólks. Hvergi er þar kvartað yfir slakri frammistöðu nema síður sé.
Vef-Þjóðviljinn er ekki sérlega áhugasamur um að finna aðra sökudólga vegna flugránanna 11. september en auðvitað hrottana sem stóðu fyrir ógnarverkunum. Það gildir einu hversu skilvirkt og gott eftirlit og öryggi er rekið á tilteknum stöðum, illviljaðir menn geta nær alltaf fundið leiðir til að skaða annað fólk, sé illska þeirra nógu sterk. Og sífellt þarf að velja milli þess hversu stífa öryggisgæslu skal reka, og þess að fólk geti komist leiðar sinnar sæmilega greitt. Hins vegar er ljóst að hin opinbera stofnun FAA hafði yfirumsjón með flugöryggi í Bandaríkjunum 11. september síðastliðinn. Ekki fær hún sérstakar skammir. Nei, nú á þessi sama stofnun öllu að bjarga og hefur nú mun stærri hluta sjálfrar öryggisgæslunnar í eigin höndum. Þó er öllum ljóst sem það vilja vita að þessi stofnun hefur ítrekað brotið eigin reglur í gegnum árin eða ekki framfylgt þeim. Það er með FAA eins og aðrar ríkisstofnanir að hún verður ekki dregin til ábyrgðar með beinum hætti þegar eitthvað fer úrskeðis. Eða hefur það einhvern tíma gerst að ríkisstofnun hafi verið svipt leyfi til eftirlitsstarfa þegar hún hefur verið staðin að því að bregðast hlutverki sínu? Ríkið refsar sjaldnast sjálfu sér. Einkaaðilar eru ekki fullkomnir og geta ekki tryggt öruggan heim. Í réttarríkjum mega einkaaðilar þó ganga að einu sem vísu: Þeir verða látnir sæta ábyrgð ef fólk verður fyrir skaða vegna mistaka þeirra.