Föstudagur 1. mars 2002

60. tbl. 6. árg.

Steingrímur J. Sigfússon ritaði minningargrein um einkavæðingu í Morgunblaðið í vikunni. Voða sniðugt. Sumir vinstri menn halda að þeir hafi fengið meðbyr gegn einkavæðingu vegna mikillar umræðu um slælegan rekstur ríkisfyrirtækja og stofnana undanfarið. Þetta er ævintýraleg ályktun. En kemur ekki á óvart þegar Steingrímur J. á í hlut. Í dag eru liðin 13 ár frá því bjórinn var leyfður. Í umræðum um málið á Alþingi fór Steingrímur mikinn gegn því að veikasta tegund áfengis yrði leyfð. Þar vantaði ekki rökrétt samhengi. Fleiri vinstri menn úr öllum flokkum lögðu honum lið.

Ég hef ævinlega reynt að leggjast gegn því að menn fjölluðu um þetta mál í svarthvítum litum, hlypu ofan í skotgrafirnar og væru annaðhvort 100% með eða 100% á móti….Fyrir mér hefur þetta mál tvær hliðar, eins og öll önnur, aðra slæma og hina sem ekki er eins slæm. – Steingrímur Sigfússon Alþýðubandalagi (síðar Vinstra grænu framboði).

Ég er móðir tveggja unglinga og þess vegna segi ég nei. – Margrét Frímannsdóttir Alþýðubandalagi (síðar Samfylkingu).

Vínulaus æska./Sú von deyr ei./Ég vil ekki bjórinn./Ég segi nei. – Stefán Valgeirsson Samtökum um jafnrétti og félagshyggju.

Verði bjórfrumvarpið samþykkt erum við Íslendingar að gera öðruvísi en allar aðrar þjóðir sem vilja færa sig nær betra mannlífi, betra umhverfi. – Karl Steinar Guðnason Alþýðuflokki.

Og þá spyr ég hæstvirta alþingismenn sem hér eru og ætla að styðja þetta mál: Til hvers eru menn kosnir á Alþingi og til hvers sitja menn hér og starfa? – Svavar Gestsson Alþýðubandalagi (síðar Samf… ja hver veit?)

Ég hef sagt við ýmsa sem hafa verið að grínast með að ég skuli vera andstæðingur bjórsins: Ég skal tala við ykkur eftir 3-4 ár þegar afleiðingarnar af bjórneyslunni hafa komið fram. Þá skal ég ræða við ykkur. Þá skulum við ræða hvaða áhrif þetta hefur haft í för með sér fyrir heilbrigðiskerfið. Árni Gunnarsson Alþýðuflokki.

Ég er viss um að bjórinn verður ákaflega mikill peningaþjófur og þá ekki síður þar sem síst skyldi, á heimilum þar sem er úr litlu að spila, því að þegar hann verður leyfður verður keppst við að hafa hann í ísskápnum. Þá verður boðinn bjór í staðinn fyrir kaffi. Við erum orðin alltof fínt fólk til að vera að bjóða þennan gamla þjóðardrykk okkar. Það verður boðinn bjór í staðinn fyrir kaffi. – Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir úr Borgaraflokki.

Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp um að leyfa sölu áfengis í öðrum verslunum en einkokunarsjoppum ÁTVR. Það er fyrirsjánlegt hvaða þingmenn munu öskra sig hása gegn því. Ögmundur og Steingrímur hvað?