Það er kunnara en frá þurfi að segja að opinberir starfsmenn hafa fengið ríflegri kjarabætur undanfarin ár en flestir aðrir. Með öðrum orðum hafa laun annarra verið lækkuð með sköttum til að hækka laun starfsmanna ríkis og sveitarfélaga. Nú er ekki gott að segja hvað veldur því að opinberum starfsmönnum hefur gengið svo vel að herja á samninganefndir hins opinbera. Svo virðist sem kjörnir fulltrúar á Alþingi og í sveitarstjórnum, sem ættu að halda um pyngjuna þegar gírugir hagsmunahópar seilast eftir auknum hlut, hafi lyppast niður þegar forystumenn stéttarfélaga hins opinbera mættu með kröfur sínar.
Ein af ástæðunum fyrir því að þetta hefur lukkast svo vel sem raun ber vitni hjá opinberum starfsmönnum kann að vera að kjörnir fulltrúar eru æði margir sjálfir fyrrverandi opinberir starfsmenn. Til að mynda sitja nú á Alþingi aðeins 16 þingmenn sem störfuðu í einkageiranum þegar þeir settust á þing. Í þessum fríða flokki „fulltrúa atvinnulífsins“ eru til dæmis Jóhanna Sigurðardóttir sem vann við skrifstofustörf hjá einkafyrirtæki árið 1978 og Guðni Ágústsson sem var mjólkureftirlitsmaður hjá Mjólkurbúi Flóamanna árið 1897 þegar hann fékk konungsbréf um að mæta á þing. Til að gæta sanngirni verður að geta þess að nokkrir fyrrverandi starfsmenn stéttarfélaga og nokkrir bændur eru ekki í þessum 16 manna hópi „fulltrúa atvinnulífsins“ og lái Vefþjóðviljanum það hver sem vill.
Nú er það síst af öllu ætlunin að halda því fram hér að það sé lausn á öllum vanda lands og þjóðar að fjölga þingmönnum sem starfað hafa á einum vettvangi fremur en öðrum. Eða að vandamálin stafi öll af því að opinberir starfsmenn hafi raðað sér umfram aðra í kringum kjötkatlana. Því fer fjarri. En þessi yfirburðastaða opinberra starfsmanna á Alþingi er engu að síður forvitnileg og ætti með réttu að vekja eftirtekt ekki síður en svonefnd „kynjahlutföll“ meðal kjörinna fulltrúa sem eru eilíf uppspretta misskilnings, frústrasjónar, rannsókna, blaðaskrifa, bókaútgáfu, opinberra nefnda, stofa og stofnana og jafnvel ástæða fyrir framboði og kjöri heils stjórnmálaflokks um nokkurra ára bil – og gott ef ekki er búið að stofna deild út í háskóla um málið.
En það er heldur engin sérstök ástæða til að útrýma mönnum úr atvinnulífinu úr hópi kjörinna fulltrúa. Það er svo sem ekki verið að segja það hér að það sé gert með skipulögðum hætti. Jafnvel þótt bæði „stóru framboðin“ til borgarstjórnar Reykjavíkur berjist nú hatramlega um hvort þeirra kemur fleiri opinberum starfsmönnum í „öruggt sæti“.