Hugtakið „jákvæð mismunun“ er óneitanlega í hópi þeirra sérkennilegustu í íslensku máli. Er þá mikið sagt enda gnótt til af vitleysu á íslensku. En það er kannski óvarlegt að flokka hugtakið með hreinni vitleysu. Það er ekki mótsögn í sjálfu sér með sama hætti og t.d. hvítsvart og það er heldur ekki helber kjánaskapur eins og sanngjarnt verð. Nei, hugtakið jákvæð mismunun er í hópi þeirra sérkennilegustu vegna þess að það lýsir stjórnmálastefnu sem hingað til hefur sífellt þurft að skipta um nafn svo ekki verði borin á hana kennsl og það lýsir henni með skýrari hætti en áður hefur þekkst, það lýsir sósíalismanum og það sem sérkennilegast er: sósíalistarnir nota það sjálfir þrátt fyrir það.
„Það er kaldhæðnislegt og í raun óvenju ósvífið, jafnvel þegar haft er í huga hverjir eiga í hlut, að hugtökunum jafnrétti og jákvæðri mismunun sé slengt saman, að fullyrt sé að jákvæð mismunun sé leið til jafnréttis.“ |
Það er kaldhæðnislegt og í raun óvenju ósvífið, jafnvel þegar haft er í huga hverjir eiga í hlut, að hugtökunum jafnrétti og jákvæðri mismunun sé slengt saman, að fullyrt sé að jákvæð mismunun sé leið til jafnréttis. Það er kaldhæðnislegt vegna þess að það jafnrétti sem vísað er til er oftast jafnrétti kynja og kynþátta og hin eiginlega barátta fyrir jafnrétti kynja og kynþátta hefur einmitt verið barátta jafnréttis gegn jákvæðri mismunun. Það var jákvæð mismunun að einungis karlmenn höfðu kosningarétt í Bandaríkjunum á 19. öld og lengstaf aðeins hvítir. Það var jákvæð mismunun að fram til 1918 höfðu konur ekki kosningarétt á við karla á Íslandi. Aðskilnaðarstefnan í suður-Afríku var jákvæð mismunun. Það var líka jákvæð mismunun þegar Maó sendi menntamenn í sveitirnar og það var jákvæð mismunun sem réði því hverjir voru sendir í sovéska Gúlagið og þannig mætti lengi telja. Mismunun er nefnilega ekki mismunandi, menn hafa bara mismunandi viðhorf til hennar.
Nýliðin öld einkenndist öðru fremur af þessari baráttu jafnréttis gegn jákvæðri mismunun, baráttu þeirrar hugmyndar að allir einstaklingar hafi jafnan rétt til lífs, frelsis og leitar að lífshamingju gegn þeirri hugmynd að einstaklingum sé mismunað um þessi sjálfsögðu réttindi, í þágu heildarinnar og jákvæðninnar. Þessi barátta setti mark sitt á Bandaríkin á 19. öld og þrátt fyrir að fólki væri mismunað eftir kyni og kynþætti svo verulega að konur og blökkumenn máttu teljast nær réttlaus þá urðu á þeim tíma til margir áhrifaríkir málsvarar jafnréttis og enmitt úr þeim hópum sem mismununin bitnaði harðast á. Stuttar tilvitnanir í ræður tveggja kvenna úr hópi áhrifaríkustu málsvara jafnréttis frá þessum tíma nægja til að varpa ljósi á að hversu fráleitt er að kenna jákvæða mismunun við þá jafnréttisbaráttu sem á rætur sínar í lífsstarfi þessara kvenna. Þrátt fyrir að bakgrunnur þeirra hafi verið gjörólíkur þá var það neikvætt viðhorf þeirra til mismununar sem varð til þess að þær vörðu báðar stórum hluta lífs síns í baráttu fyrir jafnrétti.
SOJOURNER„Vinir mínir, ég gleðst yfir því að þið eruð glöð en ég veit ekki hvað ykkur mun finnast þegar ég hef lokið máli mínu. Ég kem frá öðrum stað – frá landi þrælanna. Þeir hafa fengið sitt frelsi – það er mikið lán að þrælahald sé nú að mestu niðurlagt, þó ekki sé það að fullu. Ég vil að rætur þess og greinar verði eyðilagðar. Þá verðum við raunverulega frjáls. … Það eru miklar hræringar í gangi um að blökkumenn fái sín réttindi, en það heyrist ekki orð um blökkukonurnar; og ef blökkumenn fá sín réttindi en blökkukonurnar ekki þá munið þið sjá að blökumennirnir verða húsbændur yfir konunum og þá verður allt alveg jafn slæmt og áður.“
Sojourner Truth í ræðu sem hún flutti 1867 (Keep the thing going while things are stirring).
SUSAN_B_ANTHONY„Við beiðumst engrar sérmeðferðar, engra sérréttinda, engra sérlaga af löggjöfum okkar. Við biðjum um réttlæti, við biðjum um jafnrétti, við beiðumst þess að öll þau borgaralegu og pólitísku réttindi sem tilheyra borgurum Bandaríkjanna verði okkur og dætrum okkar tryggð að eilífu.“
Susan B. Anthony. Úr kvenréttindayfirlýsingunni sem hún flutti í Philadelphia 1876.