Nútímalegir jafnaðarmenn eru engum líkir. Að minnsta kosti eiga þeir sér fáa jafnoka þegar kemur að innihaldslausu gaspri, almennri sýndarmennsku og loforðum út í loftið. Á Íslandi þekkja menn Samfylkinguna og R-listann sem hvort um sig hefur beitt þessum aðferðum með nokkuð góðum árangri, miðað við allt og allt. Erlendis er hins vegar líklega engum blöðum um það að fletta að Anthony Blair er öðrum fremri í þessum listum, að minnsta kosti eftir að William Clinton og frú fluttu úr Hvíta húsinu. Í Reykjavík náði R-listinn völdum á sínum tíma, ekki síst vegna látlausra loforða sinna um „eyða biðlistunum“ og var þar átt við biðlista eftir leikskólaplássum. Eftir langa stjórn R-listans eru biðlistarnir vitaskuld við hestaheilsu og þær konur sem vongóðar kusu R-listann í sínum tíma vegna þessa loforðs verða sennilega allar komnar úr barneign áður en sér fyrir endann á biðlistunum. Á Bretlandi náði áðurnefndur Blair völdum á sínum tíma, ekki síst vegna látlausra loforða um að leggja til atlögu við biðlistana. Þar var átt við bið eftir aðgerðum í heilbrigðiskerfinu og lofaði Blair aftur og aftur að fækka um 100.000 manns á biðlistunum.
Óþarfi er að taka fram að nú, þegar ár er liðið af síðara kjörtímabili Blairs, þá fer því enn fjarri að Verkamannaflokkurinn hafi staðið við þetta loforð sitt. Og það staðfesta opinberar tölur – svona yfirleitt. Heilbrigðisráðuneytið breska sendir reglulega frá sér tölur um fjölda sjúklinga á biðlistum og er dró að þingkosningunum í fyrra, þegar Blair leitaði endurkjörs, þá hafði listinn staðið í stað lengi lengi. En viti menn. Skyndilega kom í ljós að aðgerðir Blairs og félaga voru að skila þessum líka fína árangri og í síðustu tölum sem birtar voru fyrir kosningar, nánar tiltekið tveimur dögum eftir að Blair boðaði til kosninga, þá kom í ljós að það hafði snarfækkað á biðlistunum. Blair og heilbrigðisráðherrann Alan Milburn fóru um landið á rauðu ljósi og héldu látlausa blaðamannafundi og hrósuðu sér ákaft fyrir að hafa „staðið við loforðið og gott betur“.
Bretar gengu að kjörborðinu hinn 7. júní í fyrra og endurkusu Blair enda hafði Blair víst náð svo fínum árangri. Daginn eftir, hinn 8. júní, birti heilbrigðisráðuneytið svo nýjar tölur um biðlistana og því miður hafði þá heldur en ekki sigið á ógæfuhliðina. Listarnir voru nefnilega orðnir næstum eins langir og þeir höfðu alltaf verið, nema akkúrat þessa daga sem Blair var í kosningabaráttu. Og þegar næstu tölur voru birtar þá voru listarnir orðnir lengri en þeir höfðu verið þegar kraftaverkið gerðist. Nú hefur verið birt skýrsla um þetta í Bretlandi og kemur þar meðal annars fram að meðal snilldarverka Blairs og félaga var ný tegund af biðlista, svo kallaður biðlisti fyrir biðlista – „waiting list to go on the waiting list“ – og þannig tókst Verkamannaflokknum að falsa tölurnar yfir þá sjúklinga sem biðu eftir aðgerð. Við þetta bætist að Blair og félagar lögðu gríðarlegan þrýsting á stjórnendur sjúkrahúsa að skera listana sem allra mest niður í tæka tíð fyrir kosningar og hafði það í för með sér að læknisfræðilegar ástæður urðu að mæta afgangi og líf fjölda sjúklinga var lagt í hættu. En Blair náði endurkjöri og það er fyrir mestu. Varla vilja menn að „þriðja leiðin“ renni út í sandinn, eða hvað?
Og halda menn að fjölmiðlamenn hér á landi muni fjalla um þetta? Ætli það verði margir Spegilsþættir helgaðir þessu eða öðru sem kynni að spilla glansmyndinni af Blair eða öðrum „nútímalegum“ vinstri mönnum? Nei, það þarf enginn að láta sér detta það í hug. Og ef leikskólabiðlistarnir hverfa hjá R-listanum rétt fyrir kosningar, þá munu íslenskir fjölmiðlamenn sennilega einungis taka því sem enn einu merkinu um stjórnvisku Ingibjargar Sólrúnar.
The Sunday Telegraph birti þetta lýsandi línurit yfir opinbera biðlista – og bað lesendur um að giska á það hvenær kosningarnar hefðu verið. Í bakgrunni er heilbrigðisráðherra Stóra-Bretlands, Alan Milburn. |