Þriðjudagur 5. febrúar 2002

36. tbl. 6. árg.

Ígærkvöldi var sagt frá því í fréttum Ríkissjónvarpsins – sennilega eina fyrirtækisins í heiminum sem hækkar verð á þjónustu sinni einn daginn til að geta „lækkað“ það aftur daginn eftir en lækkar verðið í raun ekki heldur seilist í vasa skattgreiðenda eftir tekjutapinu – að gangi tillögur einhverrar opinberrar grænmetisnefndar eftir verði „grænmeti keypt inn til landsins á heimsmarkaðsverði“ og tollar á grænmeti felldir niður en þess í stað fái íslenskir grænmetisbændur mörg hundruð milljónir króna í ríkisstyrki.

Ekki er gott að segja hvort það eru góðar fréttir eða slæmar að grænmetið verði framvegis „keypt inn á heimsmarkaðsverði“. Á hvaða verði er það keypt inn núna? Er það keypt inn undir eða yfir heimsmarkaðsverði? Það eru heldur ekki góðar fréttir að garðyrkjubændur venjist á blóðmjólkaðan spena skattgreiðenda. Það kemur hins vegar á móti að hinn óbeini styrkur sem felst í tollavernd verður felldur niður. Sennilega er betra að hafa styrkina áþreifanlega með beinum greiðslum en dulda í tollavernd. Í raun er samt varla verið að gera annað en að létta sérstökum sköttum af grænmeti en hækka þess í stað skatta á allt annað.

Þessar tillögur verða á næstu dögum kynntar sem mikill greiði við almenning þótt öllum megi vera ljóst að aðeins er verið að færa kostnaðinn af íslenskri framleiðslu á grænmeti af útsöluverði grænmetisins yfir á ríkissjóð þ.e. almenna skattgreiðendur. Þetta er álíka greiði við almenning og þegar leikskólagjöldin, komugjöldin á heilsugæsluna og afnotagjöld RÚV eru lækkuð og reikningurinn sendur sama almenningi með því að auka útgjöld ríkis og sveitarfélaga sem þýðir ekkert annað en að skattar hækka fyrr en síðar.