Mánudagur 4. febrúar 2002

35. tbl. 6. árg.

Eins og hér hefur einstaka sinnum – en þó sjaldnar en vert væri – verið minnst á, þá hafa núverandi borgaryfirvöld náð óvenjulegum árangri við stjórn höfuðborgarinnar. Á sama tíma og efnahagsástand í landinu hefur almennt verið nokkuð gott hafa skuldir borgarinnar hins vegar margfaldast – og það eins þó meirihluti vinstri manna hafi snaraukið skatta á borgarbúa, þvert á gefin loforð. Sérstaklega hefur verið eftirtektarvert að þegar ríkið hefur lækkað tekjuskattshlutfallið þá hafa borgaryfirvöll sætt lagi og hækkað útsvarsprósentuna til samræmis og hafa þannig náð að stela skattalækkunum frá borgurunum án þess að mikið beri á. Við þetta bætist svo almennt ráðaleysi borgaryfirvalda þar sem flest er látið reka á reiðanum nema það sem borgarana varðar lítið um. Embættismannakerfið þenst út – ráðhúsið sem ekki þótti nú sérstaklega lítið á sínum tíma dugir nú hvergi nærri undir alla stjórana – en á sama tíma fá borgararnir ekki lóðir undir íbúðahúsnæði nema eftir mikil harmkvæli.

Það ætti að vera hægðarleikur að bjóða borgarbúum upp á betri kost en þennan R-lista sem hefur staðið sig með þeim eindæmum og raun ber vitni. Og kannski tekst núverandi minnihluta það í kosningunum í maí. Að vísu gefur frammistaða minnihlutans undanfarin ár skattgreiðendum ekki nema mátulega mikla ástæðu til bjartsýni. Eins og menn vita hefur minnihlutinn í borgarstjórn haft fátt skynsamlegt fram að færa umfram R-listann undanfarin ár. Jú jú, minnihlutinn hefur gagnrýnt gengdarlausa skuldasöfnun og skattahækkanir vinstri manna en þegar komið hefur að útgjöldunum þá hefur minnihlutinn yfirleitt í skásta lagi setið hjá. Og frá minnihlutanum hafa einnig komið hartnær vitfirringslegar útgjaldatillögur, svo sem um víkingagarð, stórskipalægi og gríðarlega tónlistar- og ráðstefnuhöll; allt saman útgjöld sem næmu milljörðum króna.

En kannski er minnihlutinn að skána. Þannig var Björn Bjarnason, menntamálaráðherra og væntanlegt borgarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins í viðtali við sunnudagsblað Morgunblaðsins og segist Björn vilja skattalækkanir í stað skattahækkana, aukið valfrelsi borgaranna í stað miðstýringar R-listans og Björn vill hemja útgjöld borgarinnar. Og þar sem flestir viðurkenna að Björn er fremur líklegur til að standa við eigin yfirlýsingar, þá mega skattgreiðendur kannski binda einhverjar vonir við hann í næstu kosningum. Kannski.

Og kannski ekki. Í viðtalinu berst talið að leikskólamálum – en langir biðlistar eru nú eftir leikskólaplássi þrátt fyrir að R-listinn hafi beinlínis lofað að eyða þeim listum með öllu – og blaðamaður spyr Björn, eins og ekkert sé sjálfsagðara, hvort hann væri tilbúinn að „að skilgreina það svo, að öll börn, frá til dæmis 18 mánaða eða 2ja ára aldri eigi skilyrðislausan rétt á leikskólavist“. Og Björn, rétt ófarinn til þess að lofa skattalækkunum og stöðvun útgjaldaaukningarinnar, hann tekur þessu bara ekki fjarri. Mætti þá gera það sem Björn gerði því miður ekki og svara þessari spurningu með öðrum spurningum. Hvað halda menn að þetta myndi kosta skattgreiðendur? Og það sem enn meira máli skiptir, hvaðan í ósköpunum ætti mönnum að koma sérstakur réttur til þess að annað fólk taki að sér að gæta barna þeirra? Auðvitað kæmi það sér vel fyrir foreldra ungra barna að eiga bara „rétt“ á barnagæslu á kostnað skattborgaranna – og kannski skiljanlegt að þeir sem nýlega hafa eignast ung börn freistist til að óska sér slíkra reglna – en hvers konar ósvífni er þetta eiginlega? Það er komið meira en nóg af því að ístöðulitlir stjórnmálamenn búi til ný og ný „réttindi“ fólks til opinberra útgjalda – réttindi sem einn góðan veðurdag verða til þess að menn fara bara í mál við ríki eða sveitarfélög og fá skattborgarana dæmda til að greiða fyrir sig eitt og annað. – Já og af hverju má ekki nefna þetta réttu nafni? Af hverju er ekki einfaldlega beðið um beinan rétt fólks til að koma eigin börnum í opinbera geymslu á kostnað annarra manna? Af hverju ætti þetta að heita „réttur 18 mánaða gamals barns til leikskólavistar“?

Þessa réttindasýki verður að stöðva. Ef opinber aðili telur sig hafa efni og brýnar ástæður til að styrkja tiltekna hópa í ákveðnum aðstæðum, ja þá er hægt að ræða það í hvert og eitt sinn. En að láta sér detta í hug að gera skattgreiðendur beinlínis „skuldbundna“ til að veita tiltekna þjónustu um alla eilífð án tillits til nokkurs annars hlutar, það er óþolandi frekja – bæði gagnvart stjórnvöldum og skattgreiðendum nútíðarinnar en ekki síður framtíðarinnar. Þetta minnir á tilraunir ónefnds stjórnmálamanns til þess að telja skattgreiðendum trú um að ríkið sé „skuldbundið“ til að reisa gríðarstóra tónlistarhöll á kostnað skattgreiðenda. Það er eins gott að Björn Bjarnason og félagar lumi á einhverju öðru og skárra til að gleðja skattgreiðendur með í næstu kosningum en eftirláti rögnurum aðalsteinssonum landsins hugmyndir eins og þessa.