dag eru 100 ár liðin frá því Bandaríkjamenn héldu fyrst upp á skattfrelsisdag þar í landi. Árið 1902 voru Bandaríkjamenn með öðrum orðum aðeins að vinna í einn mánuð fyrir sköttunum og hina ellefu mánuði ársins fyrir sjálfa sig og sín hugðarefni. Á síðasta ári fögnuðu þeir þessum degi hins vegar í byrjun maí. Íslendingar fögnuðu þessum degi fyrir sína parta um miðjan júní á síðasta ári.
Vitaskuld er ekki reiknað með öllum þeim byrðum sem hið opinbera leggur á menn þegar skattfrelsisdagar eru reiknaðir út. Sumt er einfaldlega ekki hægt að meta til fjár með góðu móti. Ýmis höft á atvinnustarfsemi eru dýrkeypt þó ekki sé gott að segja hver raunverulegur kostnaður er af þeim. Innflutningshöft og tollar á matvöru kosta Íslendinga til að mynda stórfé á hverju ári. Líklega eru menn eina til tvær vikur á ári að vinna fyrir því óhagræði sem felst í þessum innflutningshöftum.
SUNDINUFAGNADRíki og sveitarfélög kynna þessa dagana sitt framlag til draga úr hækkunum á þjónustu og þar með að halda vísitölu neysluverðs innan ákveðinna marka. Meðal þess sem stjórnmálamennirnir bjóða upp á er að gjöld sem menn greiða fyrir ýmsa niðurgreidda þjónustu hins opinbera, eins og leikskóla, munu lækka. Raunar er oft aðeins um að ræða lækkun um þá hækkun sem varð á þessum gjöldum fyrir nokkrum dögum en látum það vera að sinni. Það sem er sérstaklega athyglisvert við þetta mál er að komin er fram spennandi aðferð til að lækka álögur á landsmenn. Hún felst einfaldlega í því að hið opinbera veiti alla þjónustu „ókeypis“ eða að minnsta kosti gegn lægra gjaldi en áður. Þetta eru mikil tíðindi og ljóst að hér hafa myndast ný tækifæri.
Er ekki hægt að hafa ókeypis leikskóla og frítt í strætó? Kostar ekki alltof mikið í sund? Hvað með 200 króna gjaldið fyrir afnot af búningsaðstöðu við ylströndina á Íslandi? Má ekki lækka það niður í tvær krónur og slá þannig á vísitöluna? Og má ekki lækka miðann í Þjóðleikhúsið um að minnsta kosti helming til að stórbæta þannig kjör þeirra sem fara í leikhús? Hið opinbera kostar gerð flestra íþróttavalla og smíði íþróttahúsa og fólkið flykkist á völlinn svo það væri stórkostleg búbót ef hið opinbera niðurgreiddi einnig aðgöngumiðann úr þúsundkalli niður í 50 krónur. Svo er líka alltof dýrt að nota símann og hanga á Netinu. Getur ekki ríkið bara sleppt því að rukka fyrir símtöl sem menn eiga um skiptiborð Landssímans? Á ekki þjóðin Landssímann og eðlilegt að þjóðin fái frí símtöl hjá sjálfri sér? Hvers vegna ætti þjóðin að borga sjálfri sér fyrir þjónustu sem hún fær hjá sjálfri sér? Það væri mjög góð leið til að lækka neysluverðsvísitöluna og passa upp á rauðu strikin. Svo mætti lengi telja. Möguleikarnir eru óþrjótandi.
Og svo geta menn haldið upp á skattfrelsisdaginn á fullveldisdaginn. Enda eru engin rauð strik í skattheimtu.