Miðvikudagur 16. janúar 2002

16. tbl. 6. árg.

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra barðist venju samkvæmt harðri baráttu fyrir hagsmunum skattgreiðenda í gær og fékk samþykki ríkisstjórnarinnar til að flýta framkvæmdum við tvær hafnir á Norð-Austurlandi. Við þetta margfaldast kostnaður vegna þessara hafna á yfirstandandi ári, en hann hafði verið áætlaður yfir 120 milljónir króna. Þar sem um er að ræða að flýta framkvæmdum hefði stór hluti kostnaðarins vissulega komið til síðar og þar með fallið á skattgreiðendur á endanum, en að hluta til verður um kostnaðarauka að ræða. Rökin fyrir að flýta framkvæmdum eru byggðarök, en nú mun svo komið að þau loðnuskip sem ættu að landa í þessum plássum komast ekki með góðu móti inn í hafnir þeirra. Af því leiðir að minni vinnu er að hafa í plássunum og byggðin því í hættu.

Segja má að fyrir þessari ákvörðun ríkisstjórnarinnar séu því nokkuð sannfærandi rök, en þó því aðeins að menn fallist á að ríkið eigi yfirleitt að sinna byggðamálum og halda uppi byggð um allt land. Það er hins vegar langt frá því að vera sjálfgefið og raunar erfitt að sjá hvernig réttlæta má að hafa fé af einum manni á tilteknu horni landsins til að annar geti búið þar sem honum sýnist án tillits til kostnaðar. Hið rétta væri að ríkið hætti framlögum til hafnargerðar og það væri látið ráðast af öðru, þá væntanlega hagkvæmni, hvar hafnir væru reknar og hversu djúpar og vel búnar þær væru. Séu hafnir niðurgreiddar gerist það sama og með aðrar niðurgreiddar vörur og þjónustu, eftirspurnin verður of mikil og framboð ekki í samræmi við eðlilega nýtingu. Greiði notendur ekki raunverð fyrir notkun hafnar þýðir það að höfnum er haldið úti á stöðum þar sem það er óarðbært. Þess háttar hafnargerð rýrir lífskjör alls almennings á landinu, þó hún kunni til skamms tíma að koma nokkrum einstaklingum til góða á kostnað annarra.

Þegar sá gállinn er á mönnum benda þeir oft á að Ísland sé harðbýlt og hér geti ekki haldist við nema mestu kappar. Þetta á að nokkru við rök að styðjast, því hér er að mörgu leyti erfiðara, og því dýrara, að búa en víða erlendis. Meðal annars þess vegna er ekki á landann bætandi að halda úti dýrri hugmynd, svokallaðri byggðastefnu, sem gerir ekkert annað en draga enn úr kostum þess að búa hér. Með því að hver maður bæri sjálfur kostnaðinn af búsetu sinni væri nokkrum áfanga náð í þeirri viðleitni að gera Ísland að ákjósanlegustu heimkynnum mannsins.